Bjóst aldrei við að eignast stell

Borgarfulltrúinn Líf Magneudóttir lumar á tveimur forláta stellum sem er ekki annað hægt en að dást að. Hún segist nota stellin við hvers kyns tilefni og í öllum barnaafmælum sem mörgum þykir eflaust bera vott um mikið hugrekki.

„Ég fékk hið svokallaða hippa-uppeldi þannig að það var aldrei lagt mikið upp úr því að eiga veraldlega hluti. Það stefndi þess vegna aldrei í að ég myndi eignast stórt kaffi- og matarstell þó að ég eigi ágætt safn í dag. Sjálf er ég frekar hrifin af því að eiga ósamstæð stell úr öllum áttum og lengi vel átti ég ekki nema örfáa diska af sömu sort þannig að í fjölmennum matarboðum þurfti oft að draga furðulegustu áhöld á flot.“

„Í dag eigum við hjónaleysin tvö bolla- og matarstell. Við fengum eiginlega bæði í arf eða þau gengu áður í fjölskyldum okkar. Annað erfði mamma mín frá Esther frænku sem hún geymdi og gleymdi í mörg ár og lét mig síðan fá þegar barnaskarinn var orðinn stór. Hitt fengum við í arf frá ömmu mannsins míns sem var alltaf mikið í mun að við eignuðumst almennilegt stell. Hún lét okkur meira að segja velja okkur skálar og diska á frumbýlisárum okkar sem hún gaf okkur í jólagjöf. Hugmyndin var að hún gæti gefið okkur síðan í stellið á jólum og afmælum og þannig losnað við þann höfuðverk sem fylgir því oft að velja gjafir. Upphafið var sex skálar og sex diskar. Hins vegar dugði þetta skammt og reyndist tegundin sem var valin ekki jafn endingargóð og okkur hafði verið talin trú um. Annað en Royal Copenhagen-matarstellið með gylltu röndinni sem við erfðum síðar frá henni.“

„Stellið frá Esther frænku, Fallandi lauf, var í miklu uppáhaldi hjá henni og bara notað við mjög hátíðleg tækifæri og á jólunum. Mér skilst að það hafi þótt fínna en sjálft Mávastellið. Við notum hins vegar stellið við hvers kyns tilefni – og í öllum barnaafmælum en við þurfum að halda a.m.k fjögur afmæli á ári.“

„Í dag þykir mér gaman að draga stellin fram því þá er alltaf eitthvað skemmtilegt í vændum. Ég held samt að ég eigi aldrei eftir að eignast silfurhnífapör með stellunum. En kannski ætti aldrei að segja aldrei."

Líf í góðum félagsskap.
Líf í góðum félagsskap. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert