Flókin kerfi Stefán Kjartansson, forstöðumaður Laugardalslaugar (t.h.), ræðir við Jón Fjölni Hjartar verkfræðing um tölvukerfi laugarinnar.
Flókin kerfi Stefán Kjartansson, forstöðumaður Laugardalslaugar (t.h.), ræðir við Jón Fjölni Hjartar verkfræðing um tölvukerfi laugarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn
Laugardalur | Ný 50 metra innilaug sem verður hluti af Laugardalslaug verður vígð sunnudaginn 2. janúar, og voru starfsmenn að leggja lokahönd á ýmislegt smálegt í sundlaugarbyggingunni þegar litið var í heimsókn í gær.

Laugardalur | Ný 50 metra innilaug sem verður hluti af Laugardalslaug verður vígð sunnudaginn 2. janúar, og voru starfsmenn að leggja lokahönd á ýmislegt smálegt í sundlaugarbyggingunni þegar litið var í heimsókn í gær.

Laugin verður fyrsta 50 metra sundlaugin hér á landi sem verður lögleg fyrir allar tegundir sundmóta, þó að fjöldi áhorfenda sem komast í stúku uppfylli reyndar ekki lágmarkið fyrir Ólympíuleika, segir Kristinn J. Gíslason, deildarstjóri íþrótta og tómstunda hjá Fasteignastofu Reykjavíkur.

Laugin er mjög tæknilega fullkomin og er tækjabúnaður allur sambærilegur við það besta sem gerist í heiminum. Laugin sjálf er 51,5 metra löng og 25 metra breið, og má skipta henni upp í tvær laugar með færanlegri brú, eða nota hana sem eina 50 metra laug. Það býður t.d. upp á þann möguleika að vera með stutta 10 metra laug fyrir ungbarnasund, og er auk þess hægt að hækka 10 metra hluta af botninum í öðrum enda laugarinnar sérstaklega fyrir það hlutverk, og jafnvel hafa laugina heitari þar fyrir ungbörnin.

Laugin er sambyggð bæði gömlu Laugardalslauginni, sem og líkamsræktarstöð World Class í Laugum, og verður inngangurinn í nýju laugina og gömlu útilaugina á sama stað, og notaðir sömu búningsklefar. Þetta fyrirkomulag gerir nýju sundlaugarbygginguna mun ódýrari í byggingu og rekstri, því ekki þarf að búa til nýja búnings- og sturtuklefa, auk þess sem starfsmannaaðstaða verður öll í gömlu sundlaugarbyggingunni, segir Kristinn.

Þjóðarleikvangur í sundi

Anna Kristinsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, segir að tekist hafi að halda framkvæmdum á fjárhagsáætlun, en samanlagður kostnaður við bygginguna er 1.130 milljónir króna. Reiknað er með að laugin verði mikið notuð til æfinga og keppni hjá sundfélögum borgarinnar, auk þess sem hún verður notuð fyrir skólasund og ungbarnasund. Almenningur mun þó einnig fá aðgang að lauginni, en Kristinn segir þó að hún verði ekki opin allan daginn fyrir almenning líkt og útilaugin.

Anna segir að laugin komi til með að verða sannkallaður þjóðarleikvangur Íslendinga í sundi, og segir að ýtt verði á ríkið að koma með einhverjum hætti að starfseminni, eins og gert hefur verið með þjóðarleikvanga fyrir aðrar íþróttagreinar.