Fabian Bengtsson
Fabian Bengtsson
SÆNSKUM auðmanni, sem er einn aðalstjórnenda Siba, leiðandi fyrirtækis í sölu rafmagnstækja í Svíþjóð, var að líkindum rænt á mánudag, að því er talsmaður lögreglunnar skýrði frá í gær.

SÆNSKUM auðmanni, sem er einn aðalstjórnenda Siba, leiðandi fyrirtækis í sölu rafmagnstækja í Svíþjóð, var að líkindum rænt á mánudag, að því er talsmaður lögreglunnar skýrði frá í gær.

Fabian Bengtsson, forstjóra Siba, sem er 32 ára gamall, virðist hafa verið rænt þegar hann var á leið til vinnu í Gautaborg en hann býr í aðeins 10 mínútna ökufjarlægð frá vinnustaðnum. Að sögn lögreglu sást síðast til hans að morgni mánudags og tilkynnt var um hvarf hans þá um kvöldið.

Bíll Bengtssons fannst í miðborg Gautaborgar í gær að því er fram kom í Svenska Dagbladet.

Eftir að Bengtsson mætti ekki til vinnu, fékk faðir hans sem er aðalframkvæmdastjóri Siba, sms-skilaboð frá honum. Skilaboðin gáfu til kynna að "hann væri ekki fjarverandi af fúsum og frjálsum vilja", að því er lögregla sagði í viðvörun sem birt var um alla Svíþjóð.

Að því er fram hefur komið í fréttum í Svíþjóð telur lögregla að allnokkrir einstaklingar hafi tekið þátt í að ræna forstjóranum, en eignir hans nema um 16 milljónum sænskra króna, sem samsvarar um 144 milljónum íslenskra króna. Bengtsson er að auki annar tveggja aðalerfingja Siba, sem er fjölskyldufyrirtæki og metið á um tvo milljarða sænskra króna, eða um 18 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið er skuldlaust.

Fabian Bengtsson og bróðir hans, Martin, stýra fyrirtækinu að mestu leyti en faðir þeirra, Bengt Bengtsson, er þó enn aðalframkvæmdastjóri þess. Faðir hans, Folke Bengtsson, stofnaði fyrirtækið í byrjun sjötta áratugarins en það selur raftæki við lágu verði og rekur 51 verslun á Norðurlöndum. Lögregla hafði í gærkvöldi ekki greint frá því hvort lausnargjalds hefði verið krafist. Hugsanlegt er talið að Bengtsson hafi verið fluttur úr landi.