LÖGREGLA í Bretlandi hefur nú blandað sér í orðaskak og skeytasendingar á milli knattspyrnustjóranna Sir Alex Fergusons og Arsenes Wengers og farið fram á við þá félaga að láta af þessum ósið opinberlega.

LÖGREGLA í Bretlandi hefur nú blandað sér í orðaskak og skeytasendingar á milli knattspyrnustjóranna Sir Alex Fergusons og Arsenes Wengers og farið fram á við þá félaga að láta af þessum ósið opinberlega. Undanfarna daga hafa þeir síst sparað stóru orðin hvor í annars garð. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem þeir haga sér með þessum hætti sem flestir virðast hafa fengið sig fullsadda á. Lögreglan segir að framkoma þeirra sé alls ekki viðunandi og hætt sé við að hún auki á spennu á milli stuðningsmanna Arsenal og Manchester United og úr slíku eigi forráðamenn félaganna frekar að reyna að draga en hitt. Næg sé spennan fyrir. Manchester United sækir Arsenal heim á Highbury 1. febrúar nk.

Félag knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni hefur einnig hvatt til þess að Ferguson og Wenger bindi enda á orðaskak sitt og hnútukast á opinberum vettvangi.