STJÓRNENDUR Íbúðalánasjóðs gerðu ráð fyrir innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn og að til uppgreiðslu lána myndi koma, skv. upplýsingum Halls Magnússonar, sviðsstjóra þróunar- og almenningstengslasviðs Íbúðalánasjóðs. Hann segir það ekki rétt sem fram hafi komið í fréttaskýringu Morgunblaðsins sl. sunnudag að sjóðurinn geti komist í þrot ef framhald verður á miklum uppgreiðslum á útlánum sjóðsins. Hallur segir þó ýmislegt í grein blaðsins standast fræðilega séð.
Hallur segir að sérstaklega hafi verið haldið fyrir utan skuldabréfaskiptin sl. sumar rúmlega 120 milljörðum kr. í húsbréfum og þar að auki tryggi skiptiprósenta í útboðinu sjóðnum annað eins. ,,Það þýðir að öllu óbreyttu að sjóðurinn er með hátt í þriðja hundrað milljarða getu til þess að takast beint á við þessar breytingar, óháð öðrum þáttum sem við getum gripið til og höfum verið að grípa til í gegnum okkar mjög svo virku áhættu- og fjárstýringarstefnu og fjárstýringaraðgerðir," segir hann.
Í fréttatilkynningu Íbúðalánasjóðs í gær segir að lánshæfismatsfyrirtækið Moody's hafi staðfest "frábært lánshæfismat Íbúðalánasjóðs Aaa og telur að horfur sjóðsins séu stöðugar," eins og segir í tilkynningunni.