Halldór Hansen barnalæknir. Með gjöf hans til Listaháskólans er lagður grundvöllur að því að hér verði hægt að halda uppi fagmennsku á sviði tónlistarfræða hvers konar; tónvísinda og tónlistarsögu.
Halldór Hansen barnalæknir. Með gjöf hans til Listaháskólans er lagður grundvöllur að því að hér verði hægt að halda uppi fagmennsku á sviði tónlistarfræða hvers konar; tónvísinda og tónlistarsögu.
Ein höfðinglegasta gjöf einstaklings til íslenskrar menningar er vafalítið gjöf Halldórs Hansen, barnalæknis og söngvinar, til Listaháskóla Íslands.

Ein höfðinglegasta gjöf einstaklings til íslenskrar menningar er vafalítið gjöf Halldórs Hansen, barnalæknis og söngvinar, til Listaháskóla Íslands. Halldór var alla tíð mikill áhugamaður um tónlist, einkum söngtónlist, og átti gríðarmikið safn hljómplatna, myndbanda, bóka og annarra gagna um tónlist. Hann þekkti persónulega marga mestu og kunnustu söngvara heims, og var óspar á aðstoð við íslenska tónlistarnemendur sem leituðu ráða hjá honum um hvaðeina er laut að námi og störfum í listinni.

Árið 1999 leitaði Halldór til Listaháskólans með ósk um að skólinn tæki við safni sínu eftir sinn dag. Halldór vildi að safn hans yrði varðveitt á einum stað, en um þessar mundir var Listaháskólinn einmitt nýstofnaður. Tveimur árum síðar gaf Halldór Hansen skólanum safn sitt auk annarra verðmæta, meðal annars húseign sína við Laufásveg. Ákveðið var að stofna sérstakan Styrktarsjóð við Listaháskólann, kenndan við Halldór og var hann formlega stofnaður við athöfn í Salnum nú á föstudag. Stofnfé sjóðsins nemur tæpum 90 milljónum króna.

Skilyrði fyrir gjöf Halldórs var að skólinn tryggði að tónlistarsafn hans yrði notað í þágu nemenda skólans, kennara, og annarra sem leggja stund á rannsóknir og kynningu á tónlist, og það yrði skráð og gert aðgengilegt fyrir notendur hvort sem er innan skólans eða utan hans. Styrktarsjóðurinn hefði það aðalhlutverk að byggja upp og styðja við hið almenna tónlistarbókasafn skólans. Annað hlutverk hans skyldi vera að veita verðlaun til eins eða fleiri tónlistarnemenda skólans sem að mati sjóðstjórnar hefði náð framúrskarandi árangri í sinni list. Tveir nemendur skólans, Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari hlutu hvor um sig 300 þúsund króna styrk úr sjóðnum við athöfnina á föstudag, en þær stunda báðar framhaldsnám í tónlist erlendis. Þá var 8 milljóna króna framlag sjóðsins til uppbyggingar tónlistarbókasafni Listaháskólans afhent, en í ræðu Hjálmars H. Ragnarssonar rektors kom fram að ákveðið hefði verið að kaupa nótur fyrir þá upphæð á grundvelli tillagna frá Árna Heimi Ingólfssyni, tónlistarfræðingi og kennara skólans. Keyptar verða nótur að verkum allt frá miðöldum til okkar daga, og mun nótnasafnið mynda grunn að því sem háskólabókasafn í tónlist þarf að eiga. "Með þessum kaupum eignast Íslendingar í fyrsta sinn heildstætt nótnasafn sem skráð er samkvæmt ýtrustu kröfum háskólasamfélagsins og býr yfir þeirri fjölbreytni og gæðum sem nútíminn kallar á. Langþráður draumur íslensks tónlistarfólks er að rætast," sagði Hjálmar. Þá er áætlað að skráningu á plötusafni og bókakosti Halldórs Hansen ljúki í árslok eða byrjun þess næsta.

Halldór Hansen lést sumarið 2003. Gjöf hans til Listaháskóla Íslands er stórmerk. Með henni er lagður grundvöllur að því að hér verði hægt að halda uppi fagmennsku á sviði tónlistarfræða hvers konar; tónvísinda og tónlistarsögu. Þeir háskólar heims sem teljast í fremstu röð, eiga það sammerkt að státa af feiknargóðum bókasöfnum, sem laða ekki bara að sér nemendur og kennara, heldur líka fræðimenn. Á Íslandi hefur fræðimennska í tónlist af augljósum ástæðum verið handahófskennd og háð mikilli þrautseigju þeirra sem hana hafa stundað við afar lélegan aðbúnað. Safn af þessu tagi hefur einfaldlega ekki verið til hér, og grundvöllurinn að rannsóknum og fræðimennsku því enginn. Þó fjölgar ört þeim Íslendingum sem hafa menntað sig til slíkra fræða í þeirri von að úr rættist. Víst er að verkefnin eru ærin, bæði við það að koma okkur upp íslensku sjónarhorni á tónlist heimsins, en ekki síður við rannsóknir á íslenskri tónlist. Margt gott hefur þrátt fyrir allt verið gert á sviði eldri íslenskrar tónlistar, og mikilvæg gagnasöfnun virðist eiga sér stað um þessar mundir á því sviði, bæði í útgáfu og í rannsóknum á handritum. En eftir situr íslensk samtímatónlist nánast öll óbætt hjá garði, og undir hælinn lagt hvað um hana hefur verið ritað.

Með tilkomu tónlistarsafns Listaháskóla Íslands sem Halldór Hansen lagði svo höfðinglega grunninn að, er loks komið tækifærið fyrir íslenskt tónlistar- og tónvísindafólk að skapa hér hefð í tónlistarrannsóknum. Brýnt er að leysa húsnæðismál Listaháskólans til að safn þetta fái notið sín og notendur notið þess sem best. Það eru augljóslega spennandi tímar framundan í þessari grein listfræðimennsku.