Matarkarfan helmingi ódýrari

Snæfríður Ingadóttir fjölmiðlakona.
Snæfríður Ingadóttir fjölmiðlakona. mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Rithöfundurinn og dagskrárgerðarkonan Snæfríður Ingadóttir flutti í haust til Tenerife ásamt fjölskyldu sinni. Snæfríður er þekkt ævintýrakona sem haldið hefur ófáa fyrirlestra um íbúðaskipti og ævintýramennsku auk þess að hafa skrifað metsölubók um Tenerife.

Snæfríður birti á Facebook-síðu sinni mynd af innkaupakörfu fjölskyldunnar þar sem hún dásamaði úrvalið á eyjunni fögru og matarverðið.

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

„Við kaupum yfirleitt bara einu sinni í viku í matinn og höldum bókhald yfir eyðsluna. Að meðaltali erum við að eyða um 18-20 þúsund í innkaup á viku til heimilishaldsins. Það er náttúrulega allt önnur upphæð en heima á Íslandi, auk þess sem innihald matarkörfunnar er annað hér úti. Á heildina litið þá finnst mér eins og við séum að eyða svona tæplega helmingi minna í mat hér úti en heima. Þar að auki förum við fimm manna fjölskyldan reglulega út að borða, eitthvað sem við gerðum svo til aldrei á Íslandi því verðlagið þar leyfði það ekki," segir Snæfríður spurð út í innkaupin.

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

„Við fórum kannski í Bónus heima og eyddum 25-30 þúsund krónum án þess að svo gott sem nokkuð annað væri í körfunni en þurrvörur. Hér fyllir maður körfuna af brakandi fersku grænmeti og djúsí ávöxtum, ferskum ostum og víni, annaðhvort á bændamörkuðunum eða í stórmarkaðinum. Það eru mikil lífsgæði að geta leyft sér að borða svona góðan og ferskan mat - og bæði verðlagið og hversu auðvelt er að nálgast þessar vörur hefur vissulega jákvæð áhrif á mataræðið. Við eigum örugglega eftir að sakna þessa þegar við komum aftur til Íslands.“

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Fjölskyldan ætlar þó eingöngu að hafa vetrardvöl á eyjunni en þau fóru gegngert til þess að læra spænsku og hafa gaman að lífinu. Snæfríður er auk þess að vinna að nýrri ferðahandbók en eins og áður segir sló bók hennar um Tenerife eftirminnilega í gegn.

Dæmi um hvað er í matarkörfu sem kostar 18 þúsund krónur hér úti (matarkörfu dagsins í dag):

  • 48 lítrar af drykkjarvatni
  • 2 pítsur
  • grillaður kjúklingur
  • 1 lítri af grískri jógúrt
  • 800 g ferskt spínat
  • avókadó
  • stór poki af appelsínum
  • stór poki af mandarínum
  • 300 gr ostur
  • 3 búnt bananar
  • 4 vínflöskur
  • 2 l mjólk
  • hnetusmjör
  • sætar kartöflur
  • hnetur
  • rúsínur
  • 500 gr. brauð
  • tortillur
  • 2 stór box kirsuberjatómatar,
  • uppþvottalögur
  • 2 pakkar hafrar
  • kaffi
  • 1 kg pasta
  • 3 pokar frosin bláber
  • 2 kg frosið spínat
  • 24 egg
  • alls konar kex
  • laxabiti
  • ostabakki
  • súkkulaði
  • lasagnaplötur
  • bakki af gulrótum
  • sítrónur
  • laukur
  • maísbaunir
  • tómatsósa

Snæfríður vill þó koma því á framfæri að verðlag á mat og þjónustu sé auðvitað allt annað þar í landi því launatölurnar þar séu aðrar svo þetta þoli ekki beinan samanburð við Ísland.

Fjölskyldan nýtur lífsins og fer reglulega út að borða.
Fjölskyldan nýtur lífsins og fer reglulega út að borða. mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
Brot af innkaupum dagsins.
Brot af innkaupum dagsins. mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert