Veitingar í Flateyjarfjósi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra heimsækir Flatey og smellir af einni sjálfsmynd.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra heimsækir Flatey og smellir af einni sjálfsmynd. Eggert Jóhannesson

Í stærsta fjósi á Íslandi, sem er á bænum Flatey skammt vestan við Hornafjörð, var á dögunum opnaður veitingastaður. Fjósið var tekið í notkun fyrir nokkrum árum og á annarri hæð í steinsteyptri byggingu í norðurhluta hússins var ágætt rými sem forsvarsmenn búsins sáu að mætti nýta fyrir gesti og gangandi. Ákveðið að nýta tækifærið og útkoman er óvenjulegur veitingastaður sem strax hefur vakið talsverða athygli.

Hæfir vel saman

„Hugsunin í upphafi var ekki sú að fara í veitingarekstur jafnframt búrekstri. En hugmyndin kom þó fljótlega eftir að uppbyggingin hófst og sé rétt að málum staðið á þetta vel saman,“ segir Hjalti Þór Vignisson. Hann er framkvæmdastjóri Selbakka ehf. sem á og rekur búið. Selbakki er í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði. Fjósið á Flatey er stórbygging, þar sem í dag eru alls 200 mjólkandi kýr sem verður bráðlega fjölgað um 40. Þá er fjöldi annars nautpenings í fjósinu.

„Þegar Skinney-Þinganes kom inn í búreksturinn á Flatey á sínum tíma var ætlunin að renna styrkari stoðum undir atvinnulíf hér á svæðinu. Sjávarútvegurinn verður auðvitað alltaf númer eitt í okkar starfsemi, en við horfum til annarra átta eins og við á hverju sinni,“ segir Hjalti Þór.

Fræðsluefni í fjósinu

Í fjósinu á Flatey hefur nú verið útbúið ýmislegt fræðsluefni, svo sem um gripina, mjaltaþjónana og fóðurkerfin en allt í byggingunni er samkvæmt nýjustu tísku og tækni, sem mörgum kann að þykja framandleg. Og svo er það veitingastaðurinn, sem Óðinn Eymundsson veitir forstöðu, en þar má fá nautasteikur og annað lostæti frá Flatey og súpu úr Hornafjarðarhumri svo eitthvað sé nefnt. Þá er, að sögn Hjalta Þórs, í skoðun að setja upp gerilsneyðingartæki í Flatey, svo bjóða megi gestum upp á drykkjarmjólk eða vinna osta og slíkt úr mjólkinni. Að bjóða upp á veitingar úr hráefni í héraði og beint frá býli skapi sérstöðuna.

„Ferðafólk hefur mikinn áhuga á því að kynna sér búrekstur og atvinnulífið á hverjum stað. Hér á Höfn spyrja margir um hvort mögulegt sé að skoða fiskvinnsluna okkar, sem við höfum ekki mikil tök á þótt stundum séu gerðar undantekningar. En kannski skoðum við það betur á næstu árum að skapa aðstöðu til slíks,“ segir Hjalti Þór sem bætir við að fyrri sláttur sé langt kominn í Flatey, nytin í kúnum góð og búreksturinn í föstum skorðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert