SELT magn jókst töluvert hjá Íslandsmarkaði fyrir árið 2004 frá árinu á undan að sögn Eyjólfs Þórs Guðlaugssonar, framkvæmdastjóra markaðarins. "Okkur vantaði 360 tonn upp í 100 þúsund tonn á árinu 2004," segir Eyjólfur.

SELT magn jókst töluvert hjá Íslandsmarkaði fyrir árið 2004 frá árinu á undan að sögn Eyjólfs Þórs Guðlaugssonar, framkvæmdastjóra markaðarins. "Okkur vantaði 360 tonn upp í 100 þúsund tonn á árinu 2004," segir Eyjólfur. Selt magn fyrir árið 2003 nam 92 þúsund tonnum og jókst því salan sem nemur um rúm 7.600 tonn.

Hins vegar nam heildarverðmæti seldra afurða fyrir árið 2004 tæpum 11,3 milljónum kr. en var 11,4 milljónir kr. árið áður. "Þó að salan hafi verið meiri var verðmætaaukningin ekki eins og söluaukningin," segir Eyjólfur og bætir því við að afurðaverð hafi verið lækkandi hjá framleiðendum hérlendis sem leiði til þess að þeir geti ekki keypt hráefnið eins dýrt.

Alls seldust rúm 15,8 þúsund tonn af þorski og nam heildarverðmæti þorsks tæpum 2,8 milljörðum kr. Ýsan kom þar á eftir með rúm 9,6 þúsund tonn seld og nam heildarverðmætið 921 milljón kr.

Áhersla lögð á þjónustu

"Það sem við erum að gera hér er að þjónusta markaðina sem best í þessum tölvumálum og uppboðinu sem slíku þannig að þeir geti einbeitt sér að því að fá meira inn á markaðinn. Miðað við þessa aukningu hefur það nú gengið sæmilega," segir Eyjólfur. Hann segir fyrirtækið hafa tekið nýtt uppboðskerfi í notkun um mitt ár 2003 sem hafi gengið afar vel. Sífellt sé unnið að því að breyta og bæta þessa þjónustu gagnvart kaupendum og seljendum.