Ítölsk blómkáls- og baunasúpa

Blómkálssúpur hafa verið lengi á borðum Íslendinga. Þær eiga hins vegar ekkert sameiginlegt með þessari bragðmiklu og þykky ítalskættuðu súpu. Ljósar baunir og blómkál eiga mjög vel saman og það dregur líka betur fram bragðið í blómkálinu að baka það áður en það er soðið og maukað.

  • 1 blómkálshaus
  • 1 dós Cannellini-baunir
  • 1 laukur
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • 1 rósmarínstöngull
  • 1/2 tsk chiliflögur
  • 80 g pancetta (eða beikon)
  • rifin múskathneta  ( ca 1/4 tsk)
  • 2,5 dl kjúklingasoð
  • 2,5 dl mjólk
  • fínsöxuð steinselja
  • ólífuolía
  • svart og pipar

Rífið blómkálshausinn niður í bita. Setjið í eldfast fat. hellið vel af ólífuolíu yfir, saltið og piprið. Eldið í ofni við 200 gráður í um 30 mínútur, þar til að blómkálshnúðarnir fara að taka á sig lit. Ágætt að velta þeim í fatinu að minnsta kosti einu sinni.

Saxið laukinn og hvítlaukinn. Skerið pancetta í litla teninga. Hitið olíu í þykkum potti og steikið pancetta í 2-3 mínútur. Bætið þá lauknum út í og veltið um í 2-3 mínútur. Þá er rósmarínnálunum bætt út í ásamt hvítlauk og chiliflögum. Eldið áfram í 3-4 mínútur og bætið þá baunum og bakaða blómkálinu út í pottinn. Rífið múskat yfir og steikið áfram í smá stund.

Hellið nú heitu kjúklingasoði og mjólk út í pottinn. Leyfið suðu að koma upp, lækkið þá hitann og látið malla í 25-30 mínútur.

Maukið. Það er gott að grófmauka með töfrasprota í pottinum. Berið fram með hágæða ólífuolíu og fínt saxaðri flatlaufa steinselju.

Fleiri góðar súpur hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert