HÆKKUN á gjaldskrá Orkubús Vestfjarða, sem tilkynnt var í gær, hefur í för með sér að orkureikningur meðalstórs heimilis í Súðavík hækkar um 70 þúsund kr. á ári, að sögn Ómars Más Jónssonar, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.

HÆKKUN á gjaldskrá Orkubús Vestfjarða, sem tilkynnt var í gær, hefur í för með sér að orkureikningur meðalstórs heimilis í Súðavík hækkar um 70 þúsund kr. á ári, að sögn Ómars Más Jónssonar, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.

"Þetta eru skelfilegar fréttir," segir hann. "Við getum ekki unað við slíkt. Við munum leita eftir því að þetta verði lagað með einum eða öðrum hætti."

45% hækkun í byggðum með færri en 200 íbúa

Hækkanir gjaldskrárinnar ná bæði til raforkunotkunar til húshitunar og lýsingar. Eru þær mestar í dreifbýli á Vestfjörðum þar sem um er að ræða 45% hækkun.

Öll byggðarlög með færri en 200 íbúa flokkast undir dreifbýli skv. gjaldskránni. Í Súðavík búa tæplega 190 íbúar sem munu því þurfa að taka á sig 45% hækkun á orkuverði til heimilisnota. Að sögn Ómars Más hefur orkukostnaður um 150 fermetra íbúðarhúsnæðis verið um 13.000 kr. á mánuði að meðaltali eða tæp 170 þúsund á ári. Hækkunin fyrir meðalheimilið nemur um 70 þúsund kr. og fer heildarreikningurinn því upp í tæpar 235 þúsund kr. á ári.

"Ég held að þingmenn okkar hljóti að leggjast á það með okkur að laga þetta. Þessi mismunun má ekki eiga sér stað. Landsbyggðin á undir högg að sækja og það hefur lengi verið kallað eftir aðgerðum til þess að lagfæra marga þætti í byggðamálum. Þess vegna koma þessar köldu kveðjur á afskaplega slæmum tíma.

Mér skilst að Orkubúið hafi lítið með þetta að gera. Það eru aðrir sem setja leikreglurnar og í þessu tilfelli er það Orkustofnun. Ég tel að ef menn geta ekki leiðrétt þetta eða jafnað til móts við önnur svæði, þá hljóti að þurfa að koma til frekari niðurgreiðslna frá ríkinu til þess að jafna þessi búsetuskilyrði á landinu," segir Ómar Már.