Kaffið bragðast betur úr bollum frá Flora

Stefán Einar Stefánsson, smekkmaður með meiru.
Stefán Einar Stefánsson, smekkmaður með meiru. Eggert Jóhannesson

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, þykir mikill smekkmaður og heyrist oft tala fjálglega og af mikilli þekkingu um matarstell. Stefán hefur sterkar skoðanir á því hvað prýða beri gott matarstell en sjálfur safnar hann stellinu Flora ásamt eiginkonu sinni, Söru Lind Guðbergsdóttur, en stellið völdu þau í aðdraganda brúðkaups síns árið 2014.

Hvað heitir stellið?

Stellið nefnist Flora og er frá Royal Copenhagen. Það kom fyrst á markað árið 2012 og er hannað af Önju Vang Kragh sem er þekktur búningahönnuður í Danmörku sem m.a. hefur starfað fyrir Konunglegu dönsku óperuna, Christian Dior og Stellu McCartney.

Hvaðan kemur stellið?

Við höfum safnað þessu stelli frá því að við giftum okkur árið 2014. Jafnt og þétt höfum við komið okkur því upp og keypt bæði hér heima og erlendis.

Hvenær notar þú stellið?

Margir spyrja hvort við notum stellið ekki bara um helgar eða spari en við tókum strax ákvörðun um að nota það hversdags. Við drekkum kaffið okkar nær alltaf úr bollunum og þegar við snæðum léttan mat, hvort sem það er að morgni, í hádeginu eða á kvöldin þá reynum við að nota diskana og skálarnar úr stellinu.

Hvernig geymir þú það?

Við geymum stellið á nokkrum stöðum í eldhúsinu. Bollana nærri kaffivélinni en diska og skálar hjá öðrum borðbúnaði af því tagi. Stellið má ekki þvo í þvottavél út af gyllingunum á því og þess vegna er það notaleg stund á hverjum degi að þvo það, þurrka og koma á sinn rétta stað eftir notkun.

Hafa orðið mikil afföll af því?

Við höfum bara misst eina djúpa skál í gólfið og það var ekki skemmtilegt. Stundum hefur hurð skollið nærri hælum en allt sloppið til.

Hver eru viðurlög við stellspjöllum á heimilinu?

Engin viðurlög. Það ganga allir vel um svona fallega hluti. Reyndar hafa einhverjir gestir lýst þeirri skoðun á því að það sé ekki fallegt. En það gerir ekkert til. Við keyptum þetta fyrir okkur sjálf og þá gesti okkar sem kunna að njóta.

Er þetta draumastellið?

Það má segja að þetta sé draumastellið enda vorum við nokkuð lengi að ákveða hvaða leið við vildum fara varðandi þennan tiltekna borðbúnað. Við eigum hins vegar fleiri stell sem við notum á hátíðisdögum og m.a. eitt alveg frábært frá Villeroy & Boch sem aðeins er notað á jólum. Sú lína nefnist Toy‘s Delight og er mjög skemmtilegt og allt öðruvísi en Flora.

Hvað er stell í þínum huga?

Þetta er háheimspekileg spurning sem ég hef ekki velt mikið fyrir mér. En ætli það sé ekki einn rauður þráður gegnum ólíka gripi en þó tengda sem hafa mikið notagildi en geta líka glatt augað ef rétt er staðið að.

Finnst þér stellið gera þig að betri manneskju eða túlka þinn innri mann?

Get nú ekki sagt það. En áralangar rannsóknir mínar hafa staðfest að kaffi bragðast betur úr bollum frá Flora en flestum öðrum stellum. Þar ræður miklu að postulínið er þunnt en ekki þykkt. Eftir því sem það er þykkara verður kaffið lausara við karakter.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert