Tvítugur Frakki sem býr í Danmörku og reyndi að komast á fölsku belgísku vegabréfi hingað til lands var í gær dæmdur í 45 daga fangelsi. Maðurinn var tekinn á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag.

Tvítugur Frakki sem býr í Danmörku og reyndi að komast á fölsku belgísku vegabréfi hingað til lands var í gær dæmdur í 45 daga fangelsi.

Maðurinn var tekinn á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag. Hann var með falsað belgískt vegabréf og samkvæmt upplýsingum lögregluyfirvalda leikur grunur á að maðurinn hafi verið að prófa hvort fölsunin dygði. Um er að ræða fölsun frá grunni, en ekki vegabréf þar sem skipt hefur verið um mynd eða upplýsingum í því breytt.

Maðurinn óskaði eftir hæli sem pólitískur flóttamaður og þóttist vera frá Gíneu þegar hann var tekinn. Hælismeðferðinni lauk í gær enda kom í ljós að hann var franskur ríkisborgari búsettur í Danmörku eins og fyrr sagði. Í framhaldinu var réttað yfir honum og hann dæmdur.

Dæmt í málum þriggja Eþíópíubúa

Þá er einnig búið að dæma í málum þriggja Eþíópíubúa sem teknir voru hér á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir áramótin á leið til Bandaríkjanna. Tveir þeirra voru með vegabréf annarra sem svipaði til þeirra og voru þeir í síðustu viku dæmdir í 30 daga fangelsi hvor um sig. Þriðji maðurinn, sá sem aðstoðaði þá við að komast ólöglega milli landa, var í gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, en hann er sænskur ríkisborgari upprunninn í Eþíópíu.