Sjúklegir hamborgarar sem æra bragðlaukana

Ómótstæðilegur borgari.
Ómótstæðilegur borgari. mbl.is/Nina Olsson

Bókin Góðborgarar eftir Ninu Olson er komin út og er óhætt að fullyrða að lesendur bókarinnar og aðdáendur góðrar eldamennsku verða ekki fyrir vonbrigðum. Í bókinni galdrar Nina fram borgara sem eru hver öðrum girnilegri en eiga það sameiginlegt að innihalda ekkert kjöt.

Höfundur bókarinnar, Nina Olsson, er fædd og uppalin í Stokkhólmi en býr núna við ströndina í Hollandi ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Hún hefur unnið í meira en tíu ár á skapandi hátt með mat, sem listrænn stjórnandi, stílisti og hönnuður. Hún er einnig ljósmyndari. Uppskriftir hennar hafa birst í tímaritum á borð við Elle, Delicious og Women's Health. Nina heldur úti blogginu nourishatelier.com og er líka á instagram undir sama heiti. Bókin þykir einkar falleg og aðgengileg en hún kom út samtímis í tíu löndum.

Lachmacun-borgari

Puy-linsur / Kóríander / Kasjúhnetu toum / Harissa

Bragðið sem hér er kallað fram er einkennandi fyrir tyrkneskar og armenskar pitsur sem kallast lachmacun. Þótt lachmacun sé samkvæmt hefðinni kjötréttur felst lykillinn að bragðinu í samspili hitans í sterku kryddinu og svalanum í salatinu og hvítlauksangan kasjúhnetu toum-sósunnar. Linsur kryddaðar með kanil, cumin og kóríander verða að gómsætum klatta. Ofan á hann skellum við svo brakandi fersku salati, lauk og sósum.

Klattarnir
  • 200 g sveppir, saxaðir
  • 3 hvítlauksgeirar, marðir
  • 250 g soðnar puy-linsur eða aðrar dökkar linsur
  • 2 msk. harissa, heimagert eða aðkeypt
  • 1 tsk. malað cumin
  • ¾ tsk. salt, meira eftir smekk
  • Hnífsoddur af möluðum kanil
  • 100 g valhnetur, léttristaðar og malaðar
  • 50 g bulgur eða hýðishrísgrjón, soðin
  • 15 g ferskur kóríander, fínt saxaður
  • 50 g sólþurrkaðir tómatar, bleyttir, sigtaðir og maukaðir
  • Malaður svartur pipar eftir smekk
  • Ólívuolía eða ghee (1 msk.) til steikingar
  • 4 brauð, skorin til helminga og léttristuð

Ofanálag

  • kasjúhnetu toum
  • rauðlaukssneiðar
  • jöklasalat, rifið smátt
  • lúkufylli af ferskri mintu, fínt saxaðri
  • lúkufylli af ferskum kóríander, fínt söxuðum

1. Hitið ofninn í 60 °C. Hitið ólívuolíu eða ghee á pönnu yfir meðalhita og steikið sveppina í 7-8 mínútur eða þangað til allur vökvi hefur gufað upp og sveppirnir hafa skroppið saman. Bætið út í hvítlauk og steikið í eina mínútu í viðbót.

2. Hrærið út í linsum, harissa, cumin, salti og kanil. Steikið í 3-4 mínútur eða uns allur vökvi hefur gufað upp.

3. Blandið út í valhnetum, bulgur, kóríander og sólþurrkuðum tómötum. Setjið blönduna í matvinnsluvél í skömmtum, stillið á púls og blandið þangað til áferðin er grófur mulningur. Látið standa í kæli í 15 mínútur eða allt að sólarhring undir loki.

Skiptið í fernt og mótið fjóra klatta. Steikið klattana við meðalhita á pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða uns þeir eru fallega brúnaðir. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið klattana á bökunarpappír á ofngrind og bakið í 6-10 mínútur.

4. Setjið saman borgarana, notið tyrkneskt brauð og setjið toum, rauðlauk, kál, mintu og kóríander á klattana.

Kasjúhnetu toum

Hvítlaukur / Sítróna / Kasjúhnetur

Geggjaður hvítlaukur! Hér er miðausturlensk útgáfa af aioli – toum! Í minni útgáfu er hluta af ólívuolíunni skipt úr fyrir kasjúhnetusmjör og hún er geggjuð!

  • 1 heill hvítlaukur, flysjaður
  • 1 ½ tsk salt, meira ef með þarf
  • safi úr einni sítrónu, meira ef með þarf
  • 100 g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 1-3 klst., gætið þess að vatnið fljóti yfir, hellið því svo af og sigtið kasjúhneturnar
  • 100 ml jómfrúarolía

Aðferð: 

1. Setjið hvítlauk, salt og sítrónusafa í matvinnsluvél og blandið uns áferðin er mjúk.

2. Bætið við bleyttum kasjúhnetum og blandið vel.

3. Bætið út í örlitlu vatni ef blandan er of þurr. Smakkið til og bragðbætið með sítrónusafa og salti eftir smekk. Geymist í kæli í loftþéttri krukku.

Gerir 150-200 g.

Bókin Góðborgarar verður vafalaust í mörgum jólapökkum í ár.
Bókin Góðborgarar verður vafalaust í mörgum jólapökkum í ár. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert