Lúxus lambakóróna með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu

Bjarki Þór Valdimarsson er mikill matgæðingur og veit fátt betra …
Bjarki Þór Valdimarsson er mikill matgæðingur og veit fátt betra en að nostra við matinn. Samsett mynd

Bjarki Þór Valdimarsson var byrjaður að elda sjálfur ungur enda hefur hann alla tíð haft áhuga á mat og matreiðslu. Grillið var ekki lengi að heilla Bjarka upp úr skónum og enn þann dag í dag er það í miklu uppáhaldi hjá honum. 

Á dögunum töfraði Bjarki fram ómótstæðilega lambakórónu með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu sem tilvalið er að gæða sér á um helgina, en lambakórónan er eitt af uppáhaldshráefnum Bjarka. 

„Bæði er lambakórónan falleg en einnig er þessi samsetning fitu og kjöts eins fullkomin og hugsast getur, stökk fitan og dúnamjúkt kjötið tekur svo á móti manni. Hér er á ferðinni fersk og skemmtileg jurta- og sítrónu marenering sem er í smá miðjarðarhafs fíling og er myntu jógúrtsósan í sama þema. Samsetningin er engu lík!“ segir Bjarki um réttinn.

Uppskriftin er fullkomin fyrir helgina!
Uppskriftin er fullkomin fyrir helgina!

„Þeim leið eflaust eins og Gordon Ramsey“

Bjarki er atvinnuþyrluflugmaður að mennt en hefur ekki starfað við fagið hingað til. Hann heldur úti samfélagsmiðlinum Matarmenn þar sem hann birtir skemmtileg uppskriftarmyndbönd þar sem matarástríða hans skín í gegn. Ásamt því er hann einn af eigendum heildsölunnar og vefverslunarinnar Korriró, áður Verma, sem selur lífstílsmiðaðar vörur. 

Áhugi Bjarka á mat og matargerð kviknaði snemma og var hann ungur komin með sterkar skoðanir þegar kom að mat. „Það kom mjög fljótlega í ljós að það þyrfti frekar að halda frá mér mat en að þurfa koma honum ofan í mig. Ég vildi alltaf fara út í búð með mömmu og hélst það í gegnum framhaldskólann, enda með sterkar skoðanir hvað skildi vera í matinn hverju sinni. Það sama átti við um frændfólk mitt sem fékk mig í pössun – þeim leið eflaust eins og Gordon Ramsey þær helgar sem ég gisti hjá þeim enda sleikt af diskinum,“ segir hann.

Bjarki hefur alla tíð verið hrifinn af grillinu.
Bjarki hefur alla tíð verið hrifinn af grillinu.

Grillaði kóngakrabba fyrir 12 manns í Miami

Bjarki var byrjaður að elda mikið sjálfur þegar hann var 15 ára gamall og var grillið alltaf í miklu uppáhaldi hjá honum. „Síðan þá hefur áhuginn þróast og finnst mér fátt skemmtilegra en að fá vini mína og fjölskyldu í mat og nostra við matargerðina helst allan daginn,“ segir hann.

Í gegnum árin hefur Bjarki grillað ýmislegt og verið duglegur að prófa sig áfram. Spurður hvað sé það óvenjulegasta sem hann hefur prófað að grilla nefnir Bjarki kóngakrabba. „Þegar ég var í vinnuverkefni í Miami grillaði ég kóngakrabba fyrir 12 manns. Það er enn þann dag í dag með því fallegasta sem ég hef grillað. Ég viðurkenni að ég var mjög stressaður því hráefnið var svo dýrt og allir búnir að leggja saman í sjóð, en útkoman var fullkomin sem betur fer og allir fóru sáttir að sofa það kvöldið,“ segir hann. 

Bjarki paraði máltíðina með góðu rauðvíni.
Bjarki paraði máltíðina með góðu rauðvíni.

Lúxus lambakóróna með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu

Lambakórónu marenering

Hráefni:

  • Fersk mynta
  • Ferskt timían
  • Ferskt rósmarín
  • Sítrónusafi
  • Ólífu olía
  • Salt
  • Pipar

Aðferð:

  1. Athugið að hér eru engin sérstök hlutföll – Bjarki Þór mælir með því að skera nóg af jurtum og bleyta þær upp með góðri ólífu olíu og smá sítrónusafa.
  2. Penslið marineringunni á lambið og leyfið því að standa í minnst klukkutíma til sólarhring í kæli.

Sumar kartöflusalat

Hráefni:

  • 1 kg kartöflur
  • 1 rautt epli
  • 1 pikklaður rauðlaukur
  • 2/3 bolli majónes
  • 2-3 msk. Dijon-sinnep
  • 1-2 msk. Whole grain-sinnep
  • Ferskt dill eftir smekk

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í 15-20 mínútur.
  2. Blandið majónesi, Dijon-sinnepi og Whole grain-sinnepi saman í stóra skál og hrærið vel. 
  3. Skerið eplið og bætið út í skálina ásamt pikklaða rauðlauknum.
  4. Skrælið og skerið kartöflurnar í sirka fjóra bita og blandið saman við restina í skálinni. Athugið að það má að sjálfsögðu hafa hýðið á.
  5. Skerið dill gróft og blandið saman við.

Myntu-jógúrtsósa

Hráefni:

  • 1/2 bolli grískt jógúrt
  • 1/2 lítil jógúrtdolla, hein
  • 1/3 bolli smátt skorin mynta
  • 2 stk. rifnir hvítlausgeirar
  • Safi úr einum sítrónubát
  • 1/2 tsk. cumin
  • 1/4 tsk. cayenne-pipar
  • Salt eftir smekk
  • Pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið myntuna smátt.
  2. Blandið öllum hráefnum í skál og hrærið vel.
View this post on Instagram

A post shared by Matarmenn (@matarmenn)

mbl.is