Vigdís Jónsdóttir færði Friðriki gjöf frá samstarfsmönnum hans.
Vigdís Jónsdóttir færði Friðriki gjöf frá samstarfsmönnum hans. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Ég lít með ánægju yfir farinn veg og þetta tímabil hjá Alþingi," sagði Friðrik Ólafsson í samtali við Morgunblaðið í gær en þá lét hann formlega af störfum sem skrifstofustjóri Alþingis eftir tuttugu ár í embætti.

"Ég lít með ánægju yfir farinn veg og þetta tímabil hjá Alþingi," sagði Friðrik Ólafsson í samtali við Morgunblaðið í gær en þá lét hann formlega af störfum sem skrifstofustjóri Alþingis eftir tuttugu ár í embætti.

"Ég á auðvitað eftir að sakna þessa góða samstarfsfólks og allra þeirra ánægjustunda sem við höfum átt saman. Ég er hreykinn af starfsliðinu, sem er sérstaklega samhentur hópur. Ég tel það mikla gæfu að hafa starfað með slíkum hópi."

Starfsfólkið kvaddi sinn gamla yfirmann með pompi og prakt í gær en í dag tekur Helgi Bernódusson við embættinu.

En hvað finnst Friðriki helst standa upp úr eftir tvo áratugi í starfi skrifstofustjóra Alþingis?

"Miklar breytingar hafa orðið á þessu tímabili og það er gaman að hafa fengið að vera þátttakandi í því," segir Friðrik. Nefnir hann sem dæmi aukinn húsakost þingsins. Þegar hann hóf störf var mjög þröngt um starfsemi þingsins, var henni komið fyrir í 3-4 húsum. Þingmenn voru þá ekki með sér skrifstofur en í dag hefur hver og einn skrifstofuaðstöðu og starfsemi þingsins er komið fyrir í 8-9 húsum.

Friðrik segist þekkja vel til starfa Helga Bernódussonar sem tekur nú við embætti skrifstofustjóra Alþingis. "Hann þekkir öll þessi störf sem þarna eru unnin," segir Friðrik um eftirmann sinn. "Hann á vafalaust eftir að hrista margt fram úr erminni, margar góðar hugmyndir. Það er ekki neinu að kvíða með hann sem eftirmann."

En hvað tekur nú við hjá Friðriki?

"Það má vel vera að skákin fái meiri tíma núna hjá mér," segir Friðrik, en hann varð stórmeistari fyrstur Íslendinga og lengi vel í hópi sterkustu skákmanna heims. "Ég þarf eiginlega að setjast niður og skipuleggja tímann. Þetta verður ekkert áfall [að hætta störfum] því það er af nógu að taka."