Eftirsóttasta súkkulaði heims

Hér má sjá Ruby baunina og hið ægifagra bleika súkkulaði.
Hér má sjá Ruby baunina og hið ægifagra bleika súkkulaði. mbl.is/Barry Callibaut

Stórtíðindi bárust úr sælgætisheiminum fyrr á þessu ári þegar svissneski súkkulaðiframleiðandinn Barry Callebaut frumsýndi það sem kallað hefur verið „fjórða“ súkkulaðið og hlotið nafnið Ruby.

Fram að þessu hafa einungis verið til þrjár súkkulaðitegundir í heiminum; mjólkur-, dökkt og hvítt súkkulaði, en 80 ár eru síðan hvíta súkkulaðið leit dagsins ljós. Ruby-súkkulaðið er að sögn framleiðandans náttúruleg afurð þar sem engin litar- eða bragðefni eru notuð við framleiðsluna.

Liturinn kemur frá ruby-kakóbauninni en að sögn framleiðandans tók mörg ár að leysa eiginleika baunarinnar úr læðingi með háþróuðum aðferðum. Ruby-súkkulaðið þykir bæði bragðmikið auk þess sem litur þess er mjög afgerandi þrátt fyrir að vera algjörlega náttúrulegur.

Ruby-súkkulaði er sagt afar óvenjulegt á bragðið en afskaplega bragðgott. Það sé bæði súrt og sætt með margslungið eftirbragð. Bragðið ber keim af ávöxtum, sítrus og berjum, í bland við hefðbundið súkkulaði. Matgæðingar og súkkulaðispekúlantar um heim allan hafa mikið velt þessu fyrir sér og greinilegt er að tíðindin um að komið sé fram „fjórða“ súkkulaðið eru í huga margra ígildi þess að nýtt sólkerfi hafi verið uppgötvað.

Slagsmál um Evrópu

Það er svissneski súkkulaðiframleiðandinn Barry Callebaut sem framleiðir súkkulaðið en fyrirtækið hefur verið að þróa bleiku kakóbaunina og nýja súkkulaðið í 13 ár. Nú er súkkulaðið komið á markað úti í heimi því hið víðfræga fyrirtæki Nestlé fékk fyrst allra að framleiða úr því. Var fyrsta afurðin, bleikt KitKat, sett á markað í Kóreu og Japan í byrjun árs og kostar eitt stykki (sem er ein „stöng“) tæpar 400 krónur. Til stóð að Nestlé myndi einnig ná að verða fyrsta fyrirtækið til að selja ruby-súkkulaðið í Evrópu en lúxusvöruframleiðandinn Fortnum & Mason náði að vera þremur dögum á undan. Þessir æsispennandi atburðir áttu sér stað í apríl á þessu ári en enn er ekki vitað hvaða fyrirtæki fær næst að framleiða úr bleiku baununum þar sem enn er afar takmarkað magn til af þeim.

Mikil eftirvænting ríkir því í súkkulaðiheiminum yfir því hvar ruby-súkkulaðið birtist næst en í Evrópu hafa áhugasamir verið að panta það frá Kóreu og Japan og því ljóst að menn eru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir bita af eftirsóttasta súkkulaði heims.

Svona lítur ruby KitKat út en stöngin kostar tæpar 400 …
Svona lítur ruby KitKat út en stöngin kostar tæpar 400 krónur. mbl.is/Nestlé
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert