Blokkirnar við Eskihlíð eru gott dæmi um vel heppnaða endurnýjun.
Blokkirnar við Eskihlíð eru gott dæmi um vel heppnaða endurnýjun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steining er notadrjúg aðferð við frágang steyptra útveggja og hefur hún sýnt af sér góða endingu, þ.e.a.s. ef vel hefur verið vandað til verks í upphafi. Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur, Jón Viðar Guðjónsson byggingartæknifræðingur og Flosi Ólafsson múrarameistari segja að vel gerð steining geti enst í 40-60 ár án teljandi viðhalds, jafnvel lengur, ef steypti veggurinn undir stendur sig.
Í Reykjavík og flestum stærri bæjum sjást mörg steinuð hús. Þau eru húðuð að utan með steinsalla sem situr fastur í múrhúð. Oftast er um blöndu af íslensku bergi eða steintegundum að ræða en allmörg hús eru með skeljamulningi (og eru því skeljuð en ekki steinuð). Algengastur er salli úr kvarsmulningi, silfurbergi (kalsíti) og hrafntinnu og á það einkum við um eldri hús. Nýrri steining er víða úr innfluttum steinsalla (t.d. kvarsi, marmara eða muldu graníti). Gróf steining er kölluð völun og ryður sér til rúms.

Steining hófst til vegs 1933-1938 og var vinsæl frágangsaðferð útveggja fram yfir 1960. Aðferðin er sögð íslensk (með nokkrum rétti) og oftast kennd við Guðjón Samúelsson sem aftur hafði unnið að henni með myndlistarmanninum Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og þegið ráð múrara, t.d. Kornelíusar Sigmundssonar.

Í ljós hefur komið að steining er notadrjúg aðferð við frágang steyptra útveggja og hefur hún sýnt af sér góða endingu, þ.e.a.s. ef vel hefur verið vandað til verks í upphafi.

Vel gerð steining getur enst í 40-60 ár án teljandi viðhalds, jafnvel lengur, ef steypti veggurinn undir stendur sig. Auk þess eru flestir sammála um að steining henti vel við íslenskar aðstæður, ljái húsum þokkafullt útlit og geti gengið vel upp þar sem menn vilja hafa mislita fleti.

Steining þarfnast viðhalds - fyrr eða síðar

Nú, þegar komið er að mörgum viðhaldsverkefnum á húsum sem byggð voru á árabilinu 1930-1960, gefur augaleið að þörf er á handverkskunnáttu og efnum til steiningar. Sem betur fer vilja margir halda upprunalegu útliti húsa, í stað þess að klæða steinaða veggi eða mála þá t.d. með vatnsmálningu á 8-10 ára fresti. Slæmt útlit steinaðs húss er ekki endilega merki um alvarlegar skemmdir í steypu eða múr og þess vegna er brýnt að kunnáttumenn skoði eignina og meti viðgerðarþörfina. Endurbætur á steinuðum húsum eru að hluta ólíkar þeim sem henta máluðum húsum. Mikilvægt er að húseigendur geri sér grein fyrir að ganga þarf lengra og vanda betur til viðgerða á steyptum hlutum húss undir steiningarhúð en undir málun, enda líftími steiningar margfaldur á við lítíma málaðs flatar. Líka er brýnt að viðgerðir og viðhald á steinuðum húsum dragist ekki um of og hafa ber í huga að skemmdir undir steiningarhúð geta verið meiri en þær sýnast á yfirborði. Steining getur falið skemmdir og eru dæmi þess að ýmiss konar steypuskemmdir undir þeim séu svo alvarlegar að ráðast þurfi í mikla endurbyggingu á hluta útveggja með verulegum tilkostnaði.

Gagnlegur bæklingur

Aukin eftirspurn eftir viðgerðum og endursteiningu kallar á upplýsingar. Húsafriðunarnefnd ríkisins tók sig til, hannaði og gaf út vandað hefti um steinuð hús í upplýsinga- og leiðbeiningaritröð sinni (Steinuð hús - varðveisla, viðgerðir, endurbætur og nýsteining, 44 bls., Reykjavík 2003) sem samið var á verkfræðistofunni Línuhönnun en þar hafa menn mikla reynslu af umönnun steinaðra húsa. Heftið er selt í byggingarvöruverslunum og er einnig hægt að nálgast það hjá Húsafriðunarnefnd, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík, s. 5701300 (www.hfnr.is).

Nóg að gera

Múrarar hafa brugðist við viðhaldsþörfinni með því að rifja upp og útbreiða kunnáttu við steiningu og efnissalar flytja inn steiningarefni. Töluvert er einnig um steiningu nýbygginga, bæði á hefðbundinn hátt og mér sérstökum múrkerfum. Við blasir að það vantar töluvert af íslensku steiningarefni til viðgerða og endursteiningar og jafnvel einnig efni til nýsteiningar. Margar merkar byggingar í flokki steinaðra húsa kalla á viðhald líkt og framkvæmt var á aðalbyggingu Háskóla Íslands sem er fallega steinuð bygging. Nægir að nefna Þjóðleikhúsið, þar sem viðgerðir eru orðnar mjög brýnar, hús Fiskifélagsins o.fl. við Skúlagötu, sjúkrahús, kirkjur og skóla. Fjöldi íbúðarhúsa er í þessum flokki, allt frá einbýlishúsum til stórra fjölbýlishúsa.

Talið er að 2.100-2.800 steinaðar byggingar séu í landinu. Nú þegar eru viðgerðir á sumum þeirra að baki og hafa ráðgjafar, verktakar, húsfélög eða eigendur hlotið verðlaun fyrir vönduð verk.

Tvö verkefni eru brýn þegar kemur að steinuðum húsum og viðhaldi þeirra. Kynna þarf steiningu og nauðsyn þess að leyfa henni að njóta sín, og þá hvað er til ráða við viðgerðir og endurbætur. Hitt verkefnið snýr að öflun íslensks steiningarefnis. Einfaldast væri að opna gömlu kvarsnámuna við Miðdal/Þormóðsdal og vinna úr henni fáein hundruð tonna af salla. Íslenskt kvars er litríkara en það erlenda. Silfurberg fæst ekki nema til viðgerða á merkustu húsum og hefur viðhalds- og byggingarsvið Línuhönnunar m.a. gert tilraunir með mulning úr sérstöku gleri í stað silfurbergsins og sýnist það ætla að gefa góða raun. Oftast er glært efni aðeins um 3-10% steiningarsalla á húsum.

Ekkert efni kemur fyllilega í stað hrafntinnu. Því er brýnt að leyfa takmarkað hrafntinnunám að undangegnum rannsóknum. Áætluð efnisþörf næstu 10-20 árin er um 200 tonn af óunninni tinnu (þar af færu um 60 tonn á Þjóðleikhúsið). Það magn fæst úr lausu efni eða ofan af um 500 fermetrum af vel glerjuðu hrauni. Á þessu ári verður að vinna að lausn á málinu en tinna til nýsteiningar þarf frekari umhugsunar við. Kannski kæmi þar erlent efni, t.d. grátt flint, til greina.

Höfundar starfa hjá Línuhönnun hf.