Framkvæmdir við niðurrif olíutankanna, sem standa í miðju Hvaleyrarholtshverfinu í Hafnarfirði, hefjast að öllum líkindum fljótlega.
Framkvæmdir við niðurrif olíutankanna, sem standa í miðju Hvaleyrarholtshverfinu í Hafnarfirði, hefjast að öllum líkindum fljótlega. — Morgunblaðið/Þorkell
TIL stendur að flytja á brott olíutanka sem standa í miðju Hvaleyrarholtshverfinu í Hafnarfirði, og reisa 300-350 íbúðir á svæðinu.

TIL stendur að flytja á brott olíutanka sem standa í miðju Hvaleyrarholtshverfinu í Hafnarfirði, og reisa 300-350 íbúðir á svæðinu. Ef skipulagsvinna gengur að óskum gætu framkvæmdir við niðurrif tankanna hafist fljótlega og uppbygging hafist seinnihluta sumars eða næsta haust.

Olíufélagið - og síðar Olíudreifing - hafa verið með starfsemi á svæðinu í um 50 ár, og hafa lóðasamning til 100 ára, segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Það var að frumkvæði Olíufélagsins sem farið var að huga að breyttu skipulagi á þessu svæði, og hefur félagið þegar gert samning við verktaka um uppbyggingu á svæðinu.

"Við finnum að það er mikill áhugi margra sem sjá fyrir sér að búa á svæðinu. Þarna sést vel yfir bæinn og höfnina, stutt að fara á golfvöllinn, þetta er góður staður," segir Lúðvík.

Olíufélagið hefur hug á því að flytja starfsemi sína niður á hafnarsvæðið, á svipaðan stað og tankar Atlantsolíu standa nú, og segir Lúðvík að hafnarstjórn hafi tekið vel í erindi félagsins um lóð á þeim stað. Ekki verði þó allir tankarnir fluttir á nýja lóð, heldur einungis tveir til þrír tankar, enda hafi þeir ekki verið nýttir að fullu undanfarin ár.

Dýrmætt og eftirsótt land

Skipulagstillögur um íbúðabyggð á svæðinu liggja fyrir, og verða kynntar bæjarbúum á fundi í Hafnarborg mánudaginn 24. janúar kl. 17. Reiknað er með 300-350 íbúðum í nokkuð háreistari húsum en eru þar í kring, í þeim tillögum sem kynntar verða á fundinum.

"Þetta gjörbreytir öllu umhverfi þarna á svæðinu. Olíutankarnir voru á sínum tíma staðsettir aðeins fyrir utan byggð, en voru komnir inn í byggðina mjög fljótt. Það hefur verið skoðun bæjarbúa lengi að þessi starfsemi ætti að vera annars staðar, og þetta er auðvitað dýrmætt og eftirsótt land," segir Lúðvík.