Drykkur í sérflokki fyrir fólk í sérflokki

Að lýsa kostum Blue Label frá Johnny Walker snýst um …
Að lýsa kostum Blue Label frá Johnny Walker snýst um annað og meira en að reikna út summuna af verði og gæðum drykkjarins í excel-skjali. Ásgeir Ingvarsson

Þegar viskíáhugamenn spjalla um dýrt viskí í hæsta gæðaflokki spyrja þeir iðulega fyrst af öllu hvort drykkurinn sé peninganna virði.

Blue Label-viskíið frá Johnnie Walker, sem hér er til umfjöllunar, er fjórða dýrasta viskíið sem ÁTVR selur og kostar flaskan um 34.000 kr. Til samanburðar hafa þær viskítegundir sem ViðskiptaMogginn hefur fjallað um til þessa yfirleitt verið á verðbilinu 10.000 til 15.000 kr. Er ekki óeðlilegt að spyrja: fyrst Blue Label er þrefalt dýrara en annað viskí, er það þá þrefalt betra?

Stutta svarið er þetta: Blue Label er framúrskarandi viskí, auðdrekkanlegt, margslungið, hrífandi og í sérflokki. En ég gæti hæglega nefnt nokkrar viskítegundir sem mér þykja jafngóðar þótt þær kosti helmingi minna.

Langa svarið er að vörur eins og Blue Label snúast um annað og meira en að reikna út summuna af verði og gæðum í excel-skjali. Blue Label er nefnilega ekki viskí sem maður kaupir fyrir sjálfan sig, heldur glaðningur sem maður kaupir fyrir aðra. Ef bláa flaskan er tekin fram þegar gest ber að garði og skálað í gylltu gæðaviskíi, þá er það umfram allt til að sýna gestinum hve mikils hann er metinn. Blue Label er nefnilega ekki bara viskí í sérflokki, heldur viskí sem maður býður fólki sem er í sérflokki.

Ég hef notað dagana í aðdraganda jóla til að smakka Blue Label og rýna í drykkinn frá öllum hliðum, og einhverra hluta vegna hefur mér orðið hugsað til fólksins sem virðist alltaf tilbúið að láta sínar eigin þarfir mæta afgangi. Þetta eru foreldrarnir sem biðja aldrei um meira en ódýrt par af sokkum í jólagjöf en ganga alltaf úr skugga um að nóg sé af gjöfum undir trénu fyrir alla hina. Þetta eru vinirnir sem eru fyrstir til að rétta hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á en biðja aldrei um greiða sjálfir. Þetta eru vinnufélagarnir sem láta aldrei sitt eftir liggja, sinna störfum sínum með bros á vör, létta byrðunum af þeim sem eru að bugast og tryggja að allir komi í mark á sama tíma.

Það er þannig fólk sem Blue Label er fyrir – fólkið sem verðskuldar allt það besta í heiminum en er um leið fólkið sem myndi aldrei láta það eftir sér að spreða í svona dýrt og fínt viskí.

Laust við öfgar en samt með mikinn persónuleika

Um bragðgæðin er það að segja að Blue Label er vitaskuld einstaklega ljúffengur drykkur, blandað úr allrabestu viskítunnum Johnnie Walker og segir framleiðandinn að aðeins ein af hverjum 10.000 tunnum fyrirtækisins búi yfir réttu eiginleikunum til að fara í þessa úrvalsblöndu. Flaskan er eins og minímalískt listaverk, voldug og þung, og kemur í snoturri blárri og sterkbyggðri öskju.

Liturinn er glampandi rauðgullinn, dökkur og hrífandi, og anganin mild og sæt með tónum sem minna á kalkstein, eik, lofnarblóm, appelsínur, hunang og villtar jurtir. Bragðið er í megindráttum milt, hreint og tært, en engu að síður kitlandi: engifer, pipar, kanill, dökkt súkkulaði, epli og appelsína koma í ljós. Eftirbragðið er meðallangt, meðalheitt og meðalkryddað með laufléttum reykjarkeim. Blue Label tekst að vera laust við allar öfgar en er samt sneisafullt af persónuleika.

Blue Label er afskaplega fínt viskí – um það verður ekki deilt – en ekki viskí sem ég myndi splæsa á fyrir sjálfan mig. En ef ég fengi einhvern tíma aðra flösku af gjöf yrði ég djúpt snortinn. 

Þessi pistill birtist upphaflega í dálkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum 22. desember.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert