Allt með felldu en svo sérðu sardínurnar

Skonsur, rækjusalat, smjör, rauðrófur, egg, og svo sardínur ofan á …
Skonsur, rækjusalat, smjör, rauðrófur, egg, og svo sardínur ofan á allt. Er þetta brauðterta eða eitthvað annað og meira? Á Twitter eru menn síður en svo á eitt sáttir um málið. Ljósmynd/Twitter

Þykkar skonsur í stafla, laglegt lag af rækjusalati á milli hverrar hæðar, væn flís af smjöri á efstu sneiðinni, harðsoðin egg allan hringinn efst, skreytt hvert um sig með niðursoðnum rauðrófudepil, í miðjunni sex arma Betlehemstjarna af sardínum beint úr dósinni og að lokum aftur tignarlegur hóll af rækjusalati, eins og til þess að kóróna sköpunarverkið.

 Er þetta brauðterta?

Á tímum kórónuveirunnar hafa menn meiri tíma á höndum en vanalega og þaðan af meira ráðrúm til þess að taka ígrundaða afstöðu til matarvenja annarra, eins og til rækjusalatskórónaðra sköpunarverka eins og þess sem hér er lýst.

Dæmi um yfirlýsingu um réttinn sem hér er til umræðu: „Ég veit að ég tala fyrir munn meirihluta Íslendinga í þessu máli, og það er sjaldgæft. Þetta er sorglegt og forkastanlegur viðbjóður,“ skrifar Þorvaldur Sverrisson auglýsingamaður.

Það var Særún Pálmadóttir, samskiptastjóri Haga, sem deildi mynd af girnilegheitunum á Twitter, sem sé því, sem hún segir „skilgreiningu föður síns á brauðtertu“. Hún virðist sjálf gagnrýnin á skilgreininguna og furðar sig af léttúð á því að hún skuli upprunnin sjálf úr umhverfi þar sem önnur eins matreiðsla er til siðs: „Að ég sé dóttir þessa manns,“ skrifar hún.

Eins og má sjá af viðbrögðum sumra er ekki alls kostar óvanalegt að skonsur og rækjusalat eigi samleið í brauðtertum, en það virðast vera sardínurnar sem helst stinga í augun. Nokkrir segja í svari við tístinu að þeir hafi raunar verið einlægt áhugasamir um að neyta þessarar fæðu, allt þar til sardínurnar voru kynntar til leiks.

Tilraun Særúnar til þess að tengja sardínurnar við Strandir rennur út í sandinn, þar sem Birta Sæmundsdóttir, sem á líka föður sem heldur sardínum til streitu á skonsubrauðtertum, reynist ekki ættuð frá Ströndum, heldur Norðfirði á Austurlandi. „Það gæti ekki verið lengra í burtu,“ gengst Særún við og útskýrir að faðir hennar hafi fengið þetta frá móður sinni, sem fyrir sitt leyti var alin upp á Ströndum og síðar Hólmavík.

Ljóst er að fæstir láta bjóða sér upp á þessa samsetningu og fólk er ekki lengi að setja þetta í samhengi við ástandið á síðustu og verstu tímum: „Hvað er hann eiginlega búinn að vera lengi í sóttkví?“ spyr einn áhyggjufullur. Annar mælir með drastískum viðbrögðum, og sér ástæðu til þess að gera almannavörnum viðvart umsvifalaust.- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is