DEILUR virðast nú vera innan kaþólsku kirkjunnar á Spáni um notkun á smokkum en Páfagarður hefur lengi barist gegn þeim eins og öðrum tækjum og tólum til að hindra getnað.

DEILUR virðast nú vera innan kaþólsku kirkjunnar á Spáni um notkun á smokkum en Páfagarður hefur lengi barist gegn þeim eins og öðrum tækjum og tólum til að hindra getnað.

"Smokkar hafa hlutverki að gegna í því að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis í heiminum," sagði Juan Antonio Martínez Camino, framkvæmdastjóri og talsmaður Spænska biskuparáðsins, á þriðjudag eftir að hann átti fund með Elenu Salgado heilbrigðisráðherra til að ræða leiðir til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

En í gærkvöldi gaf biskuparáðið að sögn AFP-fréttastofunnar út yfirlýsingu þar sem þessari skoðun var hafnað afdráttarlaust. "Andstætt því sem sumir hafa sagt er það ekki satt að kirkjan hafi breytt afstöðu sinni til smokka," sagði í henni. Var ítrekuð sú stefna að notkun smokka væri ósiðleg. Ekki væri verjandi að ráðleggja fólki að nota þá ef það gengi gegn siðgæði þess.

Kaþólska kirkjan hefur oft synjað beiðnum um að hún samþykki að smokkanotkun sé réttlætanleg til að berjast gegn útbreiðslu alnæmis. Páfagarður telur að smokka eigi ekki að nota til að berjast gegn HIV-smiti, vegna þess að þeir séu ónáttúruleg getnaðarvörn.

Martínez Camino sagði að afstaða kirkjunnar nyti stuðnings vísindamanna. Hann vitnaði í nýlega grein sem birtist í tímaritinu Lancet þar sem lýst er yfir stuðningi við svokallaða ABC-aðferð, sem felur í sér að vera skírlífur, trúr maka sínum og nota smokka. "Kirkjan hefur miklar áhyggjur og áhuga á þessu vandamáli," sagði hann.

Samband lesbía, homma, kynskiptinga og tvíkynhneigðra á Spáni fagnaði ákvörðuninni sem nú virðist ekki ætla að halda. "Ég held að það hafi verið óumflýjanlegt að kirkjan myndi breyta afstöðu sinni," sagði Beariz Gimeno, forseti sambandsins.

Snögg sinnaskipti

Spænska dagblaðið El País bendir á að það sé ekki lengra síðan en í nóvember sem Spænska biskuparáðið lagðist gegn herferð heilbrigðisráðuneytisins þar sem fólk var hvatt til að nota smokka. Blaðið hafði þá eftir Martínez Camino að það væru "alvarleg rangindi" að segja að getnaðarvarnir drægju úr útbreiðslu alnæmis.

Í júní sagði forseti fjölskylduráðs kirkjunnar, Alfonso Lopez Trujillo, að smokkanotkun væri "ein tegund rússneskrar rúllettu" í baráttunni gegn alnæmi.

Vinstri menn á Spánarþingi sögðu stefnubreytingu kirkjunnar "sögulegt skref í framfaraátt". Jesús Caldera, ráðherra félags- og atvinnumála í minnihlutastjórn sósíalista, fagnaði einnig stefnubreytingu kirkjunnar í gær en hann hafði þá ekki heyrt um síðasta viðsnúninginn.