[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Íslenskir neytendur hafa sennilega helst vitneskju um að til séu umhverfismerkt hreinsiefni, hreinlætispappír, pappír og máske prentþjónusta," segir Sigrún Guðmundsdóttir hjá Umhverfisstofnun en hún hefur umsjón með norræna umhverfismerkinu,...

"Íslenskir neytendur hafa sennilega helst vitneskju um að til séu umhverfismerkt hreinsiefni, hreinlætispappír, pappír og máske prentþjónusta," segir Sigrún Guðmundsdóttir hjá Umhverfisstofnun en hún hefur umsjón með norræna umhverfismerkinu, Svaninum, á Íslandi. Svanurinn er fimmtán ára um þessar mundir.

Annaðhvert ár er gerð Gallupkönnun þar sem skoðað er hversu vel Norðurlandabúar þekkja Svaninn. Á Íslandi þekkja um 50% Svaninn en hversu vel þeir vita fyrir hvað hann stendur er svo óræðara, að sögn Sigrúnar. Þekking fólks á Svaninum er minnst á Íslandi en mest í Svíþjóð þar sem yfir 90% þekkja merkið.

Íslendingar virðast ekki láta sig umhverfismerkingar svo ýkja miklu skipta. Það hefur heldur farið minnkandi að fólk athugi hvort vörur sem það kaupir eru umhverfisvænar, samkvæmt könnununum sem gerðar eru annað hvert ár. Og þeim sem athuga aldrei hvort vörurnar í innkaupakörfunni eru umhverfisvænar hefur fjölgað frá árinu 2000 og er hlutfall þeirra orðið svipað og árið 1997, eftir að hafa lækkað á árunum 2000 og 2002.

Í Noregi vita þrír af hverjum fjórum fyrir hvað merkið stendur og á norskum matvörumarkaði er veltan með Svansmerktar vörur yfir fjórtán milljarðar íslenskra króna. Að sögn Sigrúnar liggja slíkar upplýsingar ekki fyrir á Íslandi.

Markmiðið með Svaninum var m.a. að auðvelda neytendum að velja umhverfisvænar vörur. Upphafið að merkinu má rekja til samstarfs norrænna ráðherra neytendamála á vegum Norðurlandaráðs. Litið er til áhrifa viðkomandi vöru bæði á ytra umhverfi og á heilsu fólks þegar metið er hvort hún á að hljóta umhverfismerkið. Skerpt er reglulega á kröfunum og þannig verða umhverfismerktu vörurnar æ betri m.t.t. umhverfisins. Gæðakröfur eru einnig gerðar til að tryggja að vörurnar séu ekki lélegar, að sögn Sigrúnar. "Þannig er þvottaefni t.d. sett í þvottapróf, það verður jú að hreinsa og vera umhverfisvænt því það er ekkert mál að búa til umhverfisvænt efni sem hefur enga þvottavirkni."

Að sögn Sigrúnar eru viðmiðunarreglur Svansins tæplega 60 og sumir vöruflokkarnir sem Svanurinn hefur viðmið fyrir eru ekki framleiddir hér á landi. "Ef við tökum dæmi um vöruflokka sem íslensk fyrirtæki hafa áhuga á þá er það ræstingaþjónusta, hótel og farfuglaheimili, prentþjónusta og síðast en ekki síst hreinsiefni fyrir iðnað og matvælaframleiðslu en slík viðmið eru einmitt nýfarin í umsögn hér á landi"

Á síðustu árum hefur Svanurinn einnig náð til þjónustugreina eins og hótela, framköllunarstofa og verslana. Sú tillaga hefur komið upp að umhverfismerkja hús sérstaklega og verið er að skoða möguleika á að setja Svaninn á umhverfisvænstu bílana.

www.ust.is www.ecolabel.no

steingerdur@mbl.is