SAMRÆMT stúdentspróf í íslensku var haldið í annað sinn í desember sl. Alls þreyttu 850 nemendur í 24 skólum á landsvísu prófið, 95% af þeim sem höfðu skráð sig til prófs, og hefur Námsmatsstofnun farið yfir og birt niðurstöður prófanna.

SAMRÆMT stúdentspróf í íslensku var haldið í annað sinn í desember sl. Alls þreyttu 850 nemendur í 24 skólum á landsvísu prófið, 95% af þeim sem höfðu skráð sig til prófs, og hefur Námsmatsstofnun farið yfir og birt niðurstöður prófanna.

Staðlaður einkunnastigi, eða samræmd stúdentseinkunn, var hannaður til þess að birta niðurstöður samræmdra stúdentsprófa. Meðaltalið er 75, lægsta einkunn 50 og hæsta einkunn 100. Meðaleinkunn þess hóps sem þreytti prófið var 79,7 samkvæmt einkunnastiganum. Meðaleinkunn á 1-10-einkunnastiganum var 6,2. Flestir voru með samræmda stúdentseinkunn á bilinu 75-79 og 80-84. Á skalanum 1-10 voru flestir með einkunnina 6-6,5 og 7-7,5. Þar af fengu 32 ágætiseinkunn samkvæmt samræmdu stúdentseinkunninni. Á skalanum 1-10 fengu ellefu nemendur einkunnina 9-10.

Samkvæmt upplýsingum Námsmatsstofnunar hefur sú einkunn, þ.e. 1-10, enga haldbæra túlkun. Því þótti eðlilegast að túlka frammistöðu nemenda út frá samræmdri stúdentseinkunn. Því beri að varast að leggja svipaða merkingu í 1-10-einkunn sem nemendur séu vanir úr námsmati úr skólum enda samhengi, tilgangur og efnistök samræmdra prófa frábrugðin námsmati í skólunum.

Samræmd stúdentseinkunn

Til nánari útskýringar á samræmdri stúdentseinkunn hefur einkunnin 91 verið tengd skilgreiningu á ágætisframmistöðu sem byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla. Einkunnin 59 afmarkar með sama hætti slaka frammistöðu. Meðaltal einkunnastigans var staðsett með tilliti til að landsmeðaltal heils árgangs, sem lýkur stúdentsprófi, verði 75,0.

Samræmt stúdentspróf í íslensku byggist á þeim þáttum aðalnámskrár framhaldsskóla sem lúta að bókmenntum, málnotkun og ritun. Síðastliðið vor þreyttu 442 nemendur prófið og alls hafa því tæplega 1.300 nemendur tekið það. Samræmt stúdentspróf í ensku, stærðfræði og íslensku verður svo haldið í vor og verður það í fyrsta sinn sem slík próf eru haldin í ensku og stærðfræði.