Fékk 700 þúsund króna vínflösku fyrir mistök

mbl.is/skjáskot

Þau rándýru mistök áttu sér stað á veitingastað í Bretlandi að viðskiptavinur sem pantaði flösku af árgangi 2001 af Chateau Pichon Longueville Comtesse de Lalande fékk í staðinn flösku af Chateau le Pin Pomerol 2001.

Fyrir hinn almenna borgara segir þetta ekki mikið en í reynd er um afar dýr mistök að ræða. Fyrri flaskan kostar nefnilega rúmlega 40 þúsund krónur og þykir sjálfsagt mörgum vel í lagt en flaskan sem hann fékk í staðinn kostar litlar 700 þúsund krónur.

Enginn áttaði sig á mistökunum fyrr en daginn eftir og var því viðskiptavinurinn þess alls ómeðvitaður um hvaða dýrðarveigar hann var að sötra.

Veitingastaðurinn greindi sjálfur frá mistökunum og sagðist vona að viðskiptavinurinn hafi notið sopans og að mannleg misstök geti alltaf átt sér stað og því verði enginn rekinn vegna þessara mistaka. Vel gert hjá þeim að snúa umtalsverðu tjóni upp í góða frétt.

mbl.is/skjáskot
mbl.is