Hugmyndin kviknaði í fæðingarorlofinu

Lynn Mann ásamt fjölskyldu sinni.
Lynn Mann ásamt fjölskyldu sinni. mbl.is/aðsend mynd

Það var árið 2011 í miðju fæðingarorlofi að sálfræðingurinn Lynn Mann fékk þá hugmynd að kollvarpa rekstrinum á búgarði fjölskyldunnar og hefja framleiðslu á hágæða kaldpressaðri repjuolíu.

Sakir verðlagsþróunar í heiminum var ljóst að breytinga var þörf á rekstrinum og ákváðu Lynn og eiginmaður hennar að láta slag standa og fara út í olíuframleiðslu. Þau áttu ekki eftir að sjá eftir því enda eru olíurnar þeirra margverðlaunaðar í dag, í miklu uppáhaldi hjá matreiðslumönnum víðs vegar um heim og eru meira að segja seldar í Harrod´s.

Fyrirtækið var skírt Supernature Oils og allt frá stofnun hefur verið mikill vöxtur hjá því. Repjuolían er valkostur við extra-virgin ólífuolíu en þó hollari þar sem hún inniheldur helmingi minna af mettaðri fitu og tíu sinnum meira af omega 3-fitusýrum. Að auki er hún afar hitaþolin og hentar því vel til steikingar og í alla matargerð, auk þess að vera frábær í salöt og dressingar.

Að sögn Lynn Mann má rekja vinsældir olíunnar til mikilla gæða sem sé ekki síst landgæðunum og ræktunarskilyrðunum að þakka. „Uppskeran okkar er einstök. Olían er bæði létt og smjörkennd með einstöku bragði sem hentar vel í alla eldamennsku.“

Olían er unnin á mjög einfaldan hátt. „Þetta er eins einfalt og við getum haft þetta. Við ræktum repjuna, tökum fræin af og pressum olíuna úr þeim. Engu er bætt við og ekkert er gert til að spilla annars fullkomnuu ferli.“

Lynn hvetur Íslendinga janframt til að koma til Skotlands. „Við búum rétt fyrir utan Edinborg sem er virkilega falleg borg sem gaman er að heimsækja. Hún er líka þétt þannig að það er auðvelt að ferðast um hana. Sveitin hér er kring er líka dásamleg og fólkið er vinalegt,“ segir Lynn að lokum og fagnar því að Supernatural-olíurnar séu loksins fáanlegar á Íslandi en þær er nú hægt að fá í Hagkaup sem hlýtur að teljast mikill hvalreki fyrir íslenska matgæðinga.

Olíurnar eru margverðlaunaðar.
Olíurnar eru margverðlaunaðar. mbl.is/aðsend mynd
mbl.is