SAMÞYKKT var í borgarstjórn á þriðjudaginn, að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á kaupum borgarinnar á Stjörnubíósreitnum ofarlega á Laugavegi.

SAMÞYKKT var í borgarstjórn á þriðjudaginn, að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á kaupum borgarinnar á Stjörnubíósreitnum ofarlega á Laugavegi. Á meðal annars að leggja mat á verð lóðarinnar miðað við heimilað byggingarmagn og gera úttekt á framkvæmd útboðs vegna byggingar á lóðinni. Einnig á innri endurskoðun að meta hvort samþykktum borgarráðs um það útboð hafi verið framfylgt.

"Þrátt fyrir að borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans hafi samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að fela innri endurskoðunardeild úttekt á kaupum borgarinnar á Stjörnubíósreit, er það skoðun okkar að þetta mál sé ekki þess eðlis að tilefni sé til að það sé tekið fram fyrir þau mál sem deildin hefur sjálf í starfsáætlun talið tilefni til að gera úttekt á," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, þegar hún las bókun R-listans við afgreiðslu málsins.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði ekki þjónað skipulagshagsmunum borgarinnar að kaupa umrædda lóð. Þar að auki hefði verð lóðarinnar, sem var keypt af Jóni Ólafssyni kaupsýslumanni, verið allt of hátt. Borgin hefði greitt um 39 þúsund krónur á hvern fermetra byggingarréttar. Ef miðað væri við verð góðra lóða við Laugaveg þessum tíma hefði það verið 25 þúsund krónur. Kostnaður borgarinnar vegna kaupanna næmi 157,5 milljónum króna.

Vafasöm lóðakaup

Kjartan sagði þá skýringu hafa verið búna til eftirá að lóðin hefði verið keypt til að leysa bílastæðavandamál við Laugaveginn. Á þessu plani hefðu verið 170 bílastæði allt árið 2003 og nýting þeirra verið aðeins 25%. Einnig væri bílastæðahúsið Vitatorg nálægt og það væri verst nýtta bílastæðahús borgarinnar. Frekar hefði átt að leysa bílastæðavandamál sem væru þegar til staðar eins og niðrí miðbæ við Kvosina.

"Ákvörðun R-listans um að byggja bílastæðahús á Stjörnubíóslóðinni virðist ekki vera vanhugsuð eins og ætla mætti við fyrstu sýn. Það virðist fremur um að ræða þaulhugsaða réttlætingu sem gripið er til eftirá til að réttlæta vafasöm lóðakaup á Stjörnubíósreitnum," sagði Kjartan. Í þessu sambandi gætu borgarfulltrúar ekki vikið sér undan því að horfast í augu við "fjarhagsleg tengsl Jóns Ólafssonar kaupsýslumanns við R-listann".

"Dylgjur fulltrúa D-lista um spillingu í málinu eru rakalausar og til skammar þeim sem borið hafa þær fram í fjölmiðlum og borgarstjórn," sagði í bókun R-listans.

"Í aðdraganda að kaupum á reitnum og í umræðum síðar hafa sjálfstæðismenn ítrekað reynt að gera þessi mál tortryggileg. Það er ekkert óeðlilegt hvernig staðið var að málum eins og marg oft hefur komið fram, meðal annars í svörum við fyrirspurnum um sama efni í borgarráði," sagði borgarstjóri. Tveir óháðir aðilar hefðu verið fengnir til að meta verð lóðarinnar á sínum tíma. Niðurstaðan hefði verið sú að kaupverðið væri fullkomlega eðlilegt.

Styrkja verslun og þjónustu

Steinunn Valdís sagði að bílastæðakjallarinn mundi þjóna þessu svæði í framtíðinni, á reitnum rísi verslunarhúsnæði og íbúðir. Það væri verið að horfa til uppbyggingar í miðbæ Reykjavíkur til að styrkja þar verslun og þjónustu.