Sveinn Cecil Jónsson fæddist á Ólafsfirði 22. ágúst 1919. Hann lést á Ólafsfirði 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar Sveins voru hjónin Jón Bergsson frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal, f. 14.2.1880, d. 3.6. 1968, og Þorgerður Jörundsdóttir úr Hrísey, f. 15.9. 1881, d. 30.9. 1950. Sveinn var næstyngstur tíu systkina. Elst var Auður, f. 1904, gift Rögnvaldi Þorleifssyni, þá Hulda, f. 1905, gift Jóni Laxdal, Pálína, f. 1907, gift Snæbirni Sigurðssyni, Jörundur, f. 1908, kvæntur Jónínu Guðlaugu Gísladóttur, Torfi, f. 1911, lést á unglingsaldri, Guðmundur, f. 1913, kvæntur Sigríði Björnsdóttur, Cecilia, f. 1914, lést á barnsaldri, Þorsteinn, f. 1918, ókvæntur, og Margrét Guðrún, f. 1922, fyrst gift Birni Guðmundssyni og síðar Jacob Hansen. Margrét Guðrún er nú ein á lífi systkinanna.

Sveinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðlaug Jónína Jónsdóttir, f. 15.2. 1921, d. 13.6. 1966. Kjörsonur þeirra er Héðinn Sveinsson, f. 14.10. 1956. Síðari kona Sveins er Helena V. Jóhannsdóttir, f. 27.2. 1934. Þau skildu.

Sveinn ólst upp á Ólafsfirði og vann þar öll almenn störf tengd sjómennsku og fiskvinnslu. Eftir að hafa lokið námi í Stýrimannaskólanum stundaði hann sjó og gerði um hríð út eigin báta, en rak síðan lengi fiskbúð í Reykjavík. Síðustu árin átti hann heima á Ólafsfirði.

Útför Sveins verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það var oft kátt á æskuheimili Sveins frænda á Ólafsfirði, þar sem hann ólst upp í stórum systkinahópi, og stundum mun fjörið raunar hafa verið fullmikið að mati foreldranna þegar stálpaðir synirnir göntuðust og tókust á svo húsið lék á reiðiskjálfi. Ekki hefur Sveinn þó fengið of mikið af ærslunum, því þegar ég man eftir honum gestkomandi á æskuheimili mínu, þar sem oft var skari barna, átti Sveinn oft til að koma af stað ærslum og glensi og virtist kátastur allra í hópnum þegar hávaðinn og lætin gengu fram af öðrum fullorðnum. En Sveinn var alltaf barngóður og kunni vel að meta unglinga og þeirra uppátæki sem og að segja sögur úr sínu ungdæmi. Sveinn frændi var heiðarlegur drengskaparmaður, einn þeirra manna sem lifðu stærstan hluta 20. aldarinnar, og var af þeirri kynslóð sem vann í haginn fyrir okkur sem nú lifum mesta blómaskeið í sögu íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Sveinn stundaði sjóinn lengi framan af og ég held að hann hafi jafnan litið á sig sem sjómann fyrst og fremst. Slys og aðrar aðstæður urðu þó til þess að hann fór í land og þá lá beinast við að halda tengslum við sjóinn, því hann setti upp fiskbúð og var áratugum saman fisksali í Reykjavík, þar sem hann átti lengi sína traustu viðskiptavini og kunningja sem héldu tryggð við hann vegna góðrar vöru og hressilegs viðmóts.

Sveinn var alla tíð trölltryggur sínu fólki, og oft var gestkvæmt hjá honum, einkum þegar þau Lauga bjuggu á Miklubrautinni í Reykjavík. Þegar við yngri strákarnir, systkinasynir hans, heimsóttum hann eftir að við þóttumst komnir til nokkurs þroska, en ef til vill ekki alltaf mikils vits, þá var ekki töluð nein tæpitunga en alltaf stutt í glensið. Ævi Sveins var þó ekki alltaf dans á rósum, hann bar merki vinnuslyss áratugum saman og mikill harmur var að honum kveðinn þegar Lauga kona hans lést langt um aldur fram. En Sveinn átti Héðin að, og voru þeir feðgar alla tíð mjög samrýndir. Missir hans er nú mestur, og sendi ég honum samúðarkveðjur.

Anders Hansen.