Besti kokteill í heimi?

Sigurjón Ragnar

Árni Gunnarsson, Íslandsmeistari barþjóna 2016, stendur í ströngu við æfingar og undirbúning fyrir heimsmeistaramótið í kokteilum sem fram fer í Tokyo 16. – 21. október. Þar keppa 65 barþjónar frá mismunandi löndum um besta kokteil heims en Árni er hvergi banginn og segir íslenska hugrekkið koma sér langt.

„Ég hef rosalega góða tilfinningu fyrir þessu. Kokteillinn hefur fengið góð viðbrögð hjá þeim sérfræðingum sem hann hafa smakkað. Fyrrum heimsmeistari Finna smakkaði hann hjá mér og gaf honum sína bestu einkunn svo ég er bara nokkuð brattur. Maður á alltaf að stefna á sigur. Það er íslenska leiðin.“

Sigurjón Ragnar

Kokteillinn er óneitanlega fallegur en í keppninni fær Árni 15 mínútur til að útbúa skreytingu frá grunni fyrir öll 5 glösin. Hann fær svo 7 mínútur uppi á sviði til að hrista kokteilinn og kynna hann. Gefin eru stig fyrir útlit, lykt, bragð og heildarútlit ásamt vinnubrögðum svo það er ekki að undra að Árni hafi æft stíft síðustu vikur og mánuði. Ferlið við að velja réttu samsetninguna var ekki minna krefjandi. „Ég blandaði 70 – 100 kokteila og á endanum var þetta niðurstaðan. Ég var skyldugur til að nota súkkulaðivodka og kampavín og mátti bæta við 4 öðrum innihaldsefnum. Ég prufaði alls konar berjalíkjöra og síróp en niðurstaðan var að nota jarðarberjasíróp, límónusafa, súran rabbarbaralíkjör til að stemma sæta bragðið af og örlítinn ferskjubitter til að gefa drykknum bit.“

Sigurjón Ragnar

Skreytingin er ákaflega smart en Árni notar svokallaða “candy”-rauðrófu sem er tvílit að innan og sker hana út í stjörnu og festir svo stjörnuna á rósmarín og vanillustöng. Rauðrófan er lyktarlítil svo rósmarínið og vanillan nýtur sín vel. Árni hættir þó ekki þar en hann ferðast með íslenskt jöklavatn með sér og býr til sína eigin klaka þegar til Japan er komið. Fyrir áhugasama verður að öllum líkindum hægt að panta kokteilinn á Nauthóli þegar Árni snýr aftur frá keppni en hann starfar þar.

Árni flytur með sér íslenskt jöklavatn og býr til klakana …
Árni flytur með sér íslenskt jöklavatn og býr til klakana í Japan. Sigurjón Ragnar
Kokteillinn heitir Gondor eftir ríki í Hringadróttinssögu sem er uppáhaldsmynd …
Kokteillinn heitir Gondor eftir ríki í Hringadróttinssögu sem er uppáhaldsmynd Árna. Sigurjón Ragnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert