Ómótstæðileg jarðarberjabomba

Litlar unaðs marengskökur með jarðarberjarjóma.
Litlar unaðs marengskökur með jarðarberjarjóma. mbl.is/Bobedre.dk

Litlar, loftkenndar og gjörsamlega ómótstæðilegar marengskökur með hnetum og jarðarberjarjóma. Þessar eru of flottar og bragðgóðar til að láta framhjá sér fara.

Ómótstæðileg jarðarberjabomba

Hnetumarengs

 • 175 g hnetur, t.d. heslihnetur eða möndlur
 • 2 eggjahvítur
 • 175 g sykur
 • 100 g dökkt súkkulaði

Jarðarberjarjómi

 • 300 g jarðarber
 • 50 g flórsykur
 • 1 peli rjómi (eða meira ef vill)

Annað

 • 6 stálhringir, 8 cm í þvermál / það má líka notast við eitt stórt form, 20 cm
 • 300 g blönduð ber, t.d. jarðarber, hindber og rifsber
 • dökkt súkkulaði til að skreyta

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 160°C.
 2. Grófhakkið hneturnar – og passið að þær myljist ekki of mikið.
 3. Pískið eggjahvíturnar stífar. Bætið þá sykri saman við og pískið alveg stífar.
 4. Veltið hnetunum og saxaða súkkulaðinu í marengsinn.
 5. Setjið stálhringina á bökunarpappír á bökunarplötu og skiptið deiginu jafnt á milli formanna. Bakið í 25 mínútur.
 6. Hreinsið jarðarberin og stráið flórsykri yfir – blandið saman.
 7. Pískið rjómann og veltið jarðarberjunum saman við. Setjið rjómann í sprautupoka með stjörnulaga stút.
 8. Losið kökurnar úr forminu og sprautið jarðarberjarjómanum ofan á. Skreytið með jarðarberjum og súkkulaðispæni.

Uppskrift: BoBedre.dk

mbl.is