16. desember 2004 | Innlendar fréttir | 1935 orð | 2 myndir

Spegilmyndir samtímans

Sigmúnd Jóhansson teiknari og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra við undirritun samnings um kaup ríkisins á 10 þúsund myndum eftir Sigmúnd í Vestmannaeyjum í gær.
Sigmúnd Jóhansson teiknari og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra við undirritun samnings um kaup ríkisins á 10 þúsund myndum eftir Sigmúnd í Vestmannaeyjum í gær. — Morgunblaðið/Sigurgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Teikningar Sigmúnds Jóhanssonar fyrir Morgunblaðið endurspegla þjóðlífið í meira en fjóra áratugi. Í gær keypti ríkið 10 þúsund teikningar hans og hyggst gera þær aðgengilegar á Netinu. Guðni Einarsson heimsótti Sigmúnd í Vestmannaeyjum.
Sigmúnd Jóhansson hefur getið sér orð fyrir færni í listgrein sem hefur ekki notið mikillar viðurkenningar hér landi í áranna rás, eins og Sigmúnd hefur sjálfur bent á. Hugtakið skopmynd er tæpast réttnefni á myndum Sigmúnds, því þótt hann bregði skoplegu ljósi á atburði og málefni samtímans gerist það oftar en ekki að berstrípaður sannleikurinn hrópi á mann úr svarthvítum pennateikningunum. Myndir Sigmúnds sanna orðtækið um að ein mynd segi meira en þúsund orð. Hann hefur þróað list sína í meira en fjóra áratugi og í myndum hans kristallast það sem hefur verið efst á baugi í þjóðfélaginu á hverjum tíma, ásamt helstu persónum og leikendum. Myndir Sigmúnds eru því sannkallaður aldarspegill undanfarinna áratuga.

Lokaðu augunum og teiknaðu

Sigmúnd heitir fullu nafni Sigmúnd Johanson Baldvinsen. Faðir hans íslenskur og móðirin norsk. Sigmúnd fæddist í Noregi og kom til Íslands þriggja ára gamall með foreldrum sínum. Hann ólst upp fyrir norðan en eignaðist konu úr Vestmannaeyjum, Helgu Ólafsdóttur, og hefur verið búsettur þar lengi. Hann var fyrst spurður hvernig ferill hans sem teiknara hafi byrjað.

"Ég byrjaði að teikna í blöð 1960 eða 1961. Þá gerði ég forsíður fyrir Vikuna og Fálkann," segir Sigmúnd. Hann segist hafa haft gaman af að teikna frá barnæsku, þegar hann gekk í Barnaskólann á Akureyri.

"Þar var kennslukona sem kenndi mér "trixið". Uppskriftin hennar var: Lokaðu bara augunum og teiknaðu það sem þú sérð! Ég notaði þessa aðferð lengi en þarf ekki lengur að loka augunum til að sjá hvað ég á að teikna. Ég hef oft hugsað til þessarar konu með hlýhug."

Það fór ekki leynt að drengurinn var drátthagur. Sumir töldu að þarna leyndist listamannsefni og var Sigmúnd sendur til Reykjavíkur þar sem Kurt Zier rak Myndlista- og handíðaskólann. "Ég var þar í mánuð. Þá var verið að finna hvort menn væru hæfir til að teikna eftir módelum og alls konar hlutum. Ég teiknaði bara eins og venjulega, en blaðið nægði mér aldrei! Ég var alltaf að skreyta í kringum aðalmyndina með myndum af kennurum og fleiru. Eftir þennan mánuð var ég kallaður fyrir Kurt Zier og tilkynnt að ég hefði ekki þá hæfileika sem þyrfti til að vera listamaður. Ég eiginlega þakka Guði í dag fyrir að ég skyldi ekki vera talinn listamannsefni."

Þrátt fyrir þennan úrskurð blandast fáum hugur um að Sigmúnd er listamaður á sínu sviði. Hann segir að myndlistargrein sín hafi aldrei notið tilhlýðilegrar viðurkenningar hér á landi. "Menn hafa gaman af henni, en gjarnan afgreitt sem skrípamyndir. Fólk sem uppgötvar hver ég er segir: Já, þú teiknar skrípamyndir í Moggann, en hvað gerir þú annars?"

Sigmúnd segist ekki skilgreina myndir sínar sem skopmyndir, samkvæmt þess orðs hljóðan. "Þarna er bara verið að sýna daglegt líf og atburði í þessu ljósi. Bæði til að fólk geti haft gaman af því og skilji hvað er að gerast, jafnvel á bak við tjöldin."

Öguð vinnubrögð

Hver mynd Sigmúnds á nokkurn aðdraganda. Hann segist yfirleitt vinna að fjórum myndum samtímis. Dag hvern verður hann að skila fullbúinni mynd til birtingar í Morgunblaðinu jafnhliða því að undirbúa næstu myndir. En hvernig verður mynd til?

"Fyrst geri ég eina litla skissu á pínulítið blað. Geri svo aðra á stærra blað og tíni þá til smáatriðin. Loks teikna ég síðustu myndina fríhendis á sérstakan pappír sem er góður fyrir blekpenna. Ég hef bara þennan ferhyrning í Morgunblaðinu og verð að fylla inn í hann. Það er svolítið erfitt fyrir teiknara að þurfa að fylla inn í svona form. Það er hvorki hægt að hafa myndina á hæðina né breiddina."

Sigmúnd stefnir að því að ljúka hreinteikningu myndar að kvöldi og byrjar svo næsta vinnudag á að tússa myndina og fullklára. Síðan hefst hann handa við að undirbúa næstu mynd undir túss.

"Ég byrja vinnudaginn upp úr klukkan sex að morgni alla daga, sunnudaga jafnt sem aðra. Maður gerir ekki þrjár í dag eða þrjár á morgun. Þetta er eins og á sem rennur. Það alversta sem kemur fyrir mig er að fá svona truflun, eins og í dag." Það er ekki laust við að blaðamaður fái svolítið samviskubit af að heyra það. En hann er víst ekki einn um að raska hrynjandi hins daglega lífs Sigmúnds.

"Það er ekkert erfiðara en að setja aftur í gang eftir sumarfrí. Vinnubrögðin eru svona hjá mér. Ég verð helst að gera alltaf allt á sama tíma. Fá hugmyndir á sama tíma og teikna á sama tíma."

Það fer mikill tími hjá Sigmúnd í að lesa blöð, hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp því hann fiskar hugmyndir í hringiðu þjóðlífsins. "Meðan ég tússa get ég gert hvað sem er. Þá er ég með lítið sjónvarp öðrum megin og útvarp hinum megin, stillt á sitt hvora stöðina. Það þarf ekki nema eitt orð til að opna fyrir hvað ég á að gera næst. Textarnir geta verið miklu erfiðari en myndirnar. Þegar maður kann að teikna er teikningin bara vinna."

Í myndum Sigmúnds er gjarnan fjöldi smáatriða og hann segir að þeir sem lesa myndmálið læri fljótt að skilja þessi smáatriði. Sólgleraugun, sem sjaldnast eru langt undan þegar Davíð Oddsson á í hlut, tákna t.d. góðærið og bjartsýnina. Þegar góðærið var sem mest dugðu ekki færri en þrenn sólgleraugu!

Það er til marks um vægi mynda Sigmúnds í Morgunblaðinu að sérstök ástæða þykir til að tilkynna það ef hann fer í frí. Það á ekki við um nokkurn annan starfsmann Morgunblaðsins. Sigmúnd segir raunar að þetta sé gert til að létta hringingum af starfsfólki blaðsins, því ella sé mikið hringt til að spyrja hvers vegna myndina vanti.

Teikningin varð aðalstarf

Sigmúnd segir að samskipti hans og Morgunblaðsins hafi byrjað í Surtseyjargosinu, sem hófst í nóvember 1963. Franskir ævintýramenn á vegum blaðsins Paris Match urðu fyrstir til að stíga á land í eynni og varð sú landganga efni fyrstu myndar Sigmúnds í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur var í hópi Íslendinga sem síðar gengu á land í Surtsey og lentu í hrakningum. Í þeim atgangi týndi Sigurður rauðri skotthúfu, sem var einskonar einkennistákn hans. Næsta mynd Sigmúnds var af því þegar fiskar höfðu fundið húfu jarðfræðingsins. Fyrstu árin birtust tvær til þrjár myndir Sigmúnds í hverri viku. Teikningin var þá aukavinna hans með starfi við verkstjórn í frystihúsum í Vestmannaeyjum.

Í Heimaeyjargosinu 1973 urðu þau tímamót að Sigmúnd var fastráðinn við Morgunblaðið og teikningin varð hans aðalstarf. Þannig má segja að samskipti hans og Morgunblaðsins tengist á vissan hátt eldsumbrotum í Vestmannaeyjum.

Sigmúnd er hugmyndaríkur og er uppfinningamaður. Margir kannast við sjálfvirkan sleppibúnað gúmbjörgunarbáta sem hann fann upp. Hann segist hafa unnið að uppfinningum meðfram öðru, bæði verkstjórn í frystihúsi og teikningunni. "Ég hef alltaf haft svo mikla unun af því að hugsa," segir Sigmúnd. "Það vantaði eitthvað betra og eitthvað öðruvísi og ég velti vöngum þar til ég fann lausnir. Það er svo skrýtið með þessar frumur í heilanum að það er hægt að fá þær til að gera ýmislegt með því að þær fái eitthvað í staðinn."

En skyldi Sigmúnd þykja einhver mynd eftirminnilegri en aðrar í þessu safni tíu þúsund mynda?

"Ég lenti í málaferlum út af einni mynd í Geirfinnsmálinu. Hún verður mér óneitanlega eftirminnileg. Það kom hingað þýsk leynilögga og átti að leysa málið. Leyndin var svo mikil að það mátti enginn sjá hann og ekki mátti taka myndir af honum. Ég teiknaði mynd þar sem átti að afhjúpa leynilögguna og glæpakallarnir sátu á bekk." Sigmúnd segir að sér hafi komið í koll hvað hann leggur sig mikið eftir smáatriðum. "Ég ætlaði að hafa hann í búningi og það sást í SS-merki. Þetta var náttúrulega stærsti glæpur sem framinn hefur verið á Íslandi! Það urðu málaferli og ritstjórar Morgunblaðsins voru dæmdir en ég slapp við dóm því það vantaði eftirnafnið mitt við myndina. Fyrir rétti bar ég því við að á Íslandi væri SS ekkert ljótt. Við ætum allt sem frá því kæmi og leikmenn í fótbolta væru skreyttir SS-merki. Ýmsar myndir í gegnum tíðina hafa "hangið á brúninni". Það er eins og gengur."

Oft skammaður fyrir myndir

Sigmúnd segist oft hafa verið skammaður fyrir myndir sínar. Stundum hafa þeir sem eru á mynd hringt og í einu tilfelli hringdi faðir ráðherra og "hundskammaði" teiknarann. "Það er af því að menn misskilja hlutina," segir Sigmúnd. "Þegar ég teikna fólk er ekkert í mínum huga annað en að sýna hvað það er að gera. Í mínum huga er það í ákveðnu hlutverki. Það er alls ekki svo að ég hafi eitthvað persónulegt út á fólk að setja. Það er alveg sama hvar í flokki menn standa. Ég er ekki flokksbundinn. Sumir tala um að ég leggi í einelti, eins og þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Þetta er tóm vitleysa. Þó að þjóðin sé lítil er alltaf eitthvað að gerast. Það er bara þannig á Íslandi, hér í fámenninu, að sömu mennirnir eru svo áberandi. En að ég sé að teikna mann til að gera honum eitthvað? Nei, þá væri maður ekki í þessu fagi."

Sigmúnd segir að karakterarnir séu ákaflega miserfiðir. En hvað skiptir sköpum við teikningu karakters?

"Það þarf að stúdera andlitið, en maður þarf stundum svolítinn tíma til að átta sig á því hvað gerir persónuna," segir Sigmúnd. "Verstir eru þeir sem eru algerlega réttir beggja vegna, jafnhliða. Venjulega eru andlitshelmingarnir svolítið sitt á hvað. Alltaf einhver skekkja. Ef maður brosir upp í vinstra munnvik dettur augað niður sömu megin og allt öfugt hinum megin."

En skyldi teiknarinn eiga sér uppáhaldskaraktera?

"Já, þeir sem leiða ríkisstjórnina hverju sinni eru uppáhaldsleikararnir öðrum fremur. Svo koma sérlega skemmtilegir menn inn á sviðið sem setja lit á tilveruna, eins og Guðni Ágústsson. Það er alltaf gaman að honum. Eiginlega sama hvað hann segir, það er svolítið frábrugðið öðrum. Eins er Össur Skarphéðinsson og þeir í stjórnarandstöðunni. Þeir kunna ekki orðið að segja nema nei! Ég hugsa að þeir kunni ekki lengur að segja já og veit ekki hvernig þeir fara að þegar þeir mynda stjórn. Þeir vilja ekki einu sinni fá skattalækkun!"

Það eru sögð vond örlög stjórnmálamanna að lenda hvorki í grínþáttum né skopmyndum. Sigmúnd segir það vissulega rétt að til séu þingmenn, hinir mætustu einstaklingar, sem aldrei komast á blað. Hvers vegna getur verið erfitt að segja. "Menn hafa kvartað yfir því að ég teikni þá ekki. Þeir vilja láta teikna sig. Ef þingmenn koma til Vestmannaeyja þá koma þeir oftast við hér, sama úr hvaða flokki þeir eru."

Ætlar að halda áfram

Samningurinn sem gerður var í gær um myndir Sigmúnds nær frá árinu 1964 til ársloka 2004.

"Eftir það get ég safnað í önnur 40 ár," segir Sigmúnd. "Ég ætla að halda áfram að teikna. Það eina sem teiknarar þurfa að hafa áhyggjur af er að verða skjálfhentir. Teiknarar geta enst von úr viti og haldið áfram að hrella menn alveg fram á grafarbakkann. Maður veit ekkert hvað bíður manns.

Ég var svo lánsamur að lenda á blaði eins og Morgunblaðinu þar sem maður hefur algjörlega frjálsar hendur. Það er ekki haft samband nema útaf einhverju sérstöku eins og peningamálum. Aldrei til að ritstýra myndum. Margar þessar myndir fylgja ekki neinni ritstjórnarstefnu, svo langt því frá. Maður reynir að gera skil öllu sem maður getur og sér."

Hefur þú aldrei verið beðinn um að teikna mynd af einhverju sérstöku fyrir blaðið?

"Nei, þeir hafa aldrei hringt og pantað mynd, blessaðir karlarnir. Þeir eru ábygglega oft skammaðir mín vegna en það er ekkert haft samband vegna þess. Maður er gjörsamlega frjáls eins og fuglinn. Styrmir Gunnarsson ritstjóri hefur komið hingað með Árna Jörgensen fulltrúa ritstjóra en það hefur þá snúist um að spila á hljóðfæri. Styrmir lærði að spila á píanó og Árni spilar á gítar og ég grufla á orgel og hljómborð. Þeir hafa gantast með að koma einu sinni á ári og að við spilum saman. Það er ekki æft oft í þeirri hljómsveit!"

gudni@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.