Ofngrillaður fiskur með kapers-vinaigrettu

Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Hér gefur að líta dásamlega uppskrift úr nýútkominni bók Nönnu Rögnvaldar, Borð fyrir einn. Uppskriftin er ein af hennar uppáhalds og ætti að slá í gegn við hvaða matarborð sem er.

„Mjög einföld og fljótleg fiskuppskrift. Hér eru hafðar kramdar kartöflur með og það er aðeins meiri fyrirhöfn en fyllilega þess virði. En auðvitað má líka hafa alls konar meðlæti annað,“ segir Nanna um uppskriftina góðu.

hlekkur

Ofngrillaður fiskur með kapers-vinaigrettu

  • 200 g fiskur, t.d. steinbítur
  • ¼ tsk. þurrkað óreganó
  • pipar og salt
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 msk. kapers
  • 2 tsk. hvítvíns- eða eplaedik
  • pipar

Hitaðu grillið í ofninum og kryddaðu fiskinn með óreganói, pipar og salti. Settu fiskinn á plötu (ýttu kartöflunum til hliðar ef á að grilla þær með). Dreyptu 1 tsk. af olíu yfir og grillaðu í 4-5 mínútur, eða eftir þykkt flakanna. Settu á meðan kaperskornin í sigti og skolaðu þau til að draga úr saltbragðinu. Hristu svo saman afganginn af ólífuolíunni, edik, kapers og pipar. Settu kartöflurnar og fiskinn á disk, e.t.v. ásamt salatblöðum, og helltu kaperssósunni yfir.

Ef kramdar kartöflur eru hafðar með er byrjað á að sjóða þær, kremja og baka síðan (sjá meðlætiskaflann), og grilla þær svo með fiskinum. Ef kartöflurnar þurfa aðeins lengri tíma má taka fiskinn út, setja á disk og grilla kartöflurnar í 2-3 mínútur í viðbót.

Kramdar kartöflur

  • 3-6 kartöflur, eftir stærð
  • 1 msk. smjör
  • salt
  • 1 msk. ólífuolía (eða meira smjör)

Sjóddu kartöflurnar þar til þær eru vel meyrar, 20-25 mínútur. Hitaðu ofninn í 220°C. Helltu vatninu af kartöflunum og láttu rjúka af þeim í um 5 mínútur. Settu þær þá á pappírsklædda plötu og þrýstu glasi eða öðru niður á þær til að fletja þær út í um 1 cm þykkt; þær eiga þó ekki að fara í sundur. Settu smjörklípu ofan á hverja og stráðu salti yfir. Bakaðu í 20-25 mínútur. Kveiktu á grillinu í ofninum, færðu kartöflurnar ofar og grillaðu þær þar til þær hafa tekið góðan lit og hýðið er stökkt. Penslaðu þær með ólífuolíu eða smjöri um leið og þær eru teknar úr ofninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert