Oprah komin í veitingabransann

Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey hefur fjárfest í True Food Kitchen, en ...
Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey hefur fjárfest í True Food Kitchen, en það er keðja af heilsusamlegum veitingastöðum í Bandaríkjunum. mbl.is/MattSayles

Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey hefur fjárfest í keðju af heilsusamlegum veitingastöðum sem bjóða upp á hollusturétti fyrir annasama Bandaríkjamenn. Heitir keðjan True Food Kitchen og er þessi fjárfesting Opruh til þess gerð að hjálpa keðjunni að koma á fót fleiri veitingastöðum í Ameríku. Hafa verið gerðar áætlanir um að tvöfalda fjölda veitingastaðanna á næsta ári í 46 staði alls sem yrðu staðsettir á austurströndinni.

Oprah hefur áður fjárfest í fyrirtækjum á borð við Weight Watchers við mikla lukku. Mikill er máttur frú Winfrey en hlutabréf Weight Watchers tóku stórt stökk upp á við eftir að Oprah var kennd við fyrirtækið. Að komast í mjúkinn hjá Opruh er gulls ígildi fyrir fyrirtæki, en hún leggur þó ekki nafn sitt við hvað sem er. Það virðist þó sem hún sé mjög hrifin af True Food Kitchen og kunni vel að meta ástríðu fyrirtækisins fyrir heilsusamlegum og ljúffengum mat. Svo mjög að hún vildi ólm fjárfesta í fyrirtækinu og taka þátt í uppbyggingu þess. En hjá True Food Kitchen er til dæmis enga djúpsteikingapotta að finna og engar frystikistur því allt hráefni skal matreiða nýtt og brakandi ferskt. Það verður spennandi að sjá hversu miklu flugi keðjan nær undir verndarvæng Oprah Winfrey.

Í eldhúsum True Food Kitchen er enga djúpsteikingapotta eða frystikistur ...
Í eldhúsum True Food Kitchen er enga djúpsteikingapotta eða frystikistur að finna. Allt hráefni skal matreiða nýtt og brakandi ferskt. mbl.is/FoxRestaurantConcepts
mbl.is