Veitingahúsarýni: Essensia

Essensia á Hverfisgötu er fallegur staður.
Essensia á Hverfisgötu er fallegur staður. mbl.is/Árni Sæberg

Essensia er eftirtektarverður staður fyrir margra hluta sakir. Maðurinn á bak við staðinn er Hákon Már Örvarsson sem hefur verið áberandi í íslensku veitingalífi í mörg ár. Það er rétt um ár síðan Hákon opnaði Essensia með það að markmiði að skapa stað þar sem fólk gæti komið saman og notið einfaldrar matreiðslu í afslöppuðu umhverfi. Hann vill bjóða upp á „sveigjanlegan matseðil á sanngjörnu verði“ þar sem fólk getur bragðað á mörgum réttum og gott hráefni er í forgrunni. 

Essensia minnir um margt á veitingastaðinn sáluga La Primavera þar sem Leifur Kolbeinsson rak um langt árabil skemmtilegasta ítalska eldhúsið á landinu. Stórir gluggar staðarins eru aðlaðandi jafnt að utan sem innan og ekki skemmir fyrir að hafa útsýni yfir Arnarhólinn og Hörpu, þó það verði skemmtilegra þegar uppbyggingu bak við gamla Rammagerðarhúsið, eða „straujárnið“ lýkur.

Eldhúsið er opið og vel skipulagt.
Eldhúsið er opið og vel skipulagt. mbl.is/Árni Sæberg
Opið í hádegismat á virkum dögum kl. 11.30-14 og kvöldmat …
Opið í hádegismat á virkum dögum kl. 11.30-14 og kvöldmat kl. 17-22 mánudaga-fimmtudaga og til kl. 23 á föstudag-sunnudags. Bílastæði t.a.m. í bílastæðahúsunum Kolaporti og Traðarkoti. mbl.is/Árni Sæberg

Hönnun staðarins skartar mörgum ólíkum einkennum. Þarna eru þægilegir stólar flauelsklæddir í mismunandi litum, hvítar flísar, áberandi bar fyrir miðju, steypa, járn og viður, gamlar flísar á gólfinu og stór veggur með art deco-flúruðum speglum fyrir öðrum endanum. Eiginlega ættu þessar ólíku og áberandi einingar ekki að virka saman en á einhvern hátt gengur þetta alveg upp. Snyrtileg salernin eru vel heppnuð. Grafískt veggfóður er töff áhersla á einum vegg og stór pottur kemur skemmtilega út í nýju hlutverki sem vaskur. Texti er áberandi í hönnun Essensia, hvort heldur er á veggjum, uppi við loftið, í gluggum eða jafnvel í eldhúsinu þar sem stendur letrað stórum stöfum FOOD, ef það skyldi hafa farið fram hjá manni að hér kemur fólk til að borða. Þurrskinkur, pylsur og hnífar hanga þar úr loftinu, veglegur, hárauður pizzaofn lúrir í einu horninu og glæsilegur áleggshnífur stendur úti á gólfi. Eldhúsið er vel skipulagt, skemmtilegt að sjá og algerlega opið en þrátt fyrir finnur maður ekkert fyrir því. Afrek sem helgast bæði af góðum búnaði og vel útfærðri hönnun en ekki síst þeirri yfirvegun sem Hákon Már rekur eldhúsið með. Þegar ég hef komið á Essensia hefur Hákon yfirleitt staðið sjálfur í eldhúsinu sem verður að teljast ákveðinn gæðastimpill.

Ítölsk poppmúsík tók á móti mér þegar inn var komið. Kannski ekki við öðru að búast en fyrir minn smekk var mun áheyrilegra þegar íslensk popptónlist á borð við sálarfulla tóna Moses Hightower tók að streyma úr hljóðkerfinu.

Drykkir

Kokteillistinn inniheldur einungis áfenga drykki, en aðspurður sagði þjónninn að hægt væri að fá óáfenga kokteila að hætti hússins. Þá er vert að hrósa fyrir tvær tegundir af Fever Tree úrvalstóniki. Vínlistinn er glæsilegur og settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar hnitmiðaður og skemmtilegur listi, að langstærstum hluta frá Ítalíu. Húsvínið, Le due Arbie frá Toscana, er flutt inn sérstaklega af staðnum, prýðilegt vín hvort heldur um er að ræða hvítt eða rautt. Gott rósavín er líka í boði, nokkuð sem fólk ætti að íhuga til að framlengja sumarið. Svo er sérlisti skemmtilegur kostur þar sem finna má höfug og glæsileg vín, vitanlega dýrari, en það er svo sem við því að búast fyrir eðalvín. Þessi sérlisti er kannski ónauðsynlegur þegar tekið er mið af einfaldleikanum sem staðurinn gefur sig út fyrir í matseld og í þeim anda verð ég að segja að mér finnst vanta einn eða tvo ódýrari kosti á almenna vínlistann en verð fyrir vínflösku er frá um 6.000 kr. og upp. Essensia bætir þó upp fyrir það í glösum, því hægt er að velja milli 9 vína í glasavís sem kosta á bilinu 1.300-1.500 kr.

Upphafið

Í upphafi máltíðar var borið á borð foccacia ásamt ólífuolíu. Undanfarin ár hefur átt sér stað stökkbreyting í brauðgerð hér á landi en þetta brauð var því miður afturhvarf til verri tíma, of þétt og þurrt fyrir minn smekk. Olían sem kemur með því er aftur á móti góð. Sérlöguð, kaldpressuð ólífuolía framleidd af ítölskum feðgum frá Liguria undir merkjum staðarins. Hún er bragðgóð, ekki ágeng og með bjarta, ferska tóna sem enda á hæfilegri beiskju. Gestum býðst að kaupa hana á flösku og vel hægt að mæla með því að kippa með sér flösku að máltíð lokinni.

Matseðillinn er vel uppbyggður, hæfilega langur og fjölbreyttur. Þar eru í boði nokkrir samsettir seðlar sem rétt er að hvetja gesti til að skoða. Slíkir seðlar gefa bæði góða sýn á eldhúsið auk þess sem þetta eru bestu kaupin ef fólk ætlar á annað borð í margrétta máltíð. Þá finnst mér sérstök ástæða til að hrósa Hákoni og hans fólki fyrir 3ja rétta vegan-seðil sem boðið er upp á.

Forréttir 

Fyrsti hluti à la carte-seðilsins er antipasti, nema hvað. Þar má finna ýmiss konar smárétti á borð við arancini með marinara sósu, fallega lagaðar kúlur þar sem stökkt yfirborðið hjúpaði mjúk hrísgrjón og bráðinn mozzarella, einfalt en nokkuð gott. Marinara sósan var aftur á móti frábær, flauelsmjúk og ilmurinn af tómat og basiliku æðislegur og parmesan osturinn virkilega góður. Carpaccio er heiðarlegur réttur með glás af þessum góða parmesan osti, frísklegu og pipruðu ruccola, sítrónu og hinni ljúfu olíu staðarins. Þetta er svo kunnuglegur réttur að það er erfitt að gera hann framúrskarandi, jafnvel með fyrsta flokks hráefni. Crudo er hins vegar virkilega skemmtilegt. Þar er borinn fram þunnt sneiddur fiskur, sá ferskasti hverju sinni, með olíu og ferskum kryddjurtum, sítrusávexti og pistasíumauki. Hæfilega súrt, mjög frísklegt og hnetumaukið ófyrirsjáanlegt og algerlega frábært. Eftirminnilegur réttur og í raun einn sá besti sem ég fékk. Þarna nýtur hráefnið sín til fullnustu en framsetningin er líka sérstök og til þess fallin að rétturinn sker sig úr. Smáréttirnir eru á þokkalegu verði frá 1.950-2.350 kr. og ögn ódýrari í hádeginu.

Ítaskar bollur úr hrísgrjónum og osti með virkilega góðri tómat- …
Ítaskar bollur úr hrísgrjónum og osti með virkilega góðri tómat- og basilsósu. mbl.is/Árni Sæberg
Kræklingapasta með hvítvínssoði.
Kræklingapasta með hvítvínssoði. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalréttir 

Hvað er svo ítalskara en pizza? Vitanlega er Pizza Margherita fyrst á seðlinum en þarna má líka finna vegan pizzu auk þess sem ítalskir ostar, verkað kjötmeti og ferskar kryddjurtir setja svip sinn á úrvalið. Botninn er fallegur og deigið gott, hæfilega teygjanlegt með dökkum blettum að neðan eftir funheitan ofninn og kanturinn reis glæsilega upp við bakstur. Pizzan sem ég fékk var vissulega falleg, en því miður frekar bragðlítil. Meira hefði mátt fara fyrir rósmaríni og steinselju. Soðnar kartöflur í sneiðum og ljósgrænn púrrulaukur var hvort tveggja bragðlítið og geitaosturinn ekki nógu öflugt mótvægi. Þá var lardo á pizzunni, ekki hráefni sem Íslendingar hafa vanist en alveg stórkostlegt fyrirbæri, hörð fita af svínshrygg sem er verkuð og grafin. Ég hefði viljað meira lardo. Þetta var pizza sem hljómaði mjög vel á seðlinum og ég hef heyrt vel af henni látið en olli mér vonbrigðum. Verð fyrir pizzu er á bilinu 2.350-2.550 kr. (nema humarpizza 2.950 kr.).

Hvað er ítalskara en pizza?
Hvað er ítalskara en pizza? mbl.is/Árni Sæberg

Þá er það pasta. Það eru fjórir réttir í boði. Spaghetti pomodoro og tubetti bolognese smakkaði ég ekki en kræklinga linguine var bragðgott, sósan er einfalt en ágætt hvítvínssoð með smá sætu, sjávarbragði og hæfilegum hita frá chili-pipar. Humar-penne með lauk og hvítlauk lofaði góðu. Svart pastað og rauð sósan með hvítum humarhölum sláandi að sjá. Laukurinn var grófskorinn, mjúkur og sætur svo maður fann vel fyrir honum, auk hvítlauks og chili sem læddi sér yfir tunguna. Smjörsteiktur humar og dísætt smátómata confit var ljúffengt en fyrir minn smekk hefði pastað mátt vera ögn meira undir tönn, sem var leiðinlegt því kræklinga linguine var alveg al dente. Pasta hefur mér löngum verið nokkuð dýrt á íslenskum veitingastöðum þó það sé ekki dýrara hér en annars staðar, á bilinu 2.350-3.450 kr.

Panna Cottan hitti beint í mark.
Panna Cottan hitti beint í mark. mbl.is/Árni Sæberg

Principali er næsti kafli á matseðlinum. Fiskur dagsins var glóðaður lax, hárrétt eldaður ásamt miðjarðarhafs grænmeti sem var fínt en fyrirsjáanlegt. Hinn fiskrétturinn á seðlinum var heill sólkoli, sem sést alltof sjaldan á matseðlum hér og þess virði að gera sér ferð á Essensia bara fyrir hann. Kálfur milanese var mjúkur að innan og stökkur að utan, borinn fram með mjúkri polentu sem var virkilega góð, ríkulega bragðbætt með parmesan svo ég hefði getað borðað hana eina og sér. Capers og parmesan-osti var stráð yfir réttinn. Ef frá er skilið dapurlegt salatið, sem samanstóð af þremur frekar slöppum salatlaufum með balsamediki auk þriggja smátómathelminga, var þetta prýðilegur réttur en ég verð að segja að mér finnst 5.000 kall frekar bratt fyrir snitsel. Aðalréttirnir eru nokkuð dýrir því þeir kosta frá 3.950 fyrir fisk dagsins og upp í 5.950 kr. fyrir nautasteik.

Eftirréttir

Dolce er svo alltaf minn uppáhaldskafli á hvaða matseðli sem er. Eftirréttirnir eru sex talsins og kosta á bilinu 1.400-1.850 kr. (sama verð í hádegi) sem er fínt verð fyrir desert. Þarna má finna semifreddo, affogato og jarðarber með balsamic ediki og sítrónu-basil krapi. Einn eftirlætiseftirréttur minn hefur um langa hríð verið tiramisù. Þegar þjónustutúlkan sagði mér að gestir hefðu jafnvel tjáð henni að þetta væri besta tiramisù sem þeir hefðu fengið varð ég að prófa. Hún er borin fram með sérmerktri súkkulaðiskeið, sem er sætt þó ég hafi valið að borða réttinn með áhaldi úr stáli. Ég segi kannski ekki að þetta sé besta tiramisù sem ég hef bragðað, en eflaust sú besta sem ég hef fengið á veitingastað. Panna cotta var annar virkilega flottur eftirréttur, ekki of stíft heldur var áferðin unaðslega mjúk og lime-safi gaf gott mótvægi við þykkan búðinginn, ananas gaf góða sætu og til að kóróna samsetninguna batt léttur keimur af ferskri myntu þetta snyrtilega saman. Frábær eftirréttur!

Tiramisu með súkkulaðiskeið.
Tiramisu með súkkulaðiskeið. mbl.is/Árni Sæberg
Hákon ásamt kokkunum knáu.
Hákon ásamt kokkunum knáu. mbl.is/Árni Sæberg

Espresso sem ég fékk að máltíð lokinni var ágætur. Ég hef lengi leitað að veitingastað sem gerir jafngott kaffi og matinn sem þar er boðið upp á. Þótt leit mín hafi enn ekki borið árangur er þetta samt einn mest sannfærandi espresso sem ég hef fengið á veitingahúsi. Eftir matinn er boðið upp á gott grappa og ítalska líkjöra í þokkalegu úrvali, sérstaklega vert að benda á amaro og ítalskan vermút. Ég skora hins vegar á veitingamenn að gera atlögu að óáfengum digestivo öðrum en kaffi.

Essensia er í raun ítalskt bistro en tekur sig kannski ögn hátíðlegar en efni standa til. Þrátt fyrir úrvalshráefni stendur upplifunin ekki alls kostar undir því. Margt er vel gert en þeir réttir sem voru framúrskarandi vöktu upp spurningar um af hverju allt næði ekki sömu hæðum. Loks finnst mér stefna staðarins um sveigjanlegan matseðil á sanngjörnu verði vera meira í orði en á borði. Essensia þyrfti ekki annað en að líta aðeins ofar á Hverfisgötuna til að sjá að lægri verð og smærri skammtar þjóna betur þeirri hugmyndafræði.

Matur 3,5/5
Þjónusta 3,5/5
Umhverfi 4/5

Heildareinkunn 3,5/5

Salerni á veitingahúsum verða að vera snyrtileg. Essensia passar vel …
Salerni á veitingahúsum verða að vera snyrtileg. Essensia passar vel upp á það. mbl.is/Árni Sæberg
Þurrskinkur, pylsur og hnífar hanga þar úr loftinu, veglegur hárauður …
Þurrskinkur, pylsur og hnífar hanga þar úr loftinu, veglegur hárauður pizzaofn lúrir í einu horninu og glæsilegur áleggshnífur stendur úti á gólfi. mbl.is/Árni Sæberg
Grafík er víða um staðinn og setur skemmtilegan svip.
Grafík er víða um staðinn og setur skemmtilegan svip. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert