Einn fremsti kokkur landsins opnar veitingastað

Denis Grbic opnar veitingastaðinn Furu í Gósku Mathöll.
Denis Grbic opnar veitingastaðinn Furu í Gósku Mathöll.

Nú styttist í að Vera mathöll opni í Grósku í Vatnsmýri. Framkvæmdir eru langt komnar og er von til þess að opna fyrir gestum í fyrri hluta júlí.

Mathöllin er einkar glæsileg en það eru Hafsteinn Júlíusson og fyrirtæki hans HAF Studio sem sjá um alla hönnun.

Í mathöllinni verða átta veitingastaðir en fram til þessa hefur nokkur leynd hvílt yfir því hvaða staðir koma til með að starfa þar. Nú hefur hins vegar verið gefið út að á meðal þeirra er nýr staður í eigu eins af fremstu kokkum landsins, Denis Grbic.

Denis hefur verið lykilmaður í kokkalandsliði Íslands undanfarin ár og var meðal annars útnefndur kokkur ársins hér á landi árið 2016. Nýi staðurinn ber heitið Fura.

„Nafnið vísar í náttúruna en Ísland býður upp á ótrúleg hráefni sem hægt er að nýta til að skapa frábæran mat,“ segir Denis. Hann segir að lýsa megi Furu sem nýevrópskri matargerð með skandinavísku ívafi.

„Við ætlum að einbeita okkur að því að vinna með staðbundin hráefni eftir árstíðum og hafa gott úrval af hágæða víni,“ bætir hann við.

Auk Denis mun Hjörtur Friðriksson standa vaktina á Furu en hann er reynslumikill vínþjónn með brennandi áhuga á gerjuðum vínberjasafa og landafræðinni sem tengist honum. Denis og Hjörtur kynntust á Grillinu á Hótel Sögu þar sem þeir störfuðu saman um árabil.

„Grillið lokaði í miðjum heimsfaraldri og þetta er skemmtilegt tækifæri til að opna nýjan veitingastað í grennd við æskuslóðirnar úr bransanum. Húsið Gróska og allt umhverfið í kring eru virkilega spennandi og við hlökkum til að bjóða fólki upp á hágæða mat og vín,“ segir Denis.

mbl.is