Það besta sem bæjarstjórarnir fá

Matarvefur mbl.is tók nokkra bæjarstjóra tali.
Matarvefur mbl.is tók nokkra bæjarstjóra tali. Samsett mynd

Bæjar- og sveitastjórar landsins eru margir hverjir miklir matgæðingar og luma á ljúffengum uppskriftum. 

Matarvefurinn leitaði á náðir nokkurra vel valinna bæjarstjóra víðs vegar um landið og spurði þá út í þeirra eftirlæti á mat og drykk.

Regína Ásvaldsdóttir - Mosfellsbær

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Aðsend

„Uppáhaldsdrykkurinn minn er Coke Zero. Ég er alltaf að reyna að minnka drykkjuna á honum, en gengur brösuglega sökum þess hvað hann er svalandi. Uppáhaldsmaturinn minn er klárlega ostrur. Það er ekkert betra en ostrur með kreistum sítrónusafa og Tabasco-sósu. Það er viðhöfn að borða ostrur og ég leita uppi góða ostrustaði þegar ég er erlendis. Og þá er nauðsynlegt að hafa gott freyðivín eða hvítvín með.“

Ásthildur Sturludóttir - Akureyri

Ásthlidur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthlidur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Það slær ekkert við nýrri lúðu. Ískalt vatn er best en rósa kampavín er stór gott á hátíðarstundum.“

 Haraldur Benediktsson - Akranes

Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er einfalt. Mjólk beint úr mjólkurtanknum er uppáhaldsdrykkur. Eigin framleiðsla. Mjólkin á sumrin er sérstaklega góð. Kannski ekki margir sem átta sig á slíkum bragðmun. Uppáhalds matur er góð nautasteik. Eigin framleiða líka. Við eigum yfirleitt kvígukjöt eða af ungum kúm. Annars er erfitt að gera uppá milli matar. Finnst fátt betra en kæst skata. En það flokkast seint sem gourme matur. Það er kannski ekki síst tenging við æskuna. Skata og saltfiskur til skiptis á laugardögum í minni æsku.“

Jóna Árný Þórðardóttir - Fjarðabyggð

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Ljósmynd/Aðsend

„Gæða steik með góðri bernaise sósu og steiktu eða grilluðu grænmeti er efst í huga þegar mig langar að fá eitthvað gott að borða. Stundum kalla bragðlaukarnir á villibráð s.s. hreindýr eða gæs enda búsett á landsvæði þar sem mikil hefð er fyrir því. Annars stendur gæða nauta- og lambakjöt alltaf fyrir sínu enda er ég uppalin í sveit þar sem mikið er lagt upp úr góðri ræktun. Auðvitað er gott að hafa gott vín með góðri steik en einnig finnst mér, sérstaklega ef ég fer út að borða, gaman að fá mér bragðgóðan og fallegan fordrykk. Oftast verður mojito fyrir valinu – kannski af því ég sækist eftir ferskleikanum sem kemur með myntunni og límónunni.“

Ásdís Kristjánsdóttir - Kópavogur

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

„Humarpasta eiginmannsins, mikið smjör, mikill hvítlaukur, mikið chilli og mikill humar með pasta og tómötum frá Olifa ásamt góðu ítölsku rauðvíni frá Piedmonte. Ég elska ítalskan mat og þetta er einfaldur réttur sem hentar sumar sem vetur með öllum þeim hráefnum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Almennt myndi ég segja að íslenskt sódavatn með eplabragði sé minn uppáhalds drykkur. Á tyllidögum sem fordrykkur þá er það ginið Angelica gin frá 64° Reykjavík. Ferskt og gott!“

Elliði Vignisson - Ölfuss

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.ís/Árni Sæberg

„Uppáhaldsmaturinn minn er án vafa reyktur lundi, steyttur úr hnefa í hvítu tjaldi á þjóðhátíð í Eyjum. Sérstaklega innralokið af bringunni. Þarna gæti haft að segja að þegar ég var barn á þjóðhátíð rétti eldrimaður mér innralokið og sagði: „þennan bita gefur maður engum nema þeim sem manni þykir vænt um“.“ 

Rósa Guðbjartsdóttir - Hafnarfjörður

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kaffi er alltaf númer eitt hjá mér og það verður að vera gott að gæðum – því lífið er of stutt fyrir vont kaffi. Finnst gaman að prófa ólíkar útfærslur og þessa dagana er mjög notalegt að búa sér til ískaffi og sötra á því í blíðunni úti í garði. Hvað matinn varðar þá er lax alltaf í sérstöku uppáhaldi og veit ég fátt betra en vel bakaður lax með salati. Ég reyni að borða sem allra mest „hreinan mat“, það er að segja mat sem er ekkert fyrirfram unninn eða viðbættur aukefnum. Mér finnst það einfaldlega ljúffengast og gera mér gott. Reyndar er ég um þessar mundir vandræðalega spennt fyrir „buffalo-blómkálsvængjum“ - það er eitthvað töfrandi við þann rétt.“

Þór Sigurgeirsson - Seltjarnarnes

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Minn uppáhaldsmatur er létt útigrillað íslenskt lambafilé. Með því berum við fram heimagerða bernais sósu, ferskt salat með dassi af fetaosti og olíunni ristuðum furuhnetum. Með þessu er síðan smörsteikt og ofnbakað íslenskt smælki.
Uppáhaldsdrykkur er bjór sem mér finnst allt of góður en svo er það sumarbústaðardrykkurinn Nýhöfn special sem samanstendur af einföldum gin í tonic með fullt af klaka og blönduðum berjum og limesneið. Þessi bragðast best í Kjós.“

Íris Róbertsdóttir - Vestmannaeyjar

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Cosmopolitan var fyrsti alvöru koteilinn í martin glasi sem ég kynnist, beint út þáttunum Sex and the City. Hann verður alltaf í uppáhaldi.
Uppádaldsmaturinn er kjúklingur. Ég er hrifin af öllu sem hægt er að gera með kjúkling og hann er léttur í maga og hentar mér vel. Það er auðvelt og fljótlegt að elda kjúkling sem er kostur.“

Sigurjón Andrésson - Höfn í Hornafirði

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar. Ljósmynd/Aðsend

„Uppáhaldsmaturinn minn er humar. Hann er bragðgóður og það er einstaklega gaman að elda úr honum. Það er áskorun sem ég elska og mér líður eins og meistarakokki þegar ég geri það, þrátt fyrir að hafa tapað humarsúpu einvígi við vin minn Bróa fyrirliða í vetur. Og ekki skemmir fyrir að humarinn er náttúrulega fæddur og uppalinn í Hornafirði. Uppáhalds drykkurinn minn er bjór. Ég er ekki mikill smekkmaður á bjór - ég vil helst léttan ískaldan lagerbjór. Bjór er valinn félagi minn til að slaka á eftir langan dag.“

mbl.is
Loka