Best geymda leyndarmálið er á VOX

Sapience frá Marguet er einstakt vín og vel þess virði …
Sapience frá Marguet er einstakt vín og vel þess virði að prófa þegar maður á leið á VOX. mbl.is/Stefán E. Stefánsson

Það er ekki hægt að halda því fram að íslenskir neytendur valsi um auðugan garð þegar kemur að hágæða kampavíni. Þau eru sannarlega nokkur á boðstólum en þar er í flestum tilvikum um að ræða heimsþekkt vín frá stærstu húsum. En þó eru til undantekningar.

Eitt besta geymda leyndarmálið í þeim efnum má finna í glæsilegum vínrekkum veitingahússins VOX á Hilton Reykjavik Nordica. Þegar skyggnst er yfir vínseðilinn ber sannarlega fyrir augu Imperial Brut og Rosé frá Moët & Chandon, Dom Perignon (árgangur ekki tilgreindur) og skemmtilegar flöskur úr smiðju Bollinger, hið hefðbundna Special Cuvée en einnig R.D. 2004 og 1996. Þótt árgangskampavín heyri gjarnan til undantekninga á vínlistum veitingahúsa hér á landi og Dom Perignon og R.D. vínin frá Bollinger lýsi ákveðnum metnaði eru það aðrar flöskur sem vitna um hann á listanum hjá VOX.

Langt og farsælt samstarf

Í tæpan einn og hálfan áratug hefur veitingahúsið sjálft staðið fyrir innflutningi á kampavíni úr smiðju Benoît Marguet. Vínið sem kennt er við hann sjálfan, Marguet, hefur notið sífellt meiri vinsælda og hefur honum verið lýst sem „rísandi stjörnu“ í kampavínsheiminum. Er það í raun ráðgáta hvernig VOX tókst að detta niður á þennan mjög svo smáa framleiðanda fyrir svo löngu og viðhalda viðskiptasambandi við hann í allan þennan tíma, gegnum bankahrun og hvaðeina.

Segja forsvarsmenn VOX mér að Marguet hafi notið talsverðra vinsælda meðal viðskiptavina fyrirtækisins, en vínið fæst aðeins þar ásamt nokkrum stöðum sem heyra undir sama eignarhald á vettvangi Icelandair Hotels.

Mjög sanngjarnt verð

Grunnvínið Marguet Grand Cru er einnig á mjög samkeppnishæfu verði, 15.900 krónur flaskan og þá er einnig boðið upp á það í glasavís fyrir 2.500 krónur. Er flaskan 4.000 krónum ódýrari en Imperial Brut frá Moët og gerir það valið í raun auðvelt. Verðið mun hagstæðara og fágætara vín. Kemst áhugafólk um kampavín mun sjaldnar í Marguet en hið víðfræga og mjög svo útbreidda Moët.

Grand Cru Rosé kostar svo 17.900, sem telst einnig gott. Rosé kostar yfirleitt einhverjum þúsundköllum meira en hið hefðbundna vín í grunnlínu kampavínshúsanna. Það er framleitt í minna magni.

Shaman og Sapience eru þau vín frá Marguet sem VOX …
Shaman og Sapience eru þau vín frá Marguet sem VOX hefur lagt höfuðáherslu á en kampavínshúsið framleiðir allnokkrar tegundir, m.a. frábær einnarekruvín sem gaman er að bragða á. mbl.is/Stefán E. Stefánsson

Guðrún Björk Geirsdóttir veitingastjóri og hennar fólk láta hins vegar ekki staðar numið við grunnlínuna, sem hefði verið skiljanlegt í ljósi þess hve lítill íslenski markaðurinn er. En þau bjóða upp á tvær sérútgáfur frá Marguet að auki. Annars vegar einnarekruvínið Les Crayères sem er blanda að 70% Chardonnay og 30% Pinot Noir og er þekkt fyrir augljós og afgerandi áhrif kalksteinsins sem ekran stendur á. Kostar flaskan af Les Crayères 21.900 krónur.

Krúnudjásnið Sapience

Krúnudjásnið á seðlinum er svo án nokkurs vafa Sapience-vínið sem Marguet vinnur úr þrúgum sem keyptar eru frá ekki minni spámönnum en David Léclapart, Georges Laval og Benoît Lahaye. Þetta er vín sem er dálítið eins og Everest. Það er vísara að takast á við lægri fjöll áður en haldið er á þennan tind. Peter Liem hefur meira að segja fullyrt að það krefjist „þolinmæði og reynslu“ að skilja það til fulls. Verðmiðinn er heldur ekki sá árennilegasti, þótt ekki sé hann sá hæsti sem sést á kampavínsflöskum á íslenskum veitingahúsum. 35.900 krónur kosta herlegheitin. Þetta er þó vín sem er afar gaman að bragða á og „kljást við“ og það þarf að gefa sér tíma yfir flösku sem opnuð er. Vínið er í raun óárennilegt við fyrstu kynni en tekur miklum breytingum í glasi. Þótt undirritaður hafi ekki látið á það reyna má slá því föstu að það gerði þessu sérstæða víni mikið gagn ef því væri umhellt nokkru fyrir neyslu (það er gert með einstaka árgangsvín í kampavíni þótt það kunni að hljóma undarlega).

Fleiri vín gætu litið dagsins ljós

Það er vonandi að VOX haldi áfram að rækta sambandið við Marguet og geri með því íslensku áhugafólki um kampavín (ásamt erlendum gestum staðarins) kleift að nálgast þau forvitnilegu og umfram allt ljúffengu vín sem Benoît Marguet galdrar fram í víngerð sinni í Montagne de Reims.

Það er ekki hægt að gera kröfu til þess að veitingahús standi undir vínkjallara með margar tegundir víns frá einum og sama framleiðandanum. Hins vegar væri óneitanlega gaman ef VOX gerði á einhverjum tímapunkti aðgengileg vínin hans frá Le Mesnil-sur-Oger og Ambonnay og jafnvel Les Bermonts, La Grande Ruelle eða Le Parc. Líkurnar á því myndu hins vegar aukast ef tilvist Marguet á Nordica væri ekki vel falið leyndarmál. Allt of fáir vita af því að vínið sé yfir höfuð til á Íslandi.

Eitt má svo nefna að lokum til að undirstrika þann metnað sem VOX hefur sýnt í innflutningi á Marguet. Á veitingastaðnum er hægt að ganga að magnum (1,5 L) flöskum af Grand Cru, inngangsvíninu, einnig 3 L (Jeróbóam) og jafnvel Metúsalem (6 L). Verð á slíkum flöskum virkar við fyrstu sýn svimandi hátt en sé litið til þess að í stærstu flöskunni eru 64 glös er það nokkuð sem stór hópur ætti að geta klofið og leyft sér. Annað eins hafa menn nú gert þegar þeir gera sér glaðan dag.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 1. júlí 2020.

mbl.is