Díana, fyrsta strandferðaskipið.
Díana, fyrsta strandferðaskipið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Póstþjónusta á árunum 1873-1935 er að mörgu leyti tengd hérlendri samgönguþróun, enda þróunin frá póstlestum til póstvagna og frá þeim til bifreiða og flugvéla sem fluttu fólk og varning auk bréfa og böggla. Örust var þó þróunin í póstflutningum milli Íslands og útlanda og með ströndum landsins enda kepptu þar útlend félög við íslensk og hálfíslensk um hylli farþega.

Áætlunarsiglingar hafa í um 130 ár verið reknar með ströndum fram á Íslandi, en þær munu nú um það bil að líða undir lok. Póstsagu Íslands segir m.a. frá þeim sem stóðu fyrir siglingunum og er hér gripið á nokkrum stöðum niður í bókinni.

Árið 1876 var ákveðið að fjölga árlegum ferðum milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur úr sjö í tíu og skyldu þrjár þeirra vera strandferðir. Þetta voru sumarferðir og kom strandsiglingaskipið, eins og það var kallað í blöðum, upp til Seyðisfjarðar og fór þaðan kringum land. Díana eða önnur herskip fóru strandferðirnar, en Sameinaða gufuskipafélagið tók að sér aðrar ferðir gegn framlagi úr ríkissjóði Dana til millilandaferðanna og landssjóði Íslands til strandferðanna. Breytingin er fyrst og fremst sú, að strandferðir hefjast og styrkur er greiddur til þeirra úr landssjóði Íslands, samkvæmt ákvæðum í fyrstu fjárlögum frá Alþingi, þ.e. fyrir árin 1876 og 1877. Skipin Arcturus og Phönix komu nú aftur til sögu á vegum Sameinaða og voru kölluð aðalpóstskip.

Menn fögnuðu strandferðunum og séra Valdimar Briem, prestur í Hrepphólum, ritaði "...nú komust loksins á reglulegar gufuskipaferðir kringum landið, sem menn hafa svo lengi þráð eftir". Það var 11. júní 1876, sem Díana lagði af stað í fyrstu ferð til Íslands sem skyldi verða strandferð. Skipið kom við í Granton í Skotlandi og Þórshöfn í Færeyjum. Þaðan var farið til Seyðisfjarðar en ekki til Djúpavogs eins og áætlunarskipin höfðu oftast gert frá 1867. Frá Seyðisfirði hélt Díana norður og vestur um land áleiðis til Reykjavíkur með viðkomu á Raufarhöfn, Akureyri, Skagaströnd, Ísafirði og Stykkishólmi. Frá Reykjavík var haldið 11. júlí með viðkomu á sömu stöðum nema Raufarhöfn.

Hinn 1. desember 1876 ritaði Hilmar Finsen landshöfðingi bréf til ráðuneytis Íslands í Kaupmannahöfn, þar sem hann lýsir viðhorfum sínum til strandferðanna, eins og þær voru áformaðar fyrir árið 1877. Hann byrjar á að lýsa kvörtunum 29 íbúa í Austur-Skaftafellssýslu yfir því, að Díana eigi ekki að koma við á Djúpavogi á næsta ári eins og hún hafi gert frá upphafi nýja póstkerfisins og ferðir landpósta hafi verið miðaðar við. Segjast Austur-Skaftfellingar verða mjög afskiptir um póstferðir eftir þessa breytingu og kvarta: "Af því að oss virðist, að allt Ísland eigi að hafa gagn af gufuskipaferðunum kringum landið". Það kemur einnig fram í grein, sem skrifuð var í Ísafold undir lok fyrsta árs strandferðanna, að tilhögun strandferðanna sé ekki sem best. Óþarfi sé að koma við í Skotlandi, það sé bara tíma- og peningasóun. Menn eru greinilega ekki mikið að hugsa um að fá breska ferðamenn til landsins á þessum árum. Þá telur höfundur greinarinnar, að skipið ætti að byrja á að hafa viðkomu á Papós og ná þannig til suðausturlands. Það kemur einnig fram eftir fyrsta ár strandsiglinganna, að meðferð á varningi þótti ekki sem skyldi. Einhver G. skrifar í Ísafold, að pökkum sé kastað í flaustri niður í báta með svo miklu afli, að mönnum og báti geti stafað hætta af, og svo segir:

Síðar þegar vörurnar koma í land, voru þær mjög illa útlítandi t.d. kassar brotnir og pokar og pakkar sundur rifnir og svo til að kóróna allt saman vantaði á öðrum staðnum [þar sem greinarhöfundur sá til] í "colli", sem skipsmenn í ofboðinu hvorki gátu né vildu leita eftir svo öll huggun, sem viðtakandinn fékk var: "det skal nok komme naar vi igjen komme fra Reykjavík om 12 dage".

Slæm meðferð á varningi eða ókurteisleg framkoma við farþega, sem oft var kvartað undan í strandferðunum, virðist ekki hafa valdið landshöfðingja miklum áhyggjum. Hann hafði hins vegar áhyggjur af ferðum alþingismanna til þings. Það þurfi að spara útgjöld til þingferða og ferðalög á landi séu svo dýr, að margir hæfir menn til þingstarfa hafi ekki efni á því að kosta ferðir sínar til Reykjavíkur fram yfir það, sem þeir fái greitt sem þingfararkaup. Landshöfðingi metur stöðuna þannig, að verði ekki orðið við óskum þingmanna, geti það orðið vatn á myllu þeirra, sem vilji að Sameinaða taki að sér allar ferðir milli Íslands og Danmerkur, en landshöfðingja virðist ekki vel við það og vill greinilega að ríkisstjórnin reki siglingarnar að einhverju leyti áfram með herskipum sínum. Hann bendir á þá vanþekkingu, sem komið hafi fram í bréfi frá innanríkisráðuneytinu um væntanlega ágústbrottför gufuskipsins á árinu 1877 þess efnis, að skipið færi frá Reykjavík 11. ágúst, en það var fyrirhugaður þingslitadagur. Ráðuneytið hefði átt að vita, að leyfilegt væri að framlengja þingið um allt að því hálfan mánuð. Innanríkisráðuneytið sneri sig út úr þessu með því að lýsa því yfir að haga mætti brottför frá Reykjavík í áðurnefndri ferð eftir því, sem hentaði þingmönnum.

Eimskipaútgerð hinnar íslensku landsstjórnar

Strandsiglingarnar gengu ekki áfallalaust og ýmsar tilraunir gerðar, m.a. með því að fjölga ferðum Sameinaða gufuskipafélagsins áður en landssjóður tók gufuskip á leigu.

Alþingi samþykkti árið 1895 lög þess efnis, að landssjóður skyldi taka á leigu 400-600 tonna gufuskip til siglinga milli Íslands og annarra landa og til strandferða. Til þessa reksturs mátti nota allt að 150.000 krónur, en stefnt var að því, að reksturinn stæði undir sér. Skipið skyldi geta flutt 40-60 farþega á fyrsta farrými og 30-40 á öðru farrými. Semja skyldi áætlun, sem landshöfðingi varð að samþykkja. Sérstakur farstjóri átti að stjórna rekstrinum og var valinn til þess Ditlev Thomsen, kaupmaður í Reykjavík. Þá voru skipaðir tveir eftirlitsmenn, sem valdir voru af deildum Alþingis og voru það þeir Jón Vídalín kaupmaður og Jón Jakobsson (Jacobson) alþingismaður.

Ditlev Thomsen byrjaði starf sitt á því að leita að hentugu skipi fyrir væntanlega landssjóðsútgerð. Fór hann til Bretlands þeirra erinda og skoðaði mörg skip. Ekki varð af samningum þar, og niðurstaða varð sú, að Eimskipaútgerð hinnar íslensku landsstjórnar tók á leigu gufuskipið Vestu, sem var í eigu Sameinaða. Það sýnist einkennilegt að taka á leigu skip hjá væntanlegum aðalkeppinauti í siglingunum og við það bættist, að Þórarinn (eða Thor) E. Tulinius, sem sama ár hóf siglingar til Íslands fyrir eigin reikning, varð umboðsmaður Eimskipaútgerðarinnar í Kaupmannahöfn.

Kvartað yfir siglingum

Afkoma siglinganna var viðunandi framan af árinu 1896, en versnaði mjög er leið á árið. Vildi farstjórinn skila Vestu mánuði fyrr en gert var ráð fyrir og leigja annað ódýrara skip.

Þó að Vesta væri gerð út á ábyrgð innlendra aðila voru kvartanir út af henni svipaðar og vegna skipa Sameinaða. Meira að segja sagði einn bréfhirðingarmaður, að framkoma Corfitzens skipstjóra á Vestu hefði hvergi nærri verið eins og menn hefðu átt að venjast af skipstjórum Sameinaða. Tilefni þessara ummæla var það, að Corfitzen þessi lét skipa í land pósti utanvert við Blöndu án þess að láta bréfhirðingarmanninn á Blönduósi vita. Lá pósturinn þar með fragtgóssi, þar til maður einn sólginn í bréf og blöð flutti hann til bréfhirðingarmannsins. Eftir að Vesta hafði legið um hríð utan við Blönduós, létti hún snögglega akkerum, án þess að skipstjóri léti sækja póstinn í land. Varð bréfhirðingarmaðurinn að senda "Express" með póstpokann í veg fyrir skipið á Skagaströnd. Bréfhirðingarmaðurinn á Blönduósi var svo reiður, að hann sagðist vonast til að skipstjórinn yrði sektaður fyrir framkomu sína.

Frægasta kvörtunin yfir siglingum á þessum árum er runnin úr ljóði Einars Benediktssonar, Strandsiglingu, sem talið er vera frá árinu 1897. Þar segir:

- Þessa síðast ársins för þeir fóru -

fólkið hana rækir best.

Drukknir menn og krankar konur vóru

kvíuð skrans í lest.

Allt var fullt af frónska þarfagripnum.

Fyrirlitning skein af danska svipnum.

Hér virðist lýst síðustu ferð ársins, haustferð "strandsiglingaskipsins Íslendinga" eins og það er kallað í kvæðinu. Einnig kemur fram, að éljadrungi huldi ála og járnuð bringa stýfði stríðar öldur. Þegar rofaði í élin sást í hamraskaga með gráum fannakraga. Með óskáldlegu orðalagi má segja, að hér hafi skip verið á ferð í vondu veðri, miklum sjó og slæmu skyggni undan hafnlausri og vitalausri strönd. Farþegar voru alltof margir og höfðu ekki nærri allir kojupláss. Konurnar voru sjóveikar og karlarnir fullir. Var að furða, þó að skipstjórinn danski væri viðskotaillur?

Strandferðaskip Sameinaða

Sameinaða gufuskipafélagið gerði samning við Rump Íslandsherra 1897 um siglingar milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur og strandferðir þar sem m.a. var gert ráð fyrir að félagið skyldi útvega tvö skip til sérstakra strandferða.

Hinn 17. febrúar 1898 tilkynnti Sameinaða ráðuneyti Íslandsmála, að það hefði aflað sér skipa til strandferða við Ísland. Þau voru keypt frá Christianiu í Noregi og hétu Vadsø og Vardø smíðuð 1892-93. Skipin voru 160 feta löng og öll yfirbyggð að undanskildu 40 feta svæði framan við brúna. Þau höfðu verið notuð til siglinga við vesturströnd Noregs og reynst þar vel. Í þeim var vel innréttað fyrsta farrými og Sameinaða sagðist ætla að láta innrétta annað farrými fyrir 30-40 farþega á aftara millidekki. Loks var gert ráð fyrir farþegaplássi (dekksfarþegum) í framlestinni. Hinn 10. mars var breytingum á skipunum lokið, og voru þeim gefin nöfnin Skálholt og Hólar. Var embættismönnum úr ráðuneyti Íslandsmála boðið að koma og skoða skipin við Kvæsthúsbrú í Kaupmannahöfn. Sameinaða tilkynnti síðan, að brottför skipanna til Íslands væri ákveðin 2. apríl. Skyldu Hólar sigla fyrir austan land en Skálholt fyrir vestan. Gert var ráð fyrir að skipin færu strandferðir sínar á tímabilinu 15. apríl til 31. október eins og áður sagði og átti Austurlandsskipið að fara sjö ferðir, sem hver tæki 8-11 daga, en Vesturlandsskipið sex ferðir, sem tækju 9-12 daga.

Hólar og Skálholt voru af flestum talin þokkaleg skip, en gallinn var sá, að oft fluttu þau alltof marga farþega. Með góðu móti var pláss í þeim fyrir hundrað farþega, en stundum voru farþegar í þeim fjórum til fimm sinnum fleiri. Ægði þá öllu saman, fólki, vörum og skepnum og átti þá margur illa vist.

Undir árslok 1898 birtist í blaðinu Austra ágæt úttekt á siglingum Hóla og Skálholts þeirra fyrsta sumar. Er þessi grein mun jákvæðari en venjulega tíðkaðist í blaðaskrifum um siglingar Dana við Ísland. Skipstjórunum, Jakobsen á Hólum og Aasberg á Skálholti er borin vel sagan. Þeir eru sagðir "ágætir sjómenn og nákunnugir öllum leiðum kringum landið". Þá hafi þeir "sýnt farþegjum alla tilhliðrunarsemi og velvilja", t.d. með því að koma við víðar en á hinum tilteknu viðkomustöðum. Ferðir þessara nýju skipa hafi orðið til þess að létta undir með þeim landsmönnum, sem sótt hafi vinnu í aðra landshluta, og þær styrki verslunarrekstur. Það sé hins vegar sá galli á skipunum, að þau ruggi mikið. Segir blaðið, að Jakobsen skipstjóri ætli að láta laga þetta. Eftir að Austri er búinn að fjalla vandlega um Hóla og Skálholt víkur hann orðum sínum að ferðum Egils, skips Wathnes erfingja. Blaðið lýsir því, hvernig þetta skip þræði upp allar hafnir frá Akureyri til Djúpavogs og þaðan sé aðeins sólarhrings sigling til Færeyja. Síðan taki tvo sólarhringa að komast til Björgvinjar, og greinarhöfundur hefur augljóslega ferðast með skipinu þessa leið, því að hann segir að nú taki við "undurfögur leið" til Stafangurs, þar sem siglt sé innan skerja eins og "á stöðuvatni". Síðasti áfanginn er svo tveggja daga sigling til Kaupmannahafnar og allt þetta kosti aðeins 50 krónur.

Póstsaga Íslands 1873-1935 eftir Heimi Þorleifsson kemur út á vegum Íslandspósts og Sögufélagsins. Bókin er prýdd fjölda mynda og er 423 bls.