19. október 2004 | Minningargreinar | 5694 orð | 1 mynd

GUÐMUNDUR ÓFEIGSSON

Guðmundur Ófeigsson fæddist í Ráðagerði í Leiru í Gullbringusýslu 8. nóvember 1915. Hann lést í Reykjavík hinn 7. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Guðrún Frímannsdóttir, f. 16. des. 1871 í Hamrakoti í Torfalækjarhreppi í Húnavatnssýslu, d. 28. maí 1952 í Reykjavík, og Ófeigur Ófeigsson, f. 23. ágúst 1858 að Húsatóftum í Skeiðahreppi í Árnessýslu, bóndi og sjómaður, síðast í Ráðagerði, d. 31. maí 1942 í Reykjavík. Guðmundur var yngstur tíu systkina, sem öll eru nú látin. Þau voru Sólveig Jóhanna, f. 1894, Tryggvi, f. 1896, Guðbjörg Anna, f. 1898, Ólafur Frímann, f. 1900, Þórdís Ísabella, f. 1902, Ófeigur J., f. 1904, Þórdís, f. 1908, Björn, f. 1912, og Vilborg, f. 1913.

Guðmundur kvæntist hinn 5. júlí 1947 eftirlifandi eiginkonu sinni Kristínu Guðmundsdóttur, f. 7. maí 1926. Foreldrar hennar voru hjónin Una Þorsteinsdóttir frá Meiðastöðum í Garði og Guðmundur Björnsson kaupmaður í Gerðum í Garði. Eftir andlát föður síns árið 1934 ólst Kristín upp á Vatnsnesi í Keflavík hjá hjónunum Bjarnfríði Sigurðardóttur og Jóhanni Guðnasyni útvegsbónda og kaupmanni í Keflavík. Börn Guðmundar og Kristínar eru: 1) Jóhann, vélfræðingur í Reykjavík, f. 10. mars 1948, kvæntur Guðrúnu Kristinsdóttur skrifstofumanni, f. 28. sept 1948. Synir þeirra eru: a) Kristinn, tölvunarfræðingur, f. 31. janúar 1975, kvæntur Erlu Ágústsdóttur viðskiptafræðingi, f. 20. júní 1976. Dóttir þeirra er Hekla Dís, f. 15. júlí 2003. b) Ólafur, viðskiptafræðingur, f. 5. júní 1976. Sambýliskona hans er Selma Svavarsdóttir viðskiptafræðingur, f. 10. nóvember 1977. Dóttir þeirra er Lísa, f. 2. maí 2003. c) Guðmundur, verslunarmaður, f. 16. september 1980. 2) Helga, meinatæknir í Reykjavík, f. 10. september 1949. Giftist Börre Martin Sördal lögfræðingi, f. 3. apríl 1949, d. 5. október 1988. Börn þeirra eru: a) Kristín, háskólanemi, f. 20. nóvember 1976. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Kristmundsson sjávarútvegsfræðingur, f. 19.12. 1972. Barn Kristínar og Þrastar Más Þrastarsonar er Sara, f. 18. júlí 1997. b) Eirik, háskólanemi, f. 23. júlí 1979. c) Marthe, framhaldsskólanemi, f. 3. mars 1986. d) Nina, framhaldsskólanemi, f. 3. mars 1986. Barn Ninu og Egils Ó. Strange er óskírður, f. 27. ágúst 2004. 3) Bjarnfríður, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f . 5. febrúar 1953, gift Guðmundi Inga Haraldsyni jarðfræðingi, f. 8. ágúst 1951. Börn þeirra eru: a) Haraldur, verkfræðingur, f. 3. nóvember 1978. b) Kristín, háskólanemi, f. 18. júní 1983. c) Björg, framhaldsskólanemi, f. 21. janúar 1987. 4) Ófeigur, skrifstofumaður í Reykjavík, f. 1. febrúar 1958, kvæntur Lilju Guðnýju Friðvinsdóttur skrifstofumanni, f. 29. apríl 1959. Dætur þeirra eru: a) Oddný, framhaldsskólanemi, f. 5. apríl 1984. b) Jóhanna Helga, framhaldsskólanemi, f. 29. apríl 1988.

Guðmundur ólst upp í Ráðagerði í Leiru til tíu ára aldurs. Fjölskyldan flutti þá til Reykjavíkur en þar bjó hann ætíð síðan. Hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1936.

Eftir fimm ár hjá endurskoðunarskrifstofu Björns Steffensen og Ara Thorlacius hóf Guðmundur störf sem skrifstofustjóri hjá Útgerðarfélaginu Júpíter og Marz hf. Starfaði hann þar sleitulaust í fimmtíu ár.

Guðmundur var alla tíð skáti af lífi og sál. Hann tók þátt í leik og starfi skátahreyfingarinnar og byggði ásamt félögum sínum m.a. skátaskálann Þrymheim í Hengli árið 1940. Hann tók virkan þátt í starfi Oddfellowreglunnar á Íslandi, og í st. nr. 12 Skúla fógeta voru honum falin ábyrgðarstörf. Hann sat um tíma í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Hann afi minn, Guðmundur Ófeigsson, lést hinn 7. október síðastliðinn saddur lífdaga og sáttur við heiminn.

Afi minn var einn sá besti maður sem ég hef kynnst og án efa sá klárasti. Hann var fjöltyngdur og þekkti mannkynssöguna betur en flestir. Mér fannst alltaf ótrúlegt að hann afi gat alltaf unnið okkur barnabörnin í Trivial Pursuit, sama hvort það var erfiða útgáfan eða unglingaspilið. Hvort svarið var Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands eða Jakob Frímann Magnússon og platan Sumar á Sýrlandi var svarið ekki lengi að koma hjá honum afa, alltaf skyldi honum takast að vinna og þá skipti engu hversu mörg við værum saman í liði á móti honum.

Ein af fyrstu minningunum sem ég á um hann afa er þegar ég var einu sinni sem oftar í pössun í Brekkugerðinu hjá honum og ömmu Kristínu og afi var að gera sig kláran fyrir Oddfellow fund. Hann var kominn í kjólfötin sín og var að setja á sig hin og þessi gullmerki sem honum hafði verið veitt í gegnum tíðina. Eftir þessa sýn var ég alveg á því að hann afi minn og nafni væri kóngur. Ég mun ávallt geyma í hjarta mínu allar þær góðu minningar sem samverustundir okkar afa í Brekkugerðinu skilja eftir sig, sama hvort það var púttmót á milli okkar á langa ganginum, afi að elda ofan í okkur krúska sem honum fannst svo gott, ég að draga fyrir hann golfsettið í þeim fjölmörgu golfmótum sem hann tók þátt í þar sem hann bað mig um að vera kylfusveinn fyrir sig eða bara við tveir að stússast á skrifstofunni í Aðalstræti sem endaði oftast með ís á Dairy Queen.

Ég kveð afa Guðmund með sorg í hjarta en er þó gífurlega þakklátur fyrir allar samverustundirnar okkar. Það skiptir máli að nýta tímann vel í þessu lífi með ástvinum sínum, maður er þakklátur fyrir þær stundir á tíma sem þessum.

Hvíl í friði, elsku afi minn.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Guðmundur Jóhannsson.

Í hvert sinn sem ég var ,,hverra mannaður" og barnaeyru mín námu nafnið Guðmundur Ófeigsson, varð ég eiginlega að rifja upp fyrir mér að það væri raunverulegt nafn afa míns. Þegar ég bjó í Noregi var hann ekki bara eini afinn á mínum snærum, heldur hreinlega eini afinn sem almennt var vitað um. Bestufeður svokallaðir fundust um allar jarðir, hver öðrum líkir fyrir mér, en Afi var sérnafn - sem hélst í hendur við framandi og orð eins og sleikjó og Ópal, krúska og lýsi, golf og annað sem rak ekki daglega á fjörur fiskiþorps í Lofoten. Nú, sem þá, vorkenni ég nánast þeim sem fengu úthlutaða aðra afa - þótt vafalaust séu þeir velflestir sæmilegir.

Afi minn er nú dáinn, eins og fyrir öllum liggur, og ekki veit ég hvort núverandi og verðandi öfum sé vorkunn að þurfa að feta í fótspor hans, eða hvort þeir séu einungis öfundsverðir af því að hafa skýra fyrirmynd að afaskap framtíðarinnar.

Við getum öll haft okkar meiningu um hvernig eigi að nýta þessar stundir sem lífið lánar. Við sjáum aðeins sandkornin sem runnin eru í tímaglasið og vitum ekki hversu mörg þau á endanum verða. Í allri óvissunni þykjumst við þó flest vita að gott líf lifað, er líf, sem þeir sem eftir eru, geta litið til sem fyrirmyndar að sínu. Afi minn lifði slíku lífi. Hann var maður sem bar með sér auðsæjan velvilja til allra lifandi hluta. Þennan velvilja skynjuðu þeir best sem næmastir eru á slíkt. Börn og dýr hændust að afa, og hann að þeim.

Fyrir föðurleysingja var hann ímynd karlmennskunnar holdi klædd - harður af sér, en verndandi, snyrtilegur án prjáls, ákveðinn án óbilgirni og skarpskyggn án hroka. Hann var laus við þann löst sem gáfum vill fylgja, að hafa ekki skilning eða þolinmæði í garð þeirra sem meira þurfa að hafa fyrir hlutunum.

Afi minn átti sjálfur ekki greiðfærustu leiðina fyrir höndum frá fæðingu, en hann nýtti sín tækifæri vel. Honum auðnaðist að lifa löngu og góðu lífi. Hvorugt er sjálfgefið, og þegar þetta tvennt fer saman, er dauðinn, eftir erfið veikindi eins og hann tókst á við, líkn frá þrautum.

Afi var þó seigur undir tímans tönn. Hann var hjartveikur og öðruvísi man ég ekki eftir honum. Ég ímynda mér að hann hafi uppskurða og spítalalega vegna oft þurft að horfast í augu við dauðann. Og í þeirri störu var afi minn ekki músin. Hann tók lífinu eins og það bar að. Það var ekki hans stíll að biðja um endurgjöf, eða Mulligan, ef hlutirnir tóku óvænta stefnu. Ég heyrði hann aldrei barma sér. Það var aðallega amma og við vandamenn hans sem báru áhyggjurnar af heilsufarslegum áhrifum þess, á rúmlega áttræðan marghjartaþræddan mann, að fara 36 holur á tveimur dögum - á Hellu. Vissulega var hann á stundum sjálfur kvíðinn þegar hann sló fyrsta teighöggið. Enda vildi hann ómögulega þola frekari hækkun á forgjöf.

Ég var oft sendur með afa í þessi stuttu keppnisferðalög, að mér skildist sem nokkurs konar hraðahindrun, því ekki var ég sérstaklega gagnlegur kylfusveinn. Heimafólk afa vissi sem var að bensínfótur hans þyngdist léttilega um nokkur kíló í fjarveru ömmu. Því þótti ekki ráðlegt að senda hann einan. En Hellisheiðin var nú samt alltaf styttri undir Jettunni hans afa en flestum öðrum bílum sem ég hef farið hana í.

Það var gaman að vera með afa meðal fólks. Alls staðar þar sem hann birtist var honum vel tekið. Sjálfur var hann yfirvegaður sem endranær og án fyrirferðar, en þegar hann leiddi mig inn í Golfskálann í Grafarholti varð undantekningarlaust uppi fótur og fit og kallað var kumpánlega til okkar úr öllum áttum og slegið á létta strengi.

Sem barn var ég alltaf næmur á lykt. Sum lykt gerði mér óglatt í hvert sinn sem ég fann hana, en lyktin af afa og hans hlutum laðaði mig að sér, ekki síst lyktin í bílskúrnum. Náttúrufræðibækur ættu með réttu að skarta mynd af bílskúrnum og geymslunum í Brekkugerði, sem kjörlendi barnabarna. Þar mátti finna allt, af því að afi veigraði sér við að henda hlutum sem gætu nýst einhverjum síðar meir, (þessi eiginleiki erfist). Til dæmis hefðu snærisspottarnir hans vafalaust náð tvisvar í kringum hringveginn. Í minningargreinum má oft lesa í gegn nísku þegar einhverjum er gefin slík sparsemi að einkunn. Afi var fjarri því að vera nískur. Hann var örlátur á sjálfan sig og eigur sínar og það voru sannkölluð uppgrip fyrir eyðslusegg á unglingsaldri að fá að aðstoða hann með einhverjum hætti. Á tímabili var afi líklega ein stöðugasta tekjulind Sambíóa og Pizzahússins, án þess þó að vera nokkurn tíma sjálfur meðal frumsýningargesta, eða gefinn fyrir ítalska matseld.

Það var aldrei komið að tómum kofunum hjá afa um nokkurn skapaðan hlut. Hann var hafsjór af fróðleik sem virtist hafa runnið ofan í hann fyrirhafnarlaust úr öllum áttum. Þegar ég þreytti vorprófin í menntaskóla flúði ég í hlýjan faðm þeirra ömmu til að eiga afdrep fyrir undirbúninginn. Þar gátu heitar máltíðir hæglega orðið fimm á dag og stundum erfitt að gera sér upp hungur. Enn erfiðara var ef til vill að melta allt andlega fóðrið sem að manni var rétt. Ef sögupróf stóð fyrir dyrum gat neðanmálsgrein úr bókinni orðið klukkustundar samræða um sögu Ottómana. Íslensk, þýsk, ensk og spænsk ljóð, eða bálkar öllu heldur, liðuðust viðstöðulaust af vörum afa. Þá sjaldan sem honum var lesefnið framandi og hafði ekki öll svörin á takteinum, var hann mættur eins og eldibrandur með uppflettirit og tvær-þrjár bækur sem tóku á efninu. Þótt mér hafi alltaf þótt erfitt að sjá samhengið í umfangsmiklu bókasafninu, en ég vil meina að Ófeigsson-kerfið taki Dewey fram um skilvirkni.

,,Ekki trufla drenginn, Guðmundur," sagði amma þegar kaffið var kólnað, og gekk gott eitt til þar sem fróðleikurinn frá afa var fæstur bundinn í aðalnámsskrá. Prófin gengu um garð og ég man fæst af því sem ég las milli máltíða. En þótt ég verði kannski eitthvað farinn að ryðga í sumu veit ég að ,,truflunum" afa míns get ég ekki gleymt þótt ég verði áttatíu og átta ára, ekki frekar en ég gleymi öðru sem hann stóð fyrir.

Nú, þegar hann er ekki lengur innan seilingar, mun ég einfaldlega þurfa að svara spurningunni sjálfur og eftir bestu getu, þegar ég stend frammi fyrir erfiðum ákvörðunum; ,,Hvað hefði afi gert?" Og ef svarið mitt kemst nálægt því sem hann hefði sjálfur gefið, veit ég að ég verð á réttri leið.Guðmundur Ófeigsson hefur yfirgefið þennan heim, en afi minn mun áfram lifa góðu lífi í mínu hjarta eins lengi og það heldur takti.

A las cinco de la tarde.

Eran las cinco en punto de la tarde.

Un niño trajo la blanca sábana

a las cinco de la tarde.

Una espuerta de cal ya prevenida

a las cinco de la tarde.

Lo demás era muerte y sólo muerte

a las cinco de la tarde.

(Federico García Lorca.)

Eirik Sørdal.

Ég kveð Guðmund föðurbróður minn og öndvegisfélaga. Hann var yngstur í systkinahópi föður míns og sá síðasti þeirra sem kveður. Aldursmunur okkar var aðeins rúm sex ár svo um margt var samband okkar sem jafnaldra.

Heilsteyptari mann en Guðmund er erfitt að finna. Hann var skýr í hugsun, glaðlyndur, velviljaður og sannur heiðursmaður. Hann flaðraði ekki upp um menn en þeir sem kynntust honum báru honum vel söguna og hann þeim því umtalsfrómur var hann með afbrigðum. Eins og vænta mátti eignaðist hann góða vini og hann var hátt metinn í fjölskyldunni.

Þegar Guðmundur hafði lokið prófi frá Verslunarskólanum réðst hann til starfa hjá Birni Steffensen og Ara Thorlacius á endurskoðunarskrifstofu þeirra. Það var honum góður skóli en eftir fimm ár þar hljóp hann undir bagga með föður mínum, Tryggva Ófeigssyni, og tók að sér skrifstofustjórastarf hjá Júpiter hf. og Marz hf. Því starfi átti Guðmundur eftir að sinna í 55 ár af fádæma samviskusemi og dugnaði.

Þá gerðu félögin út frá Hafnarfirði en árið 1947 var flutt til Reykjavíkur. Þegar mest lét gerðu félögin út fimm togara og aflinn var unninn á Kirkjusandi í glæsilegu frystihúsi félaganna. Bæjarútgerðin í Reykjavík var þá með jafn marga togara og átti einnig frystihús. Í forsvari fyrir Bæjarútgerðina voru tveir forstjórar og um 25 manns á skrifstofunni. Hjá föður mínum voru fimm á skrifstofunni í Aðalstræti 4 að Guðmundi meðtöldum, einvala lið sem gætti hags fyrirtækjanna í hvívetna. Guðmundur bar ábyrgð á bókhaldi Júpiters hf. og Marz hf. í öll þessi ár og var hamhleypa til verka. Þórður Bjarnason, bróðir Lofts, vann lengst af með Guðmundi á skrifstofunni og unnu þeir vel saman.

Saga Júpiters hf. og Marz hf. verður ekki rakin í þessum minningarorðum. Þótt sagan hafi verið farsæl þurfti oft að taka vel á og mörg þrekvirkin voru unnin. Fjölmargir tengjast þessari sögu og eiga sínar minningar. Þætti Guðmundar hefur ekki verið getið sem skyldi enda var hann hógvær með afbrigðum. Hann gætti hagsmuna fyrirtækjanna og jafnframt reyndi hann eftir mætti að halda fjárhag þeirra sjómanna á réttum kili sem þess þurftu með. Guðmundur var mannþekkjari góður og reyndi með ráðleggingum og fyrirframgreiðslum að sjá til þess að hlutur sjómanna færi ekki í súginn heldur færi sem mest til að tryggja að þeir sem treystu á framfærslu þeirra hefðu í sig og á. Margir eiga Guðmundi margt að þakka.

Guðmundar verður samt ekki eingöngu minnst fyrir vel unnin störf. Hann var m.a. drífandi útivistarmaður og skáti. Með félögum sínum fór hann fáfarnar slóðir og dreif aðra með sér. Hann fékk meira að segja mig, þjakaðan alla tíð af lofthræðslu, til að fylgja sér upp á velflesta jökla landsins. Ég átti svo eftir að endurgjalda greiðann með því að hvetja Guðmund til að fara að spila golf. Við áttum margar skemmtilegar stundir saman í golfinu og þá gjarnan ásamt frænda okkar Arnljóti Björnssyni sem nýlega var kvaddur burt í blóma síns æviskeiðs.

Þótt Guðmundur væri drífandi maður þá gifti hann sig seint. Hann bjó eins og Kristur í foreldrahúsum fram yfir þrítugt. Jóhanna amma mín var þá komin yfir sjötugt og henni fannst tími til kominn að Guðmundur fyndi sér konu og yki kyn sitt. Án þess að skýra það nánar tilkynnti hún Guðmundi að hún væri farin í heimsókn til hálfbræðra sinna Hilmars á Fremsta Gili og Bjarna á Mýrum í Húnavatnssýslu. Hún skildi Guðmund eftir einan sumarlangt fyrir sunnan þar til hún frétti að Guðmundur væri kominn með dömu í sigtið. Þá fékk hún föður minn til að sækja sig. Hún vissi sem var að Guðmundur tók allt föstum tökum sem hann byrjaði á. Guðmundur hafði nælt í Kristínu og þau urðu einstaklega samrýnd hjón.

Fyrir hönd mína og afkomenda okkar Bjargar vil ég þakka fyrir þá gleði að hafa átt Guðmund að öll þessi ár. Kæru Kristínu og myndarlegum afkomendum þeirra óskum við blessunar.

Páll Ásgeir Tryggvason.

Látinn er föðurbróðir minn, Guðmundur Ófeigsson, fyrrum skrifstofustjóri og gjaldkeri hjá h.f. Júpíter, h.f. Marz og Aðalstræti 4 h.f. í Reykjavík. Hann var Verzlunarskólagenginn og vann á skrifstofunni í ein 50 ár, síðast sem umsjónarmaður eigna félagsins.

Guðmundur var virtur og vel látinn og ótrúlega afkastamikill í starfi. Hann sá m.a.um launagreiðslur til sjómanna á skipum félaganna og til starfsmanna frystihússins á Kirkjusandi, stundum allt að 300 manns. Það kom ekki fyrir að menn fengju ekki laun sín skilvíslega greidd. Faðir minn, Tryggvi Ófeigsson, forstjóri fyrirtækisins, sá til þess að alltaf væru tiltækir í banka peningar til launagreiðslna.

Guðmundur var skáti og eitt sinn á unglingsárum mínum bauð hann okkur systrum, Herdísi og mér, með sér upp í Þrymheim, skíðaskála skátanna. Hann var á allan hátt umhyggjusamur og góður frændi, jafnlyndur og vingjarnlegur.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Kristín Guðmundsdóttir og var hjónaband þeirra friðsælt og fallegt. Reyndist hún honum einstaklega vel í veikindum hans síðustu árin. Síðasta hálft annað árið lá hann rúmfastur í Sóltúni og alla daga sat Kristín hjá honum klukkutímum saman.

Blessuð sé minning Guðmundar Ófeigssonar.

Rannveig Tryggvadóttir.

Guðmundur, afabróðir minn, lést fimmtudaginn 7. október 2004, tæplega níræður að aldri. Guðmundur var yngstur níu systkina og lifði þau öll. Hann ólst upp á Ráðagerði í Leirunni þar sem dagróðrum var sinnt með búmennsku.

Ég kynntist Guðmundi í æsku þegar ég heimsótti afa minn, Tryggva, á skrifstofu útgerðarfélagsins Júpiter & Marz í Aðalstræti 4 en Guðmundur var fjármálastjóri félagsins. Sumarið 1968 vann ég þar sem sendill og kynntist þá Guðmundi náið. Þar var einnig starfandi Ólafur, bróðir þeirra, sem þá var kominn í land eftir farsælan feril sem skipstjóri. Þar var enn einn heiðursmaðurinn Bjarni Ingimarsson, mesti aflaskipstjóri síns tíma.Ég fékk góða innsýn í líf þess tíma. Er mér minnisstætt teið sem var drukkið á skrifstofunni. Líklega tengdist sú venja samskiptum við útgerð Helleyers-bræðra í Hull á fyrri hluta síðustu aldar. Það var ungum dreng hollt að vera daglangt með slíkum heiðursmönnum. Nú hefur húsið vikið fyrir hótelbyggingu, síðutogararnir og hraðfrystistöðin á Kirkjusandi eru horfin og samræður við sjómenn um launaumslagið þagnaðar.

Guðmundur var barngóður maður eins og hann átti kyn til. Hann lagði mér nokkrar lífsreglur. Minnisstætt er mér hvað Guðmundur lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að geta varið sig. Þegar hann var ungur maður réðst einhver aftan að honum að næturlagi. Hann gat yfirbugað manninn með réttum viðbrögðum. Þann vetur fór ég að læra júdó.

Guðmundur og Kristín áttu miklu barnaláni að fagna. Guðmundur var ávallt snyrtilegur til fara og leit út eins og breskur séntilmaður. Hann kenndi mér að bursta skó þannig að glampaði af og við kímdum saman þegar ég spýtti á fyrir lokaumferðina. Á miðvikudaginn sýndi ég sjö ára dóttur minni hvernig á að bursta skó að hætti Guðmundar og við kímdum saman yfir því. Um leið varð mér hugsað til þess að nú færi hver að verða síðastur að heimsækja frænda. Daginn eftir var hann allur.

Blessuð sé minning góðs frænda. Ég votta Kristínu og frændfólki mínu samúð á þessum erfiða tíma.

Þorsteinn Þorgeirsson.

Þegar ég var lítil fannst mér gaman að heimsækja Fríðu frænku mína, dóttur Guðmundar afabróður míns og Kristínar, og var á tímabili heimagangur þar. Þangað var alltaf gott að koma. Ég á einnig góðar minningar frá þeim tíma er ég tólf ára gömul fékk það virðulega starf að vera sendill hjá Júpíter og Mars í Aðalstræti. Á skrifstofunni sem þiljuð var dökkum krossviðarþiljum upp á miðja veggi sat Guðmundur frændi við skrifborðið sitt á móti Þórði bókara og var sá sem sagði sendlinum til. Guðmundur var mér ákaflega góður og kippti sér ekki upp við smámuni. Með brúna leðurtösku í síðri ól rækti ég ýmis erindi, fór í banka og pósthús og út í Silla og Valda. Guðmundur kenndi mér að bera upp erindin á hverjum stað, sem var annað en auðvelt í byrjun. Ekki minnsta ábyrgðarstarfið var síðan að fara með gamlar, emaleraðar engjafötur út á Hótel Vík og sækja hádegismat handa skrifstofufólkinu. Súpan fór í neðstu, stærstu fötuna, og aðalrétturinn og kartöflurnar í hinar tvær minni sem rennt var upp á sama handfangið.

Það var oft mikið að gera á skrifstofunni. Afgreiðslan var opin á ákveðnum tímum, en þess á milli voru útidyrnar út í Fishersund læstar og þeir sem unnu á skrifstofunni bönkuðu tvö högg til að verða hleypt inn. Margir biðu oft afgreiðslu bak við háa borðið sem vissi inn á aðalskrifstofuna, en Guðmundur frændi sá til þess að allt gekk fyrir sig af rósemi og festu.

Í áranna rás var gaman að hitta Guðmund á mannamótum. Minnisstætt er þegar við afkomendur Tryggva bróður hans hittumst á æskustöðvum þeirra í Leirunni. Þar er nú golfvöllur, en gamli tíminn virtist skammt undan þegar Guðmundur leiddi okkur niður í fjöru og benti á varirnar þar sem bátarnir voru dregnir upp. Enn áhrifameira var þegar hann lyfti hlemminum af gömlum brunni sem hann hafði sótt vatn í sem strákur. Það var líka athyglisvert að heyra hann segja frá áhuga sínum á íþróttum alla tíð.

Guð blessi minningu Guðmundar Ófeigssonar. Ég votta fjölskyldu hans samúð mína.

Eva Hallvarðsdóttir.

Við lát Guðmundar Ófeigssonar vil ég kveðja hann nokkrum orðum. Hann var eftirminnilegur maður, jafnlyndur mannvinur og börn hændust að honum. Í samskiptum sínum við börn tók hann þau sem gilda einstaklinga, ræddi þannig við þau og fékk viðbrögð á móti í samræmi við það.

Oft er sagt að miklu skipti hvernig til takist þegar ungt fólk gengur í hjúskap, að jafnræði sé með mökum og svipað bakland. Við þetta vil ég bæta því að einnig skiptir miklu að barnabörn manns eigi, við tengdir, að góðu og innihaldsríku fjölskyldulífi að hverfa. Þrjú af mínum barnabörnum, sonarbörn, voru jafnframt barnabörn Guðmundar Ófeigssonar, dótturbörn hans og Kristínar eiginkonu hans. Heimili þeirra var fallegt og menningarlegt og þar áttu börnin athvarf og handleiðslu að fagna. Hjónin tengdu saman nýtt og gamalt, í athöfnum og þjóðlegum frásögnum og áttu þannig sinn stóra þátt í að veita börnunum veganesti út í lífið.

Það var ánægjulegt að eiga tal við Guðmund, fræðandi og skemmtilegt og ekki komið að tómum kofunum hjá honum. Barnabörnin voru dögum oftar með afa sínum á golfvellinum að aðstoða hann við burð og fleira. Heimkomin voru þau hress af hreyfingunni, útivistinni og samverunni með afanum sem ekki brá vana sínum, var hlýr og yfirvegaður og kom ýmsu gagnlegu að í önn dagsins.

Á huga minn sækja mikilsverðar minningar um stundir á heimilum hvors annars eða í ferðum saman og allt var það með blæ friðsemdar og hógværrar gleði sem er aðal hins daglega lífs.

Guðmundur Ófeigsson hafði átt við vanheilsu að búa seinustu árin. Aldurinn var orðinn hár en stofninn var sterkur og að lokum var hvíldin fengin. Ég vil þakka Guðmundi góða samfylgd um langt skeið. Megi hann hvíla í friði.

Björg Einarsdóttir.

Héðan frá Algarve í Portúgal langar mig að senda nokkur kveðjuorð um vin minn og Oddfellowbróður Guðmund Ófeigsson. Í gær þegar við flugum, í björtu og fallegu veðri, yfir suðurhluta Portúgals varð mér litið út um gluggann og hvarflaði þá hugur minn til nokkurra ára gamals samtals okkar Guðmundar. Ég var nýkominn frá þessum sömu slóðum og samtalið barst að því hvernig okkur hjónunum hefði líkað vistin. Í einfaldleik mínum hóf ég upp hástemmda lýsingu á ágæti staðarins, veðráttu og fegurð. Guðmundur hlustaði af kurteislegum áhuga á mál mitt en hóf síðan að lýsa á nákvæman hátt hvernig landslagi á þessu svæði væri háttað, þetta væri í raun eyðimörk, en nokkrar ár, sem hann flestar nefndi með nöfnum, rynnu þarna um og gerðu landið byggilegt. Af lýsingu hans mátti ráða að náttúrufegurð væri þarna ákaflega lítil, en ekki gat ég samt greint í heimsmannslegu andliti hans annað en fullkomna virðingu fyrir mínum fyrri lýsingum. Ég hlustaði hljóður á Guðmund sem sýnilega var mjög kunnugur staðháttum og spurði að lokum opinmynntur hvort hann hefði ferðast þarna mikið um. "Nei," svaraði Guðmundur, "ég hef aldrei komið til Suður-Portúgals," - en hann bara einfaldlega vissi þetta eins og svo margt annað. Úr glugganum mínum í flugvélinni í gær sannreyndi ég að allt var það rétt sem hann hafði sagt.

Þannig var Guðmundur Ófeigsson, hann var víðlesinn og fluggáfaður heiðursmaður, og þó hann hefði ekki komið til þess hluta Portúgals sem ég gisti, var hann samt á heimavelli þegar rætt var um landið. Hjá Júpíter og Mars var lífið fiskur, og þar snerust viðskiptin um Portúgal og Spán.

Kynni okkar hófust fyrir 35 árum þegar ég enn var á hálfgerðu mótunarskeiði. Ein fyrsta minning þessara kynna var sú tilfinning að vilji og skoðanir Guðmundar mótuðu mjög sterkt það félagslega umhverfi sem við störfuðum í. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þetta var ekki rétt, því þótt hann lægi ekki á skoðunum sínum eða áliti, hafði hann engan áhuga á að móta skoðanir annarra.Til þess var greind hans og skynsemi alltof mikil. Það kom þó ekki í veg fyrir að vel væri hlustað eftir orðum hans, og er ég einn þeirra sem nutu hans velvilja, góðu ráða og leiðsagnar. Það vil ég þakka að leiðarlokum.

Í vitund okkar flestra eru göfgi og mannvirðing eftirsóknarverðar í lífinu. Þetta átti Guðmundur í sínu fari. Hann var heimsmaður á þann hátt sem við lesum um í sögum af enska aðlinum. Hann mat ögun, virðingu og kurteisi mjög mikils. Samsvörun þessara skoðana sinna fann hann m.a. í golfinu, en þá íþrótt ástundaði hann í áratugi með góðum árangri. Fimm ár í röð var hann valinn í íslenska golfsveit eldri kylfinga sem atti kappi við kylfinga frá Evrópu og Ameríku í Broadmoor í Colorado. Hann sat um árabil í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur og tók virkan þátt í uppbyggingu golfvallarins í Grafarholti.

Lífið gefur og lífið tekur og veg þess sjáum við aldrei fyrir. Þegar ég horfi til baka eru það ákveðin forréttindi að hafa náð vináttu manns eins og Guðmundar Ófeigssonar og fyrir það er ég þakklátur. Oddfellowstúkan okkar, st. nr. 12, Skúli fógeti, hefur misst einn sinn besta bróður. Við Þóra sendum þér, Kristín mín, og fjölskyldu þinni innilegar samúðarkveðjur.

Ingjaldur Ásvaldsson.

Til moldar oss vígði hið mikla vald,

hvert mannslíf, sem jörðin elur.

Sem hafsjór, er rís með fald við fald,

þau falla, en guð þau telur,

því heiðloftið sjálft er huliðstjald,

sem hæðanna dýrð oss felur.

(Einar Benediktsson.)

Guðmundur Ófeigsson hefur lokið sinni lífsgöngu að lokinni tæplega 89 ára farsælli vegferð.

Hann átti sín æskuár í Ráðagerði í Leiru á Suðurnesjum eða til tíu ára aldurs. En þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og þar átti hann síðan sitt heimili.

Sem ungur maður gerðist Guðmundur skrifstofustjóri hjá Útgerðarfélaginu Júpíter og Marz hf. Þar var síðan hans starfsvettvangur, sleitulaust í hálfa öld. Í störfum sínum var hann farsæll og naut virðingar og trausts samstarfsmanna sinna.

Þegar Guðmundur var á sínu 32 aldursári eða hinn 5. júlí 1947 tók hann eitt mesta gæfuspor ævi sinnar en þá gekk hann í heilagt hjónaband með ungri og glæsilegri konu frá Suðurnesjum, Kristínu Guðmundsdóttur.

Kristín er dóttir hjónanna Unu Þorsteinsdóttur frá Meiðastöðum í Garði og Guðmundar Björnssonar kaupmanns í Gerðum, Garði. Eftir andlát föður síns ólst Kristín upp á Vatnsnesi í Keflavík hjá hjónunum Bjarnfríði Sigurðardóttur og Jóhanni Guðnasyni óðalsbónda og kaupmanni í Keflavík. Á Vatnsnesi ólst einnig upp bróðurdóttir Bjarnfríðar og uppeldissystir Kristínar, Sigríður Jónsdóttir, sem síðar giftist Jóhanni Hjartarsyni. Og það leiddi síðan til ævilangrar og traustrar vináttu á milli hjónanna Guðmundar og Stínu annars vegar og Siggu og Jóhanns hins vegar.

Guðmundur var prýddur mörgum þeim Guðs gjöfum sem þykja eftirsóknarverðar í þessu lífi. Hann var röggsamur maður og sjálfstæður, bæði í hugsun og verki. Hans innri maður var traustur og áreiðanlegur og hann bjó yfir sterkri réttlætiskennd. Guðmundur hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum sem hann tjáði sig um ef honum fannst það hæfa og hann gat einnig verið fastur fyrir ef hann taldi þörf á. En um leið var hann réttsýnn - hafði opinn huga og tók vissulega tillit til sjónarmiða annarra.

Að eðlisfari var hann félagslyndur og mikill félagsmálamaður. Allt frá barnæsku var Guðmundur skáti af lífi og sál. Hann tók þátt í leik og starfi skátahreyfingarinnar af miklum áhuga og mótaði skátastarfið og hugsjón skátahreyfingarinnar mjög lífssýn Guðmundar og hans gildismat ævilangt.

Guðmundur var mikill nákvæmnismaður í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og víst mátti treysta að því verki væri vel borgið sem hann á annað borð tók að sér að vinna. Bæði sá eiginleiki sem og það hversu minnugur og fjölfróður hann var nýttist honum vel bæði í hans ábyrgðarmikla stjórnunarstarfi sem og í þeim mörgu félags- og áhugamálum sem hann átti sér.

Guðmundur var um fimmtugt þegar hann hóf að leika golf og þá íþrótt iðkaði hann af miklum áhuga í hátt í fjóra áratugi eða allt þar til hann veiktist, fyrir þremur árum.

Guðmundur sat um tíma í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur. Á sínum tíma var hann mikill hvatamaður þess að íslenskir golfáhugamenn færu í golfferðir til útlanda, t.d. til Skotlands og síðan Bandaríkjanna. Í sjö ár var hann fyrirliði íslenska öldungaliðsins sem fór til keppni á heimsmeistaramót öldunga í Denver í Colorado í Bandaríkjunum. Og víst er að þær ferðir voru öllum þeim sem þátt tóku lífstíðarupplifun og ævintýr.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson.)

Þegar líða tók að kveldi á langri lífsgöngu Guðmundar átti hann friðsæl og hamingjurík ár í kærleiksríkri nálægð allra sinna nánustu.

En það var fyrir rúmum þremur árum að Guðmundur veiktist hastarlega og náði aldrei fyrri heilsu á ný.

Á þessum degi berast hugheilar kveðjur frá vinahjónum á Spánarströnd sem þrátt fyrir landfræðilegar fjarlægðir eru nálæg í anda. Guð blessi minningu Guðmundar Ófeigssonar.

Hjörtur Magni Jóhannsson.

Uppeldi barna er sjaldnast aðeins í höndum foreldra þeirra. Þegar best lætur er það þannig að þeir sem standa utan við innsta hring fjölskyldunnar næra einhverja þætti í fari barnanna sem foreldrar þeirra koma ekki auga á í daglegu amstri. Guðmundur Ófeigsson var slíkur áhrifavaldur í lífi okkar yngri frændsystkina hans. Hann starfaði í fimmtíu ár sem skrifstofustjóri útgerðarinnar Júpíters og Mars og það var hluti af þroskagöngu okkar í æsku að starfa sem sendlar eða skrifstofulærlingar hjá honum í skólafríum.

Satt að segja held ég að ég hafi sjaldan verið jafnánægð í starfi eins og þegar ég var sendill frá tíu ára aldri og fram á unglingsár. Þvílíkt draumastarf að fá að valsa sumarlangt um miðbæ Reykjavíkur með sendilstöskuna hengda yfir öxlina, frá Aðalstræti 4 þar sem skrifstofan var, í Fiskifélagið, Útvegsbankann, Ljósritunarstofu Sigríðar Zoega og fjölmarga aðra staði. Þess á milli gat maður æft rithöndina með því að skrifa niður áhafnarlista togaranna, leggja saman nótur á reiknivél og stimpla tékkheftin með Júpíters-stimplinum þráðbeint ofan við undirskriftarlínuna svo að Guðmundur yrði sáttur við verkið. Guðmundur var nákvæmnismaður enda mátti ekki mikið útaf bera við útgerð fjögurra eða fimm togara og rekstur frystihússins á Kirkjusandi með tvö til þrjú hundruð manns í vinnu. Þeir voru þarna fjórir bræðurnir í útgerðinni. Þeirra elstur var afi minn, útgerðarmaðurinn Tryggvi, næstur kom Ólafur sem var skipstjóri og síðar rekstrarstjóri frystihússins á Kirkjusandi, Björn rak lengi vel verslun á fyrstu hæð Aðalstrætis 4. Fimmti bróðirinn, Ófeigur læknir, var sá eini sem ekki tengdist fyrirtækinu. Björn Snæbjörnsson, eiginmaður einu eftirlifandi systur þeirra Þórdísar var einnig viðloðandi útgerðina þar sem hann hafði herbergi fyrir heildsölu sína í Aðalstrætinu. Viðkynni okkar systkinanna sem unnum þarna við þá bræður létu okkur alast upp í þeirri trú að eldri menn hlytu að vera góðir. Fleira öndvegisfólk vann á skrifstofunni sem var heill heimur út af fyrir sig. Til dæmis var hún ekki opin nema tvo tíma á þriðjudagseftirmiðdögum þegar sjómannskonurnar komu að sækja laun eiginmanna sinna. Svo var opnað sérstaklega þegar togararnir komu í land. Þá barst inn í skrifstofuna lykt af söltum sjó og okkur unga fólkinu varð starsýnt á sjómennina sem við munstruðum hátt og lágt. Þetta voru myndarmenn í þykkum bómullarskyrtum eða peysum og í ullarjökkum yfir. Á árunum milli 1960 og 1970 gekk erfiðlega að manna togarana og því voru iðulega einhverjir óreglumenn með í áhöfnunum, en Guðmundur tók því ævinlega með ró þótt það hafi ekki alltaf verið auðvelt. Á skrifstofunni ríkti gamaldags agi í bland við hlýju. Margrét Matthíasdóttir var í miklu uppáhaldi, en hún kenndi manni heilmargt um heim rekstursins og verkstýrði manni á kaffistofunni. Á morgnana voru sótt rúnstykki í Björnsbakarí, hádegismatur starfsfólksins kom í þreföldum potti frá Hótel Vík og loks var haft bakkelsi með síðdegiskaffinu sem var drukkið með kandís og úr föntum. Þegar vel lá á Guðmundi, Bjarna Ingimarssyni fyrrum aflaskipstjóra eða Þórði Bjarnasyni áttu þeir það til að spandera ís á skrifstofufólkið úr Dairy Queen ísbúðinni á neðri hæðinni. Þetta gerðist einkum á föstudögum þegar skrifstofustörfum vikunnar var lokið og búið að telja peninga ofan í launaumslög fiskvinnslufólksins á Kirkjusandi.

Umhyggja Guðmundar og bræðra hans fyrir því að starfsfólkið á skrifstofunni fengi nóg að borða átti eflaust rætur að rekja til þess að þeir höfðu sjálfir alist upp í fátækt. Eitt sinn var mér sögð sú saga að langafi og langamma hefðu ekki treyst sér til að koma í brúðkaup afa og ömmu vegna þess að þau áttu engin spariföt. Gleði þeirra yfir dugnaði og velgengni barna sinna sem lifðu hlýtur því að hafa verið mikil enda reyndust þau foreldrum sínum vel og sáu þeim farborða á efri árum. Þau reyndust okkur yngri kynslóðinni einnig vel, þótt það hefði verið með öðrum hætti. Afi og Guðmundur voru þolinmóðir við að kenna manni til verka. Rík áhersla var lögð á að allt stæðist eins og stafur á bók. Mér er það minnisstætt þegar ég spurði móðursystur mína sem bjó í Bandaríkjunum hvort þar ynnu sendlar á skrifstofum. Hún svaraði því til að þar væri allt sent með pósti og ég hugsaði með mér að krakkarnir í Ameríku færu mikils á mis.

Nú er engin togaraútgerð lengur í Reykjavík, Júpíter og Mars er löngu hætt, Aðalstræti 4 var rifið fyrir nokkrum árum og í staðinn er þar risið hótel. Miðbærinn er orðinn allur annar og menn eins og afi og Guðmundur setja ekki lengur svip sinn á hann eða á athafnalíf Reykjavíkur. Ég sé Guðmund fyrir mér koma skálmandi yfir Steindórsbílaplanið með hatt á höfðinu. Hann var yngstur systkina sinna og síðasti tengiliðurinn við aldamótakynslóðina. Hann kallaði mig stundum "Sigríði stórráðu", líkast til vegna þess að ég var framan af fremur lítil eftir aldri. Þannig átti hann sinn þátt í að koma mér og fleirum til manns.

Ég þakka Guðmundi Ófeigssyni samfylgd í æsku og votta fjölskyldu hans samúð mína.

Sigríður Þorgeirsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.