Matur fátæka mannsins slær í gegn: Saðningaraldin í stað kjöts

Varghese Tharakkan verkarsaðningaraldin á plantekrusinni í Thrissur á Indlandi.
Varghese Tharakkan verkarsaðningaraldin á plantekrusinni í Thrissur á Indlandi. AFP

Thrissur, Indlandi. AFP. | Ávöxturinn er grænn, alsettur göddum og gefur frá sér mikla, sæta lykt. Saðningaraldin var áður illgresi í bakgörðum á suðurströnd Indlands en er nú að verða eftirlæti þeirra sem vilja sniðganga kjöt á Vesturlöndum.

Saðningaraldin hefur öldum saman verið hluti af mataræði í Suður-Asíu. Svo mikið var af því að árlega fóru heilu tonnin í súginn. Nú eru Indverjar, sem eru helstu framleiðendur saðningaraldins, farnir að færa sér vinsældirnar í nyt. Saðningaraldininu er hampað sem „ofurfæðu“ í stað kjöts og nýtur það vinsælda matreiðslumanna allt frá San Francisco til London og Delí vegna þess að því svipar til svínakjöts þegar það er ekki fullþroskað.

„Við fáum mikið af fyrirspurnum að utan ... Á alþjóðlegum mörkuðum hefur áhuginn á saðningaraldini margfaldast,“ sagði Varghese Tharakkan, sem rekur plantekru í Thrussur-héraði í Kirala á Indlandi.

Ávöxturinn vegur fimm kíló að meðaltali. Aldinkjötið er gult og vaxkennt þegar það er fullþroskað og er borðað ferskt eða notað í kökur, safa, ís og franskar. Óþroskað er það notað í karrírétti eða steikt. Á Vesturlöndum er rifið saðningaraldin orðið vinsælt í stað tætts svínakjöts og er jafnvel notað í álegg á pítsur.

„Fólk elskar þetta,“ segir Anu Bhambri, sem á veitingastaðakeðju í Bandaríkjunum og á Indlandi. „Saðningaraldintakó hafa slegið í gegn á hverjum einasta veitingastað. Saðningaraldinsteikin – hún er pöntuð á hverju borði og í uppáhaldi hjá mér.“

James Joseph sagði lausu starfi sínu sem stjórnandi hjá Microsoft þegar hann varð var við áhugann á saðningaraldini á Vesturlöndum og sá að það var farið að koma í staðinn fyrir kjöt í vegan-mataræði. Hann selur nú afurðir af ávextinum.

Hann segir að kórónuveirufaraldurinn hafi bætt í eftirspurnina með tvennum hætti.

„Kórónuveiran skapaði ótta við kjúkling og fólk skipti yfir í meyrt saðningaraldin. Í Kerala leiddu höftin til snaraukinnar eftirspurnar eftir þroskuðu, grænu saðningaraldini og aldinfræjum vegna skorts á grænmeti út af höftum á landamærum,“ sagði hann.

Áhugi á vegan-mataræði fór hraðvaxandi fyrir faraldurinn og það hafði sín áhrif á eftirspurn eftir staðgenglum fyrir kjöt. Eftirspurnin hefur gert að verkum að nýjar saðningaraldinekrur spretta upp í Kerala. „Það er fast undir tönn eins og kjöt – það veldur vinsældum og líkt og kjöt drekkur það kryddin í sig,“ sagði Joseph.

Saðningaraldinið þolir vel þurrka og þarf litla umönnun auk þess að vera næringarríkt. Tharakkan ræktaði áður gúmmítré en skipti yfir í saðningaraldin og getur ræktað það allan ársins hring. Hvert tré gefur af sér 150 til 250 ávaxta uppskeru.

„Þegar ég hjó niður gúmmítrén héldu allir að ég væri orðinn galinn,“ sagði hann brosandi. „Nú kemur sama fólkið og spyr hvað leyndarmálið sé á bak við velgengni mína.“

Eftirspurnin eftir saðningaraldini í Tamil Nadu og Kerala er 100 tonn á dag þegar mest er og veltan á ári er 19,8 milljónir dollara. Samkeppni fer vaxandi frá Bangladess og Taílandi. Áður fyrr var litið á saðningaraldinið sem ávöxt fátæka mannsins en nú er öldin önnur.

AFP
Saðningaraldin má elda með ýmsum hætti. Ávöxturinn var áður litinn …
Saðningaraldin má elda með ýmsum hætti. Ávöxturinn var áður litinn horn-auga, en vinsældir hans fara vaxandi á Vesturlöndum og ræktun eykst. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »