3 skotheld ráð Júlíu gegn sykurlöngun

Júlía Magnúsdóttir kann að slökkva sykurlöngunina.
Júlía Magnúsdóttir kann að slökkva sykurlöngunina. Haraldur Jónasson / Hari

Það er margsannað að sykurinn er einn versti óvinur heilsunnar og einstaklega ávanabindandi. Heilsumarkþjálfinn Júlía Magnúsdóttir hefur haldið úti vinsælum námskeiðum og veit ansi margt um að kveða sykurpúkann í kút.

Hér koma þrjú ráð frá henni en áhugasamir geta smellt sér á lifdutilfulls.is og fundið þar fjöldann allan af ráðleggingum og sykrulausum uppskriftum.

Matskeið af kókosolíu
Kókosolían er frábær fyrir meltingu og heilastarfsemi og hjálpar til við að slá á sykurlöngun. Fitan í henni er einstök þar sem hún inniheldur mestmegnis miðlungs fitusýruhlekki, eða MCT sem veitir góða seddu nær samstundis og hjálpar þannig gegn sætindaþörf. Mér finnst skipta máli að velja hágæða kókosolíu upp á bæði bragð og næringu.

Drekktu stórt vatnsglas
Oft getur sykurlöngun stafað af vatnsskorti. Vatn hefur veigamikið hlutverk í að koma súrefni og næringarefnum til frumnanna, flytja út úrgang og styðja við almenna virkni líkamans. Bættu sítrónu- eða límónusafa út í vatnið til tilbreytingar eða drekktu hreint kolsýrt vatn, án bragðefna.

Magnesíum

Skortur á magnesíum getur leitt til þess að við sækjum í sykurinn. Ef þú ert oft undir miklu álagi og streitu eða stundar mikla líkamsrækt getur það bent til að líkaminn þurfi magnesíum. Hægt er að taka inn magnesíum í duft- eða töfluformi. Magnesíum má finna í fæðutegundum eins og dökku kakói, kakónibbum, gráfíkjum, kasjúhnetum, klettasalati, grænkáli, sesamfræjum og tahini (sesammauk).

mbl.is