Stefán Svavarsson
Stefán Svavarsson
Sameinaður skóli Háskólans í Reykjavík (HR) og Tækniháskóla Íslands (THÍ) mun í haust bjóða upp á meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun. Ekki hefur verið boðið upp á nám á þessu sviði hér á landi áður.

Sameinaður skóli Háskólans í Reykjavík (HR) og Tækniháskóla Íslands (THÍ) mun í haust bjóða upp á meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun. Ekki hefur verið boðið upp á nám á þessu sviði hér á landi áður.

Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi og fyrrum lektor og dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn til viðskiptadeildar HR til þess að þróa og stjórna nýja meistaranáminu. Stefán mun einnig veita forstöðu, ásamt öðrum, meistaranámi í fjármálum sem einnig hefur göngu sína í haust, en þar verður lögð áhersla á fjármál fyrirtækja ásamt fjárfestingastjórnun, sem sett var á laggirnar sl. haust.

Námið er ætlað þeim sem hyggjast leggja stund á endurskoðun, með löggildingu í huga, eða þeim sem hafa áhuga á að starfa sem sérfræðingar á sviði reikningshalds hjá fyrirtækjum. Æskilegur undirbúningur er háskólapróf í viðskipta- eða rekstrarfræði, en umsækjendur sem hafa aðra grunnmenntun koma einnig til greina, en í hverju tilfelli verður metið hvort nægilegur undirbúningur sé fyrir hendi. Kennarar í náminu verða margir af helstu sérfræðingum landsins í reikningshaldi og endurskoðun annars vegar og fjármálum hins vegar. Þá munu fjölmargir erlendir prófessorar kenna í náminu.