ÞJÓÐARHREYFINGIN hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er því "gerræði formanna ríkisstjórnarflokkanna", eins og komist er að orði að taka sér þau völd í hendur að gjörbreyta stefnu Íslands í öryggis- og utanríkismálum með yfirlýstum...

ÞJÓÐARHREYFINGIN hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er því "gerræði formanna ríkisstjórnarflokkanna", eins og komist er að orði að taka sér þau völd í hendur að gjörbreyta stefnu Íslands í öryggis- og utanríkismálum með yfirlýstum stuðningi við innrás Bandaríkjanna, Bretlands og hinna ,,fúsu & staðföstu" í Írak 20. marz 2003. Bent er á að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, hafi lýst þessu sem broti á stofnskrá S.Þ.

"Þetta eru stærstu mistök í utanríkismálum Íslands frá stofnun lýðveldisins, 1944. Með þessu var öryggi Íslands gjaldfellt í einu vetfangi og hættunni á aðgerðum alþjóðlegra hryðjuverkamanna boðið heim.

Með þeirri ákvörðun forsætis- og utanríkisráðherra um að setja Ísland á lista hinna ,,fúsu & staðföstu" stuðningsþjóða innrásarinnar í Írak - án þess að bera málið undir utanríkismálanefnd Alþingis - brutu þeir einnig 24. gr. þingskapalaga sem segir: "Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum."

Þjóðarhreyfingin mótmælir þeirri óvirðingu sem Alþingi og íslensku þjóðinni var sýnd með þessum verknaði og skorar á alþingismenn að hafa þá reisn fyrir hönd þingsins að krefjast þess einarðlega að ákvarðanir um öryggis- og utanríkismál þjóðarinnar séu ávallt teknar af réttum aðilum með lýðræðislegum aðferðum og ítarlegum umræðum fyrir opnum tjöldum.

Þjóðarhreyfingin krefst þess að Ísland verði tekið út af lista hinna ,,fúsu & staðföstu". Einnig krefst Þjóðarhreyfingin að forsætis- og utanríkisráðherra játi mistök sín og biðji Íslendinga afsökunar á því að hafa beitt þjóðina blekkingum um ástæður innrásarinnar og lögmæti hennar að alþjóðalögum.

Forsætis- og utanríkisráðherra, sem staðnir hafa verið að því að hafa unnið svo alvarlega gegn hugmyndum landsmanna um friðsamlegt hlutverk Íslands í alþjóðamálum, eiga að axla ábyrgð á gjörðum sínum með því að segja af sér. Ella eiga sómakærir alþingismenn að bera upp vantrauststillögu á ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar eða að öðrum kosti krefjast þess að Landsdómur fjalli um málið og úrskurði um embættisglöp ráðherranna."