Bobby Fischer hefur skrifað bréf til Alþingis Íslendinga þar sem hann biður um íslenskt ríkisfang.
Bobby Fischer hefur skrifað bréf til Alþingis Íslendinga þar sem hann biður um íslenskt ríkisfang. — Reuters
SKÁKMEISTARINN Bobby Fischer hefur skrifað bréf sem sent verður Alþingi Íslendinga, þar sem skákmeistarinn sækir um íslenskt ríkisfang. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, staðfestir þetta, en hann ræddi við Fischer í gær.

SKÁKMEISTARINN Bobby Fischer hefur skrifað bréf sem sent verður Alþingi Íslendinga, þar sem skákmeistarinn sækir um íslenskt ríkisfang. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, staðfestir þetta, en hann ræddi við Fischer í gær.

Þó það kunni að flækja málið að Fischer er skráður bandarískur ríkisborgari er í lögum gert ráð fyrir þeim möguleika, að útlendingar sem fá íslenskt ríkisfang með lögum frá Alþingi beri tvöfalt ríkisfang.

Í kynningu dómsmálaráðuneytisins á reglum um íslenskan ríkisborgararétt segir meðal annars:

"Þegar útlendingi er veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum frá Alþingi er ekki gerð krafa til þess að hann afsali sér fyrri ríkisborgararétti sínum til þess að fá íslenska ríkisborgararéttinn. Hins vegar getur verið að lög ríkis þess sem útlendingurinn átti ríkisborgararétt í kveði á um að ríkisborgararéttur hans í því ríki falli niður er hann fær ríkisborgararétt í öðru ríki."

Dómari féllst ekki á beiðni um flutning til Íslands

"Fischer er skráður ríkisborgari í Bandaríkjunum, þó búið sé að taka af honum vegabréfið og eyðileggja það. Hann er því vegabréfslaus. Ef honum er bæði veitt landvist hér og íslenskt vegabréf þá er hann í sömu stöðu og margir aðrir sem geta verið með tvö vegabréf," segir Sæmundur.

Að sögn hans má búast við að það liðið geti nokkur tími áður en bréfið frá Fischer berst hingað til lands, þar sem það fer fyrst um hendur yfirvalda í búðunum þar sem Fischer er í varðhaldi.

Fischer uppfyllir ekki almenn lagaskilyrði um veitingu ríkisborgararéttar en Alþingi getur veitt undanþágur frá skilyrðunum og veitt ríkisborgararétt með lögum. Á síðasta ári var t.d. 17 íþróttamönnum veitt ríkisfang með þessum hætti

Dómari í Japan féllst ekki á beiðni um flutning Bobby Fischers til Íslands þegar mál hans kom fyrir dómara í gærmorgun. Lögfræðingar Fischers lýstu því í gær að hann myndi sækja um ríkisborgararétt á Íslandi til að auka möguleika sína á að fá sig fluttan til landsins. Verður málið næst tekið fyrir í réttinum 1. febrúar.

Þjáist af svima og höfuðverk

Miyoko Watai, heitkona Fischers, sagði á fréttamannafundi í Japan í gær að Fischer liði illa í fangelsinu í Japan og hann hrópaði á þá sem heimsækja hann að hjálpa sér þaðan út.

Sæmundur tekur undir þetta og segir Fischer kvarta um það í samtölum við sig að hann þjáist af höfuðverk og svima. Þetta hafi hann endurtekið nú síðast í samtali þeirra í gærmorgun.