Gott að hafa stjórn á skapinu

Iðunn er frá Oddgeirshólum en býr nú í Kópavogi og …
Iðunn er frá Oddgeirshólum en býr nú í Kópavogi og starfar á Matarkjallaranum þar sem hún er yfirkokkur. mbl.is/

Iðunn Sigurðardóttir er 23 ára og starfar sem yfirkokkur á Matarkjallaranum. Iðunn er einn þeirra fimm keppenda sem komust áfram í úrslit um kokk ársins sem krýndur verður í Hörpu 24. febrúar. Iðunn er einnig önnur konan frá því að keppnin hóf göngu sína árið 1994 til að komast áfram í fimm manna úrslit en síðast var það Vigdís Ylfa Hreinsdóttir sem komst í úrslit árið 2010.

Iðunn segir það helstu áskorunina í keppninni sjálfri að skipuleggja tíma sinn rétt og vel en besta ráðið sem hún hafi fengið sé að endurstilla sig ef allt er komið í óefni. „Vinur minn sagði einu sinni við mig fyrir keppni að ef ég myndi lenda í því að ég vissi ekki lengur hvað ég væri að gera eða hvert ég væri að fara að stoppa þá bara í 5 mín. og þrífa stöðina mína og byrja svo bara aftur. Þetta hefur reynst mér besta ráðið í gegnum árin. Mikilvægt að núllstilla hugann til þess að geta afkastað sem mestu.“

Atvinnukokkar leggja mikið upp úr því að vera vel búnir í eldhúsinu. Iðunn er þó praktískari í svörum en flestir sem við höfum spurt spurningarinnar um hvaða eldhúsatæki viðkomandi haldi mest upp á. „Uppþvottavél. Svakalega mikilvægt en vanmetið tæki!“ Spurð um hvaða eldhústæki sé efst á óskalistanum svarar hún „Vita prep blender væri alveg velkominn heima hjá mér.“

Vita prep-blandarinn sem Iðunni langar í er knúinn með flugvélamótor.
Vita prep-blandarinn sem Iðunni langar í er knúinn með flugvélamótor. mbl.is/Vitamix.com

„Minn helsti innblástur eru kokkarnir sem ég hef unnið með og eða þekki til. Ari Þór, yfirkokkur á Fiskfélaginu sem var yfirkokkurinn minn meðan ég lærði, er einn færasti kokkur sem ég þekki og er tilbúinn að fórna frítímanum sínum í að hjálpa vitleysingum eins og mér. Sem mér þykir mjög aðdáunarvert. Hafsteinn Ólafsson sem var kokkur ársins í fyrra hefur lengi vel verið mín fyrirmynd og innblástur. Hann er alltaf svo yfirvegaður í vinnu og keppnum. Það þykir mér flottur kostur í góðum kokkum að þeir hafi alltaf stjórn á skapinu, það er sjaldgæfur kostur í þessum bransa.“

En hvert skyldi uppáhaldshráefni eins af efnilegustu kokkum landsins vera? „Smjör er uppáhaldshráefnið mitt þar sem að mér finnst allt verða betra með því. “

Iðunn er hrifin af einföldum og djúsí mat eins og hún orðar það. „Garðskálinn er einn af mínum uppáhaldsstöðum til þess að kíkja í hádegismat en ég myndi segja að Sumac sé uppáhaldskvöldstaðurinn.“ Erlendis heldur Iðunn einna mest upp á Momofuku noodle bar í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert