Yndisaukandi spínatbaka með feta

Við sleeeefum yfir þessari spínatböku!
Við sleeeefum yfir þessari spínatböku! mbl.is/Betina Hastoft

Þessi æðislega baka mun fljótt komast á matarplanið og verða vikulega á dagskrá hér eftir. Rjómakennd baka með fetaosti, spínati, ricotta og fersku chili er eitthvað sem við sláum ekki hendinni á móti. Hér er venjulegum tertubotni skipt út fyrir þunnar kartöfluskífur sem gera bökuna enn safaríkari og hollari.

Yndisaukandi spínatbaka með feta (fyrir 4)

 • 3 stórar bökunarkartöflur (ca. 600 g)
 • 2 msk. ólífuolía
 • smelluform, 24 cm
 • smjör til að smyrja formið

Fylling:

 • 1 stórt hvítlauksrif
 • 1 rautt chili
 • 350 g ferskt spínat
 • 1 msk. ólífuolía
 • 2 egg
 • 100 g ricotta
 • 100 g fetaostur
 • ½ búnt steinselja
 • rifinn börkur af ½ sítrónu
 • ½ tsk. múskat
 • salt og pipar

Aðferð:

 1. Skrælið kartöflurnar og skerið tvær af þeim í mjög þunnar skífur, jafnvel með mandolín járni. Skerið þriðju kartöfluna í þunnar skífur á lengdina.
 2. Steikið kartöfluskífurnar á báðum hliðum upp úr olíu á pönnu þar til ljósbrúnar. Leggið á eldhúspappír og látið olíuna leka af.
 3. Smyrjið smelluformið með smjöri og líka kantana. Dekkið botninn á forminu með kringlóttum kartöfluskífum og leggið löngu kartöfluskífurnar upp hliðarnar á forminu. Skífurnar mega alveg fara hver yfir aðra.
 4. Hitið ofninn á 185°C.
 5. Saxið hvítlaukinn og chili smátt. Skolið spínatið og hitið í potti upp úr olíu ásamt chili og hvítlauk í 3 mínútur. Kælið örlítið.
 6. Pískið egg og ricotta saman í skál og bætið fetaosti út í. Saxið steinseljuna og bætið út í eggjablönduna ásamt sítrónuberkinum og múskatinu.
 7. Saxið spínatið og setjið útí eggjablönduna. Kryddið með salti og pipar. Hellið í bökunarformið og bakið í ofni í 40 mínútur þar til blandan er föst í sér.
mbl.is