Matarbloggari slasaðist við eldhússtörf

Linda Benediktsdóttir, matargúrú með meiru.
Linda Benediktsdóttir, matargúrú með meiru. mbl.is/Facebook

Hin eina sanna Linda Ben endaði upp á spítala á dögunum eftir að hafa rekið höfuðið harkalega í eldhússkáp heima hjá sér. Linda var að sjálfsögðu á fullu við að matbúa og kippti sér ekki mikið upp við atvikið þrátt fyrir að myndarleg kúla væri tekin að myndast. Eftir matinn fór hún hins vegar að finna fyrir miklum slappleika, flökurleika og höfuðverk. Hún lét því tilleiðast og fór upp á slysó þar sem hún var úrskurðuð með heilahristing og þurfti að liggja fyrir alla helgina og jafna sig enda höfuðáverkar ekkert gamanmál.

Sjálf hristir Linda þó höfuðið yfir þessu (þó ekki bókstaflega). „Ég var bara heima að elda í rólegheitunum eins og ég geri svo oft þar sem ég mynda fyrir bloggið og sýni það sem ég er að gera í story á Instagram. Þarna beygi ég mig niður í ofninn, rétti úr mér og rek mig í efri skáphurðina sem var óvart opin. Þetta gerist mjög oft en einhverra hluta vegna tókst mér að fá heilahristing í þetta skiptið,“ segir Linda um óhappið.

„Það fer örugglega í sögubækurnar sem aulalegasta slysið,“ bætir hún við hlæjandi

Fylgjendur hennar þurfa þó ekki að örvænta þar sem það þarf töluvert meira til að Linda leggi frá sér sleifina en þetta minnir okkur á að fara varlega og að opnar skáphurðir eru varhugaverðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert