Svona bakar þú fullkomnar vatnsdeigsbollur

mbl.is/TM

Jón Anton Bergsson, bakari hjá Kruðeríi, bakaríi Kaffitárs, leiðir okkur hér í allan sannleikann um hvernig baka skal geysigóðar vatnsdeigsbollur með saltkaramellu.

Vatnsdeigsbollur eru ákaflega vinsælar hérlendis en það er leikur einn að baka þær sé uppskriftin skotheld segir Jón. „Bollurnar geta misheppnast og fallið af ýmsum ástæðum. Aðalmálið er að velja nákvæma uppskrift og fylgja henni vel eftir.

Of margar uppskriftir eru ekki nægilega nákvæmar. Þú þarft að hafa allar forsendur og hafa það í huga að heimabakstur er ekki slump. Þetta er nákvæmnisvinna og það er alltaf best að nota vigt í allt. Ekki bolla eða desilítra,“ segir Jón sem sjálfur skellir í um 4.000 bollur á mánudaginn. Ekkert slump þar. Hann segir 4.000 bollur þó vera smotterí í þessum bransa.

mbl.is/TM

„Það er nú hálflummó að baka bara 4.000 bollur. Flestir eru að gera miklu meira magn en við handgerum allt frá grunni þannig að þetta er ekki mikið magn,“ segir Jón sem heldur sjálfur mest upp á saltkaramellubolluna sem var vinsælasta bollan hjá þeim í fyrra. Í ár spáir hann sítrónu- og margengsbollunni vinsældum en starfsfólk Kruðerís er mjög hrifið af henni. „Svo erum við með tiramisú-bollu með heslihnetukexi og klassíska súkkulaðibollu,“ segir bakarinn knái sem strax er farinn að huga að bollum næsta árs.

„Í Danmörku eru vinsælar vínarbrauðsbollur. Mig langar að geta boðið upp á þær á næsta ári,“ segir Jón sem sjálfur hefur fært sig meira úr kökubakstri og er kolfallinn fyrir súrdeigsbakstri eins og flestir landsmenn. „Það er gaman að baka úr súrdeigi. Það er meira listform að vinna með súrinn,“ segir Jón ilmandi kátur og ber á borð guðdómlega fallega sítrónu-margensbollu sem minnir á brakandi ferska skíðabrekku í logni. Svo ekki sé minnst á sítrónufyllinguna.

mbl.is/TM

Vatnsdeigsbollur með saltkaramellu

Ath. vel má skipta út fyllingunni og toppnum. Bolluuppskriftin sjálf stendur alltaf fyrir sínu. Uppskriftin gefur um það bil 45 bollur.

Saltkaramelluuppskrift

  • 350 g sykur
  • 150 g rjómi
  • 230 g smjör
  • 4 g sjávarsalt

Karamellukennið sykurinn, hellið rjómanum hægt og rólega saman við sykurinn.

Setjið smjörið og saltið í endann og hrærið þar til allt smjörið er bráðnað.

Hitið blönduna upp í 110°C. og geymið við stofuhita, best að nota hana daginn eftir.

Vatnsdeigsbollur

  • 250 g nýmjólk
  • 250 g vatn
  • 200 g smjör
  • 10 g sykur
  • 10 g salt
  • 300 g hveiti
  • 420 g egg – ca. 7 egg

Setjið vatnið, mjólkina, smjörið, saltið og sykurinn í pott og sjóðið. Takið af hitanum og bætið við sigtuðu hveiti og hrærið saman yfir hitanum. Hellið blöndunni í hrærivél og notið spaðann til að blanda saman. Bætið eggjum við hægt og rólega, Þegar blandan er slétt og glansandi, setjið plast yfir og kælið við stofuhita í klst. Þegar massinn hefur verið kældur, setjið í sprautupoka og sprautið jafn stórar bollur (skiptir miklu máli að vanda sig hér, til þess að ná bollunum jöfnum og fallegum). Bakið við 180°C í 30-35 mínútur.

Karamellumús

  • 300 g rjómi 
  • 35 g glúkósi 
  • 35 g síróp 
  • 490 g karamellusúkkulaði til dæmis frá Omnom.
  • 825 g kaldur rjómi

Rjómi, glúkósi og síróp hitað upp að suðu.

Hellið yfir súkkulaðið og blandið vel saman með töfrasprota og endið á því að hella kalda rjómanum saman við. Kælið og þeytið upp daginn eftir (passa að þeyta upp á hægum hraða).

Jón Anton Bergsson, bakari hjá Kruðeríi, bakaríi Kaffitárs.
Jón Anton Bergsson, bakari hjá Kruðeríi, bakaríi Kaffitárs. mbl.is/TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert