Bandarískur hermaður stendur á verði nálægt ástralska sendiráðinu í Bagdad þar sem bílsprengja sprakk í gærmorgun.
Bandarískur hermaður stendur á verði nálægt ástralska sendiráðinu í Bagdad þar sem bílsprengja sprakk í gærmorgun. — Reuters
BRESKA útvarpið, BBC , hafði eftir talsmönnum Bandaríkjahers í gær að a.m.k. 26 manns hefðu beðið bana í hrinu sprengjutilræða í Bagdad í gær.

BRESKA útvarpið, BBC, hafði eftir talsmönnum Bandaríkjahers í gær að a.m.k. 26 manns hefðu beðið bana í hrinu sprengjutilræða í Bagdad í gær. Þá settu samtökin Ansar al-Sunna, sem eru félagsskapur íraskra uppreisnarmanna, myndband á Netið sem sagt var sýna hvar tveir Írakar væru drepnir er unnið hefðu fyrir bandarískt fyrirtæki í tengslum við kosningarnar sem eiga að fara fram í Írak eftir tíu daga.

Fimm bílsprengjur sprungu í Bagdad með fyrrgreindum afleiðingum og hafa samtök Jórdanans Abu Mussabs al-Zarqawis lýst ábyrgð á fjórum þeirra á hendur sér. Árásirnar beindust annars vegar gegn ástralska sendiráðinu í Bagdad og hins vegar íröskum öryggissveitum bráðabirgðastjórnarinnar í landinu. Sjötta bílsprengjan varð suður af höfuðborginni og sú sjöunda í Mosul í Norður-Írak.

Beinist gegn kosningunum

Mest mannfall varð í sprengju sem sprakk nærri lögreglustöð í Karrada-hverfinu í Bagdad, þar dóu tólf manns og 23 til viðbótar særðust, að sögn íraskra embættismanna.

Skæruliðar í Írak, sem flestir koma úr röðum súnníta, hafa heitið því að trufla kosningarnar sem halda á 30. janúar og er ofbeldið í gær, sem var eitt það mesta á einum degi um nokkurt skeið, liður í áætlunum þeirra.

Nefnd múslímskra fræðimanna, sem eru samtök sem m.a. innihalda helstu súnníta-klerkana í Írak, fór fram á það í gær að öllum gíslum í landinu yrði sleppt úr haldi. Sagði nefndin að við upphaf Eid al-Adha-trúarhátíðarinnar væri við hæfi að lina þjáningar írasks almennings sem og annarra með þessum hætti.

Átta Kínverjar eru nú í haldi mannræningja í Írak en í gær sögðust kínversk stjórnvöld mundu gera hvaðeina til að fá þá lausa.

Bagdad, Dubai. AFP.