Myndlistardeild Listaháskólans hefur aðstöðu í hluta byggingarinnar á Laugarnesvegi 91. Ríkið keypti húsið af Sláturfélagi Suðurlands árið 1991 með fororði um að hún ætti að hýsa listmenntun í landinu, en ennþá er húsið einungis í fokheldu ástandi.
Myndlistardeild Listaháskólans hefur aðstöðu í hluta byggingarinnar á Laugarnesvegi 91. Ríkið keypti húsið af Sláturfélagi Suðurlands árið 1991 með fororði um að hún ætti að hýsa listmenntun í landinu, en ennþá er húsið einungis í fokheldu ástandi. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfsemi Listaháskóla Íslands fer nú fram á þremur stöðum og við þær aðstæður næst ekki fram sú samtvinnun listgreina sem hugmyndafræði hans byggir á. Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir ræddi við Hjálmar H. Ragnarsson rektor og Jóhannes Þórðarson arkitekt og komst að því að húsnæðismál skólans snúast ekki bara um staðsetningu og fermetrafjölda heldur um að hann geti uppfyllt hlutverk sitt.

Þegar Listaháskóli Íslands tók til starfa fyrir fimm árum lá fyrir fyrirheit frá stjórnvöldum um að hann fengi fullbúið húsnæði undir starfsemina. Rektor Listaháskólans, Hjálmar H. Ragnarsson, segir að á fyrstu starfsárunum hafi stjórnendurnir lagt megináherslu á að byggja skólann upp og skilgreina þarfir hans. En nú sé orðið tímabært að ræða húsnæðismálin af fullri alvöru, enda standi það skólanum mjög fyrir þrifum að vera með starfsemi á þremur stöðum í Reykjavík.

Húsnæðismál Listaháskóla Íslands hafa lengi verið til umræðu. Vorið 1991 festi ríkið kaup á fasteign Sláturfélags Suðurlands á Laugarnesvegi 91, með því fororði að hún ætti að hýsa listmenntun í landinu. Í skipulagsskrá Listaháskóla Íslands, sem lögð var fram með frumvarpi til laga um listmenntun á háskólastigi sem samþykkt voru 1995, segir að skólinn fái til afnota húsnæðið á Laugarnesvegi 91. Þar er tekið fram að húsið skuli afhendast "fullbúið til fyrirhugaðra nota".

Raunin er þó sú að ennþá er húsnæðið í Laugarnesi einungis fokhelt og aðeins hluti þess er nýttur. Myndlista- og handíðaskóli Íslands hafði um árabil aðstöðu þar, sem þótti að mörgu leyti óviðunandi, en sá skóli var lagður niður við stofnun Listaháskóla Íslands. Nú er myndlistardeild Listaháskólans með aðstöðu í hluta hússins og greiðir skólinn leigu til ríkisins fyrir afnotin.

Hjálmar segir að þegar SS-húsið í Laugarnesi var ánafnað hinum fyrirhugaða Listaháskóla Íslands hafi hugmyndin verið sú að flytja þangað þá listaskóla sem fyrir voru í landinu, en störfuðu ekki á háskólastigi, og að þannig yrði til íslenskur listaháskóli. "En þegar til kom gerðist það ekki með þeim hætti," segir Hjálmar. "Þessir skólar voru aldrei sameinaðir, heldur voru ríkisskólarnir tveir, Myndlista- og handíðaskóli Íslands og Leiklistarskóli Íslands, báðir lagðir niður. Við tókum við nemendum þessara skóla, en að öðru leyti var Listaháskólinn algjörlega ný stofnun, með eigin hugmyndafræði og stefnu. Í öllu þessu ferli, alveg frá því farið var að undirbúa stofnun Listaháskólans, lá til grundvallar það fyrirheit frá stjórnvöldum, sem margsinnis kemur fram í samningum og þingræðum, að skólinn fengi húsnæði sem fullbúið væri til notkunar. Þetta fyrirheit er enn óuppfyllt. Þá var einkum horft til Laugarnessins, en þegar betur var að gáð kom í ljós að það myndi reynast afar kostnaðarsamt að breyta því húsnæði, enda þyrfti að ráðast í gríðarlegar framkvæmdir. Óvíst er að þær breytingar og viðbætur sem gera þyrfti stæðust samanburð við nýbyggingu. Við teljum því að einnig eigi að skoða aðra möguleika."

Ítarleg greining á húsnæðisþörfum

Listaháskólinn fól arkitektastofunni Glámu-Kími að vinna ítarlega greiningu á húsnæðisþörfum skólans, undir stjórn Jóhannesar Þórðarsonar og með aðstoð Jóns Ólafs Ólafssonar. Markmiðið var að leggja mat á rýmisþörf og hvernig skipuleggja mætti húsnæði skólans með það fyrir augum að auðvelda samþættingu listgreinanna og nýta ávinninginn af sambýli þeirra til fullnustu.

Helstu niðurstöður þarfagreiningarinnar má sjá í meðfylgjandi ramma, en þær hafa ekki áður verið birtar opinberlega. Greiningin lá fyrir í árslok 2002, en Jóhannes segir að forsendur hennar hafi ekki breyst á þessum tæpu tveimur árum, og heldur styrkst ef eitthvað er. Jóhannes leggur áherslu á að ráðist hafi verið í þarfagreininguna með óbundnar hendur hvað varðar staðsetningu. "Það var ekki sérstaklega horft til hússins í Laugarnesi né nokkurrar ákveðinnar lóðar fyrir nýbyggingu. Eingöngu var unnið út frá eðli, starfsemi og hlutverki skólans, í samræmi við stefnumótun hans, og reynt að greina heildarþarfirnar. Ekki var heldur tekin afstaða til þess hvort húsið ætti að vera á einni hæð eða mörgum, byggt út frá húsum sem fyrir væru eða á auðri lóð. Það er ekki hlutverk svona þarfagreiningar, heldur að leggja mat á hvað skólinn þurfi stórt húsnæði og hvernig það eigi að vera skipulagt til að ná fram markmiðum hans. Fyrst og fremst þarf að búa til lifandi og kraftmikla stofnun sem getur ekki einungis þjónað skólanum og nemendum hans heldur mannlífinu almennt."

Hagkvæmari rekstur á einum stað

Jóhannes segir að ekki hafi verið settar fram neinar stærðartölur fyrr en í lokin, þegar búið var að greina hvernig skólinn ætti að virka, bæði innan deildanna og sem heild. "Við þarfagreininguna var kafað mjög djúpt í starfsemi skólans, í náinni samvinnu við stjórnendur og starfsmenn. Við horfðum mikið til kennsluskrárinnar, skoðuðum allar stundatöflur, bókun á fyrirlestrum og notkun á kennslustofum. Þá reyndum við að meta hvað hver deild þyrfti fyrir sig af kennslustofum og öðru rými og hvað hægt væri að samnýta. Við lögðum áherslu á að unnt yrði að ná fram sem mestri hagkvæmni í samnýtingu milli deilda. Skólinn hefur núna aðstöðu í þremur húsum á ólíkum stöðum í Reykjavík, sem hefur mikla ókosti í för með sér. Í fyrsta lagi eru nemendur og kennarar einangraðir á sínum stað og fara á mis við þann ávinning sem fælist í meiri samskiptum og samvinnu. Í öðru lagi er skólinn að reka bókasafn, mötuneyti og verkstæði á þremur stöðum, þegar unnt væri að samnýta aðstöðuna. Það segir sig sjálft að það er töluvert dýrara að reka skólann við þessar aðstæður en ef starfsemin færi öll fram á einum stað. Húsnæðið sjálft, ýmsir rekstrarþættir, tæki, búnaður og mannafli nýtast náttúrulega mun verr."

Sameiginlegt rými lífæð skólans

Bæði Jóhannes og Hjálmar leggja mikla áherslu á mikilvægi sameiginlega rýmisins sem lífæðar skólans, þar sem nemendur og kennarar úr ólíkum deildum gætu komið saman og almenningur ætti jafnframt aðkomu.

"Víðast hvar erlendis tíðkast að reknir séu sérstakir háskólar fyrir hverja listgrein," segir Hjálmar. "En sérstaða okkar felst í því að við erum með sameiginlegan háskóla sem er tiltölulega fámennur en býður upp á mjög fjölbreytt nám. Við byggjum á því að geta valið úr umsóknum og reyndin er sú að það er mjög eftirsótt að komast inn í skólann. Við viljum að nemendur í ólíkum deildum flækist dálítið hver fyrir öðrum svo það skapist sem mest samneyti þeirra á milli. Skólinn er vinnustaður og nemendurnir eiga athvarf innan sinnar deildar þar sem þeir geta unnið að verkefnum sínum í næði, en þaðan ætti jafnframt að vera stutt að fara inn í hina ólgandi iðu skólans. Það er afar mikilvægt."

Jóhannes segir að sú listamiðstöð sem skólinn gæti orðið í sameiginlegri byggingu væri afar áhugaverð. "Þarna er gert ráð fyrir að verði leikhús, tónlistarsalur, sýningarsalur, bókasafn og fleira, sem væri opið almenningi að einhverju leyti. Hjálmar nefndi að skólinn væri fámennur, en við lítum á það sem styrk hans, því þverunin á milli greina verður auðveldari eftir því sem skólinn er minni. Listaháskóli Íslands sker sig úr fyrir það hvað hann er lítill en jafnframt fjölbreyttur, og það er örugglega einstakt fyrir listnema að komast í slíkt umhverfi. Stjórnendur skólans hafa mikinn áhuga á að kalla fram þessa samtvinnun listgreina, en aðstaðan til að framkalla þann suðupott er auðvitað mjög erfið í dag, í þessum þremur húsum."

Vaxtarbroddur nær ekki að þroskast

Hjálmar nefnir í þessu sambandi að nemendur ólíkra deilda hittist sjaldan nema þeir eigi beint erindi, enda eigi þeir engan sameiginlegan vettvang. Á vorin séu fimm vikur lagðar undir samvinnuverkefni milli deilda, en við þessar aðstæður þurfi að vissu leyti að þvinga samstarfið fram. "Listaháskólinn er það fyrirbæri í íslenskri menningu sem hefur gengið lengst í þeirri þverfaglegu hugmyndafræði sem hefur rutt sér til rúms víða erlendis, og því er mikið horft til þessa skóla. Í svona litlu landi er ekki sjálfgefið að starfræktar séu listaakademíur á hverju sviði eða jafnvel listaakademíur yfirleitt. Veikleiki okkar er hvað við erum fámenn, en styrkurinn felst í því að geta haft ávinning af sambýli greinanna. Nú náum við honum einungis fram með handafli," segir Hjálmar.

Jóhannes nefnir einnig Opna listaháskólann, sem starfi innan vébanda Listaháskóla Íslands og bjóði upp á símenntun og ýmsa opna fyrirlestra. Slík starfsemi geti verið mjög dýrmæt, bæði í fræðilegu og samfélagslegu tilliti, en henni séu settar talsverðar skorður vegna húsnæðismálanna. Hjálmar tekur undir að sá vaxtarbroddur sem Opni listaháskólinn sé nái ekki að þroskast og dafna við óbreytt ástand.

Lifandi hluti af miðborginni

Spurður hvar hann teldi æskilegast að Listaháskólinn væri staðsettur til frambúðar svarar Hjálmar að það sjónarmið sé ríkjandi innan skólans að hann eigi að vera lifandi hluti af miðborg Reykjavíkur. "Sú yfirlýsing liggur fyrir frá stjórn skólans að sem eini listaháskóli landsins eigi hann að vera í miðju höfuðborgarinnar eða námunda við hana. Þessi niðurstaða byggist á löngu rannsóknarferli og miðast ekki einungis við þarfir skólans heldur hagsmuni borgarinnar sjálfrar. Það væru mistök af hálfu borgaryfirvalda að missa af því tækifæri að byggja upp samsettan listaháskóla í miðju höfuðborgarinnar, þar sem helstu menningarstofnanir landsins eru."

En Hjálmar undirstrikar að ekki sé tímabært að taka ákvörðun um staðsetningu skólans fyrr en gengið hafi verið frá fjármögnun byggingarinnar. "Fyrirheitin um skólabyggingu liggja fyrir og við leitum samstarfs við yfirvöld menntamála um að þau geti ræst, með einhvers konar samningi við ráðuneytið. Margar leiðir hafa verið ræddar, meðal annars að sérhæft húsnæði verði byggt fyrir starfsemi skólans í samvinnu við yfirvöld, sem við myndum síðan leigja til langs tíma á hóflegum kjörum. Fjölmargir kostir hafa verið skoðaðir varðandi staðsetningu slíkrar byggingar í Reykjavík, þar á meðal lóðir í miðborginni, Miklatún og Höfðatún, og endurbygging húsnæðisins við Laugarnes hefur auðvitað líka verið rædd. Þá hafa komið upp möguleikar á að flytja skólann til nágrannasveitarfélaga, en Hafnarfjarðarbær sýndi mikinn áhuga á að fá hann við höfnina og Garðabær hefur lýst vilja til að skólabyggingin rísi í fyrirhuguðu þekkingarþorpi í Urriðaholti."

Menntunin undirstaða gróskumikils menningarlífs

Hjálmar segir Listaháskóla Íslands leggja áherslu á að byggja upp sérhæft nám sem sé sambærilegt við það besta sem gerist í nágrannalöndunum. "Menntunin er undirstaða gróskumikils menningarlífs. Uppbygging skólans hefur gengið mjög vel og við teljum hann hafa sannað sig, bæði hugmyndafræðilega og samfélagslega." Jóhannes bætir við að góð aðsókn að skólanum styðji það. "Nemendur eru um 350, en umsækjendur fimm til sex sinnum fleiri, sem hafa allir lagt mikla vinnu í umsóknir sínar og skilað inn heilu tónverkunum eða möppunum með eigin listsköpun. Það verður að svara þessum þörfum og forsendan fyrir því er að hafa aðstöðuna."

Hjálmar segir að stjórnendur Listaháskólans hafi hingað til ekki sett fram háværar kröfur varðandi húsnæðismálin. "Á þessum fimm árum höfum við einbeitt okkur að því að byggja skólann upp og skilgreina þarfir hans með faglegum hætti. Næsta skref veltur á því með hvaða hætti stjórnvöld ætla að uppfylla sín fyrirheit um byggingu fyrir skólann. Þegar fjármögnunin er tryggð verður hægt að huga að staðsetningu. Við verðum vör við það frá nágrannasveitarfélögunum að það sé eftirsótt að fá þennan skóla. En ef borgaryfirvöld í Reykjavík bjóða upp á góðan kost í miðborginni myndum við kjósa það. Listaháskólinn gæti í raun og veru blómstrað hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu, en við teljum að höfuðborgin þurfi á skólanum að halda."

adalheidur@mbl.is